Umhverfisvika í Vesturbyggð

Vesturbyggð
Vesturbyggð
Nú er sumarið á næsta leyti og framundan eru sjómanndagshelgi (2.-5. júní), Skjaldborgarhátíðin (10.-13. júní), Bíldudals grænar... (24.-26. júní) og tvö sjóstangaveiðimót: Sjóstangaveiðifélags Reykjavíkur (20.-21. maí) og alþjóðlegt sjóstangveiðimót EFSA (27.-28. maí), bæði verða þau haldin á Patreksfirði.

Auk þess verða vegleg hátíðarhöld 17. júní á Hrafnseyri í tilefni af 200 ára afmælisári Jóns Sigurðssonar. Það má því búast við fjölda ferðamanna á þessu tímabili og því mikilvægt fyrir okkur öll að hafa samfélagið okkar fallegt. Það er ekki síður mikilvægt fyrir okkur sjálf.

Vikuna 16.-22. maí verður umhverfisvika í Vesturbyggð þar sem við íbúarnir ætlum að taka höndum saman og hreinsa til í Vesturbyggð undir forystu þjónustumiðstöðva og hafna Vesturbyggðar.

Á þessu tímabili mun Vesturbyggð auka þjónustu, m.a. að sóttur verði snyrtilega frágenginn garðúrgangur og ónýtir munir sem settir verða við lóðamörk. Starfsmenn áhaldahúss munu sækja rusl við hús alla virka morgna þá viku sem átakið stendur yfir.

Einnig eru fyrirtæki hvött til að taka til og henda eða setja í geymslu þá hluti sem ekki eru í beinni notkun og liggja undir skemmdum. Hægt er að sækja um geymsluaðstöðu í geymslugirðingum Vesturbyggðar.

Uppsátur fyrir báta er í undirbúningi á Patreksfirði og eru eigendur báta beðnir um að nýta sér það í samvinnu við Vesturbyggð.

Gámar og kör

Þeir eigendur gáma eru vinsamlega beðnir að sækja um stöðuleyfi fyrir þeim til tæknideildar.

 

Átakið á hafnarsvæðinu á Patreksfirði miðast við að öll kör sem ekki eru í daglegri notkun fari á geymslusvæði. Eigendur karanna eru vinsamlega beðnir að hafa samband við tæknideild.

 

Til stendur að veita verðlaun fyrir fallegustu garða sveitarfélagsins og fallegasta umhverfi fyrirtækja í lok sumars.

 

Sameinumst í verki og tökum til!

 

Allar nánari upplýsingar veita forstöðumaður tæknideildar, verkstjórar þjónustumiðstöðva, hafnarverðir og bæjarstjóri.

Kær kveðja
Ásthildur Sturludóttir,
bæjarstjóri Vesturbyggðar
 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is