Húsaleigubætur 2008

Að gefnu tilefni er rétt að benda á að það þarf að endurnýja umsókn um húsaleigubætur um hver áramót.  Nemum er þó bent á að hafi þeir sótt um í haust þá gildir sú umsókn áfram en skila þarf inn nýju vottorð um skólavist í upphafi vorannar.

Þorrablót í Patreksskóla

Guðmundur, Árný, Kara og Narfi í leikþætti.  Mynd Bríet Arnar
Guðmundur, Árný, Kara og Narfi í leikþætti. Mynd Bríet Arnar
1 af 2

Í tilefni af bóndadeginum og þar með upphafi Þorra, bauð Patreksskóli foreldrum til skemmtunar í skólanum í morgun. Dagskráin hófst með því að 1.-3. bekkur kynntu verkefni sem þau hafa unnið að á þemadögum og fjallaði um lífið í Kollsvík og Látravík. Heiðurshjónin Árni og Anna höfðu heimsótt bekkinn og frætt þau um lífshætti fólks frá þriðja og fram á fimmta áratug síðustu aldar. Þau tóku svo líflegan þátt í kynningunni á verkefninu en börnin komu upp og kynntu sinn hluta verkefnisins og lýstu Árni og Anna frekar því sem fjallað var um. Bar þar margt fróðlegt á góma, allt frá baðsiðum og klæðaburði til sjósóknar og matarvenja.
4.-7. bekkur fræddu okkur um þorramatinn og dönsuðu hringdans, og buðu svo foreldrum sínum upp í dans. Unglingastigið, þ.e. 8.-10. bekkur, flutti fróðleik um Þorra konung og þann sið sem í eina tíð var hafður á t.d. er bændur hoppuðu á öðrum fæti í kringum bæinn og fluttu okkur svo Táp og fjör og fríska og Minni kvenna. Allt var þetta á mjög þjóðlegum nótum og eins og sjá má af myndunum tóku nemendur þema dagsins hátíðlega og voru mörg hver íklædd lopahosum og peysum, og jafnvel með húfur.  Aldeilis frábært framtak hjá skólanum og gaman að sjá hversu margir foreldrar gáfu sér tíma frá amstri dagsins til þess að fylgjast með börnum sínum og taka þátt. Takk fyrir þetta krakkar!


Uppeldi sem virkar - Foreldranámskeið

Dagana 8.-10. febrúar verður haldið foreldranámskeið á Patreksfirði í fundarsal Félagsheimilis Patreksfjarðar.


Námskeiðið hentar sérstaklega foreldrum barna allt til 6 ára aldurs, en getur vel hentað foreldrum eldri barna. Báðir foreldrar eru hvattir til þess að mæta til þess að námskeiðið skili sem bestum árangri, ef þess er kostur. 
     Námskeiðið hentar öllum fróðleiksfúsum foreldrum, óháð fjölda barna þeirra, sem eru tilbúnir að læra nýjar aðferðir í uppeldinu. Og þessar virka!


Leiðbeinandi er Lone Jensen en hún hefur haldið mörg slík námskeið m.a. hjá Miðstöð heilsuverndar barna.

Áhugasamir eru beðnir um að skrá sig hjá elsa@vesturbyggd.is eða í síma 450 2300. Kennt verður föstudaginn 8. febrúar kl. 17.00-19.00, laugardag 9. feb. kl. 10.00-12.00 - 13.00-15.00 og 9.30-11.30 sunnudaginn 10. feb., alls 8 klukkustundir. Gjald fyrir einstakling er kr.  4.000 en kr. 6.000 fyrir pör, með niðurgreiðslu.

Námskeiðið er öllum opið en tekið er á móti skráningum núna.  Greiðsluseðill verður sendur til þátttakenda en námskeiðsgögnin eru greidd á staðnum og kosta kr. 500. Einnig verður Uppeldisbókin til sölu en hún er ákaflega aðgengileg og dýpkar þekkingu foreldra á viðfangsefninu. Bókin kostar 1.500 kr.
Sjá bækling hér

Félagsstarf Eyrarseli

Smáhlutir gerðir úr silfurleir
Smáhlutir gerðir úr silfurleir

Dagskrá félagsstarfsins í Eyrarseli er komin hér inn á heimasíðuna. Sú nýbreytni verður tekin upp að fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði verður boðið upp á heita súpu í hádeginu, og þá daga opnar húsið kl. 12.30. 

Margt nýtt ber á góma í handverkinu s.s. gifs- og glermálun, silfurleir og sumar-/afmæliskortagerð, en eins og margir muna þótti það skemmtilegur siður hér í eina tíð að gefa sumarkort á sumardaginn fyrsta. Einnig verður haldið áfram í perluskartgripagerðinni. Það sem kannski má telja til algerra nýjungar er silfurleirinn (Art Clay Silver) sem er mjög spennandi efni sem gerir fólki kleift að smíða dýrindis muni úr hreinu silfri, án nokkurar sérmenntunar og án dýrra tóla og tækja. Þegar búið er að þurrka og brenna leirmunina fullkomlega verður eftir 99,9% hreint silfur. Hægt er að móta bæði grófa og mjög fínlega muni úr leirnum og efnið (innheldur engin eiturefni) hentar því öllum sem áhuga hafa á að búa til fallega muni úr alvöru silfri.


Silfurleir eru örsmáar silfuragnir sem ásamt bindiefni og vatni mynda efni sem er mjög svipað leir viðkomu og í útliti. Hægt er að móta leirinn með hefðbundnum aðferðum, gera í hann mynstur, nota sérstakar sprautur sem notaðar eru á mjög svipaðan hátt og kökuskreytingasprautur og gera allt sem manni gæti dottið í hug að gera við leir (tekið af heimasíðu Perlukafarans ). 

Frekari upplýsingar um silfurleir (Art Clay Silver):
Handverkshúsið
ArtClayWorld (á ensku)
Hér geturðu horft á myndband um skartgripagerðina á YouTube

Dagskrá félagsstarfsins að Læk birtist von bráðar hér.

Heilsuefling í Bröttuhlíð

Á fjórða tug skráninga eru komnar í heilsuátak Bröttuhlíðar íþróttamiðstöðvar (sjá nánar á fréttavef Tíðis www.patreksfjordur.is ) og er fjöldi þeