Skólaslit Tónlistarskóla Vesturbyggðar vorið 2012

Tónlistarskóli Vesturbyggðar var settur 4. september síðast liðinn og hefur skólastarfið í vetur hefur að mestu gengið mjög vel.

 

Tónlistarskólinn flutti frá Stekkum 21 í Grunnskólann á Patreksfirði, þar sem bókasafnið og félagsmiðstöðin eru til húsa. Það gleður okkur að um meiri samvinnu er að ræða milli skólanna og einning mjög þægilegt fyrir kennara, nemendur og foreldra að vera með allt á sama stað.

 

Á skólaárinu var kennt á Bíldudal og Birkimel fyrir hádegi á þriðjudögum og miðvikudögum og var það gert til skiptis aðra hvora viku. Á Patreksfirði var kennt eftir hádegi frá mánudegi til föstudags

 

Á skólaárinu stunduðu 40 nemendur nám við Tónlistarskóla Vesturbyggðar. Nemendur sem skráðu sig í skólann voru í reglulegu söng- og hljóðfæranámi. Hljóðfæri sem nemendur æfðu og léku á í vetur voru: píanó, hljómborð, fiðla, selló, blokkflauta, trommur, gítar, bassi og söngnám. Þeir nemendur sem voru í tónlistarskólanum lærðu einnig tónfræði, tónheyrn, tónlistarsögu, hlustun og nótnalestur sem nauðsynlegt er vegna stigsprófs.

 

Það voru tvær samæfingar á starfsárinu. Ein á haust önn sem haldin var 16. nóvember síðast liðinn, á degi íslenskrar tungu og fluttu nemendur mörg lög, bæði íslenskt og erlend. Hin samæfingin á vor önn, var haldin 28.mars síðast liðinn, þar sem nemendur fluttu mest lög úr „Disneymyndum".

 

Það æfðu tveir barnakórarf á skólaárinu 2011-2012. Annar kórinn, Barnakórinn „Fróstrósir" (frá 6-10 bekk) byrjuðu æfingar í byrjun nóvember síðast liðinn, bæði hér í Vesturbyggð og Tálknafirði. Kórinn átti að syngja 12 lög með tónlistarmönnum á tónleikum Frostrósa sem áætlað var að halda í Tálknafjarðarkirkju 21. desember síðast liðinn. Því miður varð ekkert af því, en nemendurnir voru einstaklega duglegir og lögðu sig alla fram og kunna lögin mjög vel. Kannski notum þetta í framtíðinni.


Hinn barnakórinn ,,Jólakórinn" ( frá 3-7) bekk æfði á aðventunni og flutti nokkur jólalög á aðventukvöldi sem haldið var 11. desember síðast liðínn í Patreksfjarðarkirkju. Það er einlæg hvatning kennara til foreldra að þeir beini því sérstaklega til barna sinna á komandi skólaári að mæta alltaf til æfinga í þessa kóra okkar, því söngurinn eflir sálina og samheldni nemenda.

 

Sex tónleikar voru haldnir í skólanum á skólaárinu 2011 - 2012. Þrennir jólatónleikar í desember (á Bíldudal, Birkimel og Patreksfirði) og þrennir vortónleikar í maí síðast liðnum.

 

Aðgangseyrir að tónleikum skólans voru 500 krónur sem renna eins og alltaf í hljóðfærasjóð Tónlistarskóla Vesturbyggðar.

Hljóðfærasjóður skólans keypti á starfsárinu nýtt selló, sellópoka, selló- og fiðluboga, trommustól og fleiri aukahluti sem nauðsynlegir eru til notkunar í skólanum. Þá var einnig gert við nokkur hljóðfæri sem í ólagi voru og eru þau sem ný í dag.

 

Þann 14. maí síðast liðinn voru haldin mistigs-miðpróf sem fram fóru á Ísafirði undir eftirliti dómara frá Reykjavik. Þess má geta að Félag tónlistarkennara á Íslandi hefur á að skipa prófanefnd sem fer um landið og prófar lengra komna nemendur í sínu námi. Edda Bára Árnadóttir þreytti prófið á píanó og lauk hún því með 9, 3 í einkun.

 

Sex nemendur tóku stigspróf hér í Vesturbyggð. Þeir voru, Birna Sólbjört Jónsdóttir og Veronika Karen Jónsdóttir á píanó frá Bíldudal og Anna Jensdóttir, Birkir Davíðsson, Dröfn Árnadóttir og Saga Ólafsdóttir, í tónfræði frá Patreksfirði.

 

Allir nemendur skólans tóku árspróf.

 

Öll verðlaun sem veitt voru nemendum fyrir framúrskarandi námsárangur gaf Íslenska kalkþörungafélagið á Bíldudal.

 

Á stigsprófi með hæstu einkunn 8.8 eru nemendur sem leika á píanó. Þær eru: Birna Sólbjört Jónsdóttir og Veronika Karen Jónsdóttir, Edda Bára Árnadóttir fyrir góða vinnu, mjög góðan árangur og hæstu einkunn á miðprófi á píanó með 9,3 í einkunn, Narfi Hjartarson fyrir góða vinnu, ástundun., mjög góðan árangur og hæstu einkunn á ársprófi á gítar með 9,1. Hæstu einkunn á stigsprófi í tónfræði með 9,7 í einkunn hlýtur Saga Ólafsdóttir.

 

Íslenska Kalkþörungafélagið á Bíldudal færði öllum nemendum, sem þóttu skara fram úr gjafabréf. Gjafabréfin voru að upphæð 5.000 kr. hvert. Hægt er að versla fyrir upphæðina hvar sem er.

 

Forráðamönnum Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal, Guðmundi Valgeir Magnússyni framkvæmdastjóra fyrirtækisins er sérstaklega þakkað fyrir fyrir glæsilegar gjafir til handa nemendum skólans.

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is