Umsóknarfrestur til Menningarráðs rennur út á föstudaginn

Menningarráð Vestfjarða minnir á að umsóknarfrestur til ráðsins rennur út á föstudaginn kemur, 22. febrúar. Hægt er að skila inn umsóknum sem viðhengi í tölvupósti eða í gegnum vefsíðuna www.vestfirskmenning.is til miðnættis þann dag. Á vefsíðu ráðsins má einnig nálgast umsóknareyðublöð og allar leiðbeiningar. Hægt er að sækja um styrki í tveimur flokkum, bæði til afmarkaðra menningarverkefna og líka stofn- og rekstrarstyrki til menningarstofnana í fjórðungnum. Starfsemi Menningarráðsins byggist á samningi milli ríkisins og sveitarfélaga á Vestfjörðum og er t ilgangur styrkjanna að efla menningarstarfsemi og menningartengda ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Umsóknir og verkefni hverju sinni eru borin saman á samkeppnisgrundvelli. 

 

STOFN- OG REKSTRARSTYRKIR  

 

Menningarráð Vestfjarða auglýsir nú í annað skipti eftir umsóknum um stofn- og rekstrarstyrki. Umsækjendur þurfa að skila ítarlegum upplýsingum um starfsemi sína. Ákveðið hefur verið að við úthlutun stofn- og rekstrarstyrkja 2013 verði horft sérstaklega til umsækjenda sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða:   

 

# Stuðla að því að efla menningarstarfsemi á sviði lista, safna og/eða menningararfs.

# Stuðla að nýsköpun í menningarstarfsemi.

# Styðja við menningarstarfsemi sem fjölgar atvinnutækifærum á svæðinu.  

 

VERKEFNASTYRKIR

 

Jafnframt er auglýst eftir umsóknum um verkefnastyrki til afmarkaðra menningarverkefna, en vakin er athygli á að á árinu 2013 verður aðeins auglýst eftir verkefnastyrkjum í þetta eina skipti. Fylgiskjöl með umsóknum um verkefnastyrki eru afþökkuð, allt sem skiptir máli á að koma fram í umsókninni sjálfri. Menningarráð Vestfjarða hefur ákveðið að við úthlutun verkefnastyrkja 2013 verði horft sérstaklega til verkefna sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða:  

 

# Verkefni sem efla samstarf á sviði menningarmála á Vestfjörðum.

# Verkefni sem stuðla að nýsköpun og fjölbreytni í menningartengdum verkefnum.

# Verkefni sem fjölga atvinnutækifærum á sviði menningar.

# Menningarstarfsemi sem styður við ferðaþjónustu. # Verkefni sem stuðla að þátttöku barna og unglinga í lista- og menningarlífi.

 

Umsóknarfrestur um styrki er til og með 22. febrúar 2013.   

 

Allar nánari upplýsingar gefur Jón Jónsson menningarfulltrúi Vestfjarða í síma 891-7372 eða í netfanginu menning@vestfirdir.is .

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is