Við áramót

Ásthildur Sturludóttir
Ásthildur Sturludóttir
Við áramót er rétt að líta yfir farinn veg um leið og nýju ári er fagnað. Líðandi ár hefur verið mjög viðburðaríkt hér í Vesturbyggð.

Þetta hefur verið ár mikilla breytinga; fjárhagsleg endurskipulagning, fjölgun verkefna, aukin umsvif og fólksfjölgunsem er ákaflega gleðileg.

Um síðustu áramót tóku sveitarfélögin við málefnum fatlaðra frá ríkinu. Samhliða því stofnuðu Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur til samstarfs um félagsþjónustu til þess að takast á við þau mál sem fyrir liggja hverju sinni. Það starf hefur tekist vel. Unnið hefur verið að því að kanna með hvaða hætti megi bæta þjónustu við eldri borgara enda fjölgar þeim íbúum Vesturbyggðar sem teljast eldri borgarar mjög hratt. Margum töluð lyfta verður sett upp við Kamb á Patreksfirði um leið og veður leyfir á nýju ári en uppsetning hennar hefur verið samþykkt og fjármögnuð. Þá er nauðsynlegt að bæta aðstöðuna enn frekar almennt og hafa viðræður farið fram við Velferðarráðuneyti og Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar um aukið samstarf til þess að leysa þau mál til frambúðar. Er þess að vænta að þessi vinna skili árangri og geti leitt til aukinnar og bættrar þjónustu við þá sem aldraðir eru og þurfa þjónustu.

Við upphaf þessa árs tók til starfa nýr forstöðumaður Tæknideildar Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps . Hefur hann verið störfum hlaðinn síðan hann tók viðstarfi enda mikið um að vera og mikil þörf fyrir framkvæmdir á vegum bæjarins á svo mörgum sviðum, sérstaklega í viðhaldi eigna sveitarfélagsins og við veitur Vesturbyggðar. Þá eru hafnarframkvæmdirí fullum gangi á Patreksfirði en þeim mun ljúka í vor og hafnarframkvæmdir eru að hefjast í Tálknafirði. Það er mjög gleðilegt að fylgjast með aukningu á tekjum hafnarsjóðs enda eru hafnirnar lífæðar samfélaganna hér á svæðinu og fjölbreytt umsvif sem þar fara fram. Kalkþörungar, ferðaþjónusta, laxeldi og síðast en ekki síst landaður afli eru kjölfestan í tekjum hafnanna. Deiliskipulagi Patrekshafnar lauk í vetur og mikið hefur verið gert í að bæta umhverfi hafnanna í Vesturbyggð. Því verkefni er þó hvergi nærri lokið enda umfangsmikið.

Samstarf Vesturbyggðar og Tálknafjarðar hefur verið með miklum ágætum og fjölmörg verkefni sem sveitarfélögin hafa sameinast um enda er það eina leiðin fyrir svo lítil sveitarfélög að takast saman á við kostnaðarsöm og umfangsmikil verkefni.

Allt síðast ár hefur verð unnið hörðum höndum að því að endurskipuleggja rekstur sveitarfélagsins og leita leiða til þess að lækka fjármagnskostnað. Allt það starf er smátt og smátt að bera árangur enda hefur verið lögð áhersla á að vinna allt í góðu samstarfi við Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga (EFS) og lánastofnanir.Eignir hafa verið seldar og reksturinn endurskoðaður af ráðgjöfum EFS og breytingar gerðar skv tillögum þeirra.

