Undirritun heildarsamkomulags um málefni fatlaðra

Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Halldór Halldórsson, formaður sambandsins og Karl Björnsson framkvæmdastjóri sambandsins undirrita samkomulagið í Þjóðmenningarhúsinu
Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Halldór Halldórsson, formaður sambandsins og Karl Björnsson framkvæmdastjóri sambandsins undirrita samkomulagið í Þjóðmenningarhúsinu
Í vikunni var undirritað heildarsamkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um yfirfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga.

 

Sú þjónusta sem ríkið hefur veitt fötluðu fólki færist nú til sveitarfélaga þann 1. janúar 2011. Sveitarfélög og þjónustusvæði á vegum þeirra taka þá við ábyrgð á framkvæmd og fjármögnun þjónustunnar, óháð því hvort hún hefur verið veitt af ríki, sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum eða öðrum aðilum, með þeim réttindum og skyldum sem henni tengjast. Markmiðið með yfirfærslunni er eftirfarandi:

 

  • Bæta þjónustu og auka möguleika til að laga hana að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum,
  • Stuðla að samþættingu nærþjónustu við íbúa sveitarfélaga,
  • Tryggja að eitt stjórnsýslustig beri ábyrgð á stærstum hluta almennrar félagsþjónustu, bæta samhæfingu og draga úr skörun ábyrgðarsviða stjórnsýslustiga,
  • Tryggja góða nýtingu fjármuna,
  • Styrkja sveitarstjórnarstigið og
  • Einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

 

Þetta er stór áfangi fyrir málaflokkinn og sveitarfélögin í landinu en um er að ræða eina viðamestu endurskipulagningu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá flutningi grunnskólans árið 1996.

 

Heildarsamkomulagið er birt á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga og þar er jafnframt að finna ítarlegar upplýsingar um yfirfærsluna.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is