Vel heppnaður fundur um atvinnumál

Fundargestir
Fundargestir
Um 500 manns sóttu fund í Félagsheimili Patreksfjarðar um atvinnumál á suðursvæði Vestfjarða en fundurinn var einnig aðgengilegur yfir Netið.

 

Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur stóðu að fundinum og boðuðu til hans íbúa svæðisins, þingmenn Norðvesturkjördæmis og ýmsa hagsmunaaðila.

 

Mikil einurð var í fundarmönnum og voru átta framsöguerindi flutt. Mikið var um fyrirspurnir og fram fór málefnaleg og góð umræða þar sem fjallað var um samgöngumál, sjávarútvegsmál og verndun opinberra starfa svo dæmi séu tekin.

 

Fundarmenn mótmæltu kröftulega úrræðaleysi ríkisins í samgöngumálum á svæðinu og einnig mótmælti fundurinn flutningi sýslumanns Barðastrandasýslu yfir á Ísafjörð.

 

Fundarmenn létu einnig í ljós mikla óánægju með fyrirhugaðan niðurskurð til heilbrigðisstofnana á svæðinu. Á það var bent á að lítið sparist við að flytja fólk til Reykjavíkur til aðhlynningar. Þá þykir heimamönnum það heldur djarft í ljósi þess að ekkert sé hægt að treysta á flug stóran hluta úr ári.

 

Fyrr um daginn sátu sveitastjórnarmenn á Vestfjörðum og þingmenn kjördæmisins fund þar sem álíka umræða fór fram.

 

Á þeim fundi var fjallað sérstaklega um fjármál sveitarfélaga og mótmæltu sveitastjórnarmenn niðurskurði á framlögum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Um leið settu sveitastjórnarmenn fram þá kröfu að ríkið færi í langtíma fjárhagsáætlunargerð sem komi til móts við fjárhagsáætlanir sveitarfélaga.

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is