Veðurstöð á Brellum og varnarvirki í Vesturbyggð

Veðurstofa Íslands setti upp veðurstöð uppi á Brellum í lok nóvember sl. til þess kanna vindafar á fjallinu ofan Patreksfjarðar. Stöðin er rekin með tilstyrk Ofanflóðasjóðs. Meðfylgjandi ljósmynd sýnir veðurstöðina sem staðsett er skammt ofan við vörðuna í fjallsbrúninni ofan við sjúkrahúsið.

Veðurstöðin á Brellum

Mælingarnar eru liður í undirbúningi uppsetningar snjósöfnunar­grinda sem lagt hefur verið til að reisa á fjallinu til þess að draga úr snjósöfnun í skafrenningi niður í hugsanleg upptakasvæði snjóflóða sem ógnað geta byggðinni við Urðir og Mýrar. Kortið hér að neðan sýnir tillögu að staðsetningu slíkra grinda. Hún var unnin í samvinnu við svissneskan snjóflóðasérfræðing sem tekur þátt í vinnu verkfræðistofunnar Verkís við frumathugun á varnaraðgerðum fyrir byggðina í grennd við hafnarsvæðið á Patreksfirði.

Loftmynd með tillögum um að staðsetningu á snjóflóðagrindum og vindkljúfum.

Dæmi um snjóflóðagrindur og vindkljúfa

Snjósöfnunargrindurnar eru einn nokkurra þátta í varnaraðgerðum gegn snjóflóðum í Vesturbyggð sem eru til athugunar um þessar mundir. Þessar aðgerðir voru ræddar á borgarafundi þann 15. janúar sl. í framhaldi af fundi um sama mál í bæjarstjórn Vesturbyggðar fyrr um daginn. Fundirnir fjölluðu sérstaklega um varnir fyrir Sigtúnssvæðið á Patreksfirði en einnig komu til umræðu varnir fyrir Urðir og Mýrar ofan hafnarinnar, svæðið við sjúkrahúsið og skólann þar sem reistur hefur verið þvergarður, byggðina neðan Stekkagils og byggðina á Bíldudal innan Búðargils. Svo merkilega vildi til að í desember féllu tvö snjóflóð ofan hafnarsvæðisins á Patreksfirði, sjá meðfylgjandi kort, og eru þau áminning um það að mikilvægt er að huga að varnaraðgerðum fyrir byggðina á þessu svæði.

Kort af snjóflóðum í des 2014

Snjóflóðavarnir fyrir Patreksfjörð hafa verið til athugunar síðan 1997. Árið 1998 var lögð fram tillaga um varnir gegn krapaflóðum úr Stekkagili þar sem mannskætt krapaflóð féll 22. janúar 1983. Síðan þá hafa verið reist varnarvirki á tveimur svæðum í Vesturbyggð, svæðið við sjúkrahúsið og skólann á Patreksfirði sem fyrr var nefnt, og neðan Búðargils á Bíldudal þar sem reistur var leiðigarður. Að auki eru framkvæmdir vegna krapaflóðavarna við Litladalsá í gangi.

Veðurstöðin á Brellum hefur nú mælt vindstyrk og vindstefnu í tæpa tvo mánuði og sýna niðurstöðurnar að norðaustan- og suðvestanáttir voru ráðandi fyrir þetta tímabil, eins og sést á meðfylgjandi vindrós sem sýnir mælingar þegar hiti var undir 1°C og vindur var sterkari en 5 m/s.

Vindrós af veðurstöð Brellum 27.11.14 til 14.01.15

Myndir af niðurstöðum sl. viku sem uppfærist sjálfvirkt er að finna á:

"http://brunnur.vedur.is/athuganir/sjalfvirkar/patrb/"

(ef smellt er á einhverja myndanna er þysjað inn á sl. sólarhring).

Gert er ráð fyrir að veðurstöðin verði rekin í um tvö ár og að reistar verði tilraunagrindur á því tímabili til þess að kanna virkni snjósöfnunargrinda á fjallinu fyrir ofan Patreksfjörð áður en endanleg ákvörðun verður tekin um uppsetningu grinda skv. tillögunni sem lögð er fram í drögum að frumathugun.

Forgangsröðun varnaraðgerða á Patreksfirði var mikið rædd á borgarafundinum þann 15. janúar. Ljóst er að brýnast er að grípa til varnar fyrir byggðina við Urðir og Mýrar, og fyrir svæðið neðan Stekkagils. Hins vegar eru torvelt að koma fyrir vörnum á þessum svæðum, m.a. vegna þéttleika byggðar. Sveitarstjórn þarf að ákveða hvar verður næst hafist handa við varnarframkvæmdir. Einn möguleiki sem ræddur var á fundinum var að skipta varnaraðgerðum fyrir Urðir og Mýrar upp í tvo aðskilda áfanga sem kæmu til framkvæmda á mismunandi tímum. Jafnframt hefur bæjarstjórn óskað eftir endurskoðun á fyrri tillögum, sem nú er unnið að. Þeirri endurskoðun fylgja m.a. frekari rannsóknir á snjóalögum og jarðvegsaðstæðum ofan Mýra.

Tillögur að snjóflóðavörnum í Vesturbyggð eru liður í umfangsmikilli uppbyggingu snjóflóðavarna víða um land sem hrundið var af stokkum eftir mannskæð snjóflóð í Súðavík og á Flateyri árið 1995. Um 15 milljörðum kr. hefur verið varið til þessarar uppbyggingar að núvirði en áformað er að henni verði lokið árið 2020.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is