Vesturbyggð tók í lok ársins 2007 myntkörfulán í Landsbankanum að upphæð 80 milljón króna til kaupa á stofnfjárbréfum í SpKef en Sparisjóður Vestfirðinga hafði áður runnið inn í hann. SpKefvarð síðar gjaldþrota. Í kjölfar bankahrunsins féll gengi íslensku krónunnar og lánið sem tekið var tvöfaldaðist og varð um 150 milljónir króna. Í sumar leiðréttist það lán í kjölfar svonefnds MótorMax dóms. Rétt fyrir jól gaf Landsbankinn út að lán sem tekin voru til stofnfjárbréfakaupa yrðu felld niður. Virðist sú ákvörðun vera tekin sem liður í því að endurreisa og bæta stöðu bankans gagnvart viðskiptavinum og er það fagnaðarefni. Það er einnig jákvætt innlegg í framtíðar-viðskipti. Samt sem áður er rétt að taka öllum fréttum með varúð því ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið. Áhrif þessa gjörnings yrðu þau að skuldir A-hluta bæjarsjóðsVesturbyggðar lækka um 10% og greiðslubyrði um c.a.14 milljónir á næsta ári. Eftir sem áður er ósamið við Byggðastofnun og Íbúðalánasjóð en þau lán eru með sama hætti mjög íþyngjandi.Ef þessi niðurstaða verður sú sem vonir standa til verður það mikill sigur fyrir sveitarfélagið og mun styrkja fjárhagslega stöðu þess. Samt sem áður er fjárhagsleg staða Vesturbyggðar ekki góð, þrátt fyrir mikinn viðsnúning og gríðarlegt aðhald í rekstri. Enn er ekki komin niðurstaða í viðræður við Byggðastofnun og Íbúðalánasjóð sem eru stærstu einstöku lánadrottnar sveitarfélagsins utan Lánasjóðs sveitarfélaga,um endurgreiðslu lána en vonandi mun einhver niðurstaða fást í það á næstu misserum.

Á árinu hafa staðið yfir viðræður milli landeigenda, Umhverfisstofnunar og Umhverfisráðuneytis um stofnun þjóðgarðs á Látrabjargssvæðinu. Mikill áhugi er fyrir verkefninu og er nú kominn til starfa starfsmaður Umhverfisstofnunar á Patreksfirði sem er að undirbúa þetta mál. Starfstöð hans er á bæjarskrifstofunni á Patreksfirði. Stofnun þjóðgarðs yrði mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á svæðinu og atvinnulífið almennt. Látrabjarg hefur mikið verndargildi á alþjóðlega vísu og er einstakt í heiminum. Látrabjarg er segull okkar svæðis og þarf að nýta betur. Þjóðgarður yrði grundvöllur þess.

Samgöngumálin hafa að venju verið okkur hugleikin í ár. Innanríkisráðherra lagði fram á haustdögum tillögu um nýtt vegstæði í Gufudalssveit sem var alfarið hafnað af hálfu heimamanna Ráðherra hefur nú tilkynnt breytta afstöðu til málsins og að hann vilji kanna aðrar leiðir. Ráðherra fann mikla andstöðu við fyrri tillögu sína þegar íbúar gengu út af íbúafundi um samgöngumál á Patreksfirði í haust og vöktu þar með athygli á alvarlegri stöðu í vegamálum á svæðinu. Sá gjörningur hreyfði við yfirvöldum og fjölmiðlum sem hafa sýnt samfélagi okkar aukinn áhuga og því mikla óréttlæti sem við erum beitt. Hér býr fólk vegna það að það vill búa hér. Lifibrauðið er af auðlindunum lands og sjávar . Íbúar byggja allt sitt á góðri umgengni um landið og auðlindir þess og allt um kring. Vegagerð er grundvöllurinn fyrir byggð og nýtingu þeirra auðlinda. Vegi má auðveldlega byggja upp í sátt við náttúru og samfélag manna. Það verður ekki þolað að hagsmunir örfárra sem ekki vilja búa hér og skortur á „jarðsambandi" opinberra stofnanna stjórni framtíð samfélaganna á sunnanverðum Vestfjörðum.

Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf, samskipti og vináttu á árinu sem er að líða. Megi árið 2012 verða okkur öllum gæfuríkt og gleðilegt.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri
 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is