Skjaldborgarhátíðin verður um hvítasunnuhelgina

Skjaldborg 2010
Skjaldborg 2010
Hvítasunnuhelgina 21.-24. maí verður Skjaldborg - hátíð íslenskra heimildamynda haldin í fjórða sinn á Patreksfirði.

 

Auk þess að frumsýna nýjar íslenskar heimildamyndir er hátíðinni ætlað að vera tækifæri fyrir kvikmyndagerðarfólk og áhugamenn um heimildamyndir til að koma saman. Í lok hátíðarinnar verður besta heimildamyndin á Skjaldborg 2010 valin af áhorfendum.

 

Á Skjaldborgarhátíðinni í fyrra voru frumsýndar hátt í 30 íslenskar heimildamyndir og hlaut dagskráin mikið lof kvikmyndagerðarfólks og annarra gesta.

 

Um leið og gróska hefur aldrei verið meiri í heimildamyndagerð hér á landi er nánast útilokað að fá myndirnar sýndar í kvikmyndahúsum eða sjónvarpi. Skjaldborg sýnir því heimildamyndir sem annars kæmu varla fyrir augu almennings og ber jafna virðingu fyrir hinu smáa, stóra, skrýtna og fokdýra. Á dagskrá hátíðarinnar hafa verið bæði örstuttar myndir og í fullri lengd og efnistökin fjölbreytt.

 

Öllum er heimilt að senda inn mynd til þátttöku og er skilafrestur til 1. maí.

 

Dómnefnd mun síðan velja þær myndir sem sýndar verða á hátíðinni. Myndin má hvorki hafa verið sýnd í sjónvarpi né í kvikmyndahúsi. Eins og venja hefur verið undanfarnar hátíðir er stefnt að því að 1-2 aðstandendur valinna mynda fái far á hátíðina og gistingu meðan á hátíðinni stendur.

 

Viljirðu koma heimildamynd á hátíðina vinsamlegast sendu DVD eintak á:
Skjaldborg - hátíð íslenskra heimildamynda

Pósthólf 272

172 Seltjarnarnes

 

Dagskrá hátíðarinnar verður kynnt þegar nær dregur.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is