Sorgleg niðurstaða fyrir svæðið í heild.

"Það þýðir að þarna valsar fullt af ferðafólki stjórnlaust um og engin klósett verða opin. Það stefnir í umhverfisslys," segir Keran St. Ólason, bóndi og ferðaþjónn í Breiðavík við Látrabjarg. Vinna við friðlýsingu Látrabjargs og nágrennis hefur stöðvast vegna andstöðu hluta landeigenda.

Í allnokkur ár hefur verið unnið að undirbúningi friðlýsingar Látrabjargs og nágrennis. Sveitarfélagið Vesturbyggð og Umhverfisstofnun hafa unnið að því í samvinnu við landeigendur. Vesturbyggð hefur raunar haft áhuga á að stofna þjóðgarð á svæðinu.

Meirihluti landeigenda hefur verið jákvæður fyrir hugmyndinni og forystumenn landeigendafélagsins Bjargtanga unnið að framgangi þess. Lengi hefur þó verið vitað um andstöðu innan hópsins. Náðu hinir síðarnefndu völdum í félaginu á nýlegum aðalfundi.

Í lögum um náttúruvernd er kveðið á um að Umhverfisstofnun skuli hafa samráð við landeigendur og leitaði stofnunin eftir samþykki fyrir áframhaldandi vinnu.

Hætta á skemmdum vegna ferðafólks

Unnið er að friðlýsingu Látrabjargs á grunni náttúruverndaráætlunar. Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir að Látrabjarg sé mikilvægt fuglasvæði á evrópska vísu og mikilvægt talið að vernda það.

Talið er að þangað leggi um 100 þúsund ferðamenn leið sína á hverju sumri. Starfsmaður Umhverfisstofnunar hefur annast landvörslu á sumrin. Sigrún segir að almennt sé ekki landvarsla utan friðlýstra svæða. Því verði landvarsla þarna í lágmarki. Segir hún þó að landvörður á sunnanverðum Vestfjörðum muni líta til með svæðinu. Stofnunin muni ekki vinna að frekari uppbyggingu fyrir ferðafólk að sinni. Hún segir að hætta sé á skemmdum af völdum stjórnlausrar umferðar ferðafólks og minni möguleikar á að huga að öryggi fólks.

Sigrún tekur það fram að ef afstaða landeigenda breytist verði hægt að taka þráðinn upp að nýju.

Frétt frá mbl.is

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is