Vitundarvakning um akstur utan vega

Akstur utan vega
Akstur utan vega
Í svari umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um kortlagningu vega og slóða á hálendinu kemur fram að vitundarvakning þurfi að eiga sér stað hjá mörgum ökumönnum miðað við þær upplýsingar sem berast ráðuneytinu um landskemmdir af völdum vélknúinna ökutækja.

 

Vinna nefndar um skilgreiningu vega og slóða hefur verið í mótun en ljóst er að áherslur hagsmunahópa fara ekki alltaf saman og taka þarf tillit til þess þegar ákvörðun er tekin um það hvaða vegir eða slóðar verði í framtíðinni opnir fyrir umferð farartækja.

 

Lög og reglur eru nauðsynlegar en umhverfisvitund og virðing ferðamanna fyrir náttúrunni þarf að aukast til að hægt sé að ná tökum á vandamáli sem því miður er til staðar. Ljót för í landinu sjást of víða og það virðist fara vaxandi að vélknúnum ökutækjum, sérstaklega vélhjólum, sé ekið utan vega í skjóli þess að eftirlit með reglum um bann við utanvegaakstri er erfitt á mörgum stöðum fjarri mannabyggð. Slíkt virðingarleysi er óþolandi og þarf að berjast gegn því með öllum tiltækum ráðum. 

 

Í 17. grein laga nr. 44/1999 um náttúruvernd segir: Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum, svo og á snjó utan vega utan þéttbýlis svo fremi sem jörð er snævi þakin og frosin.

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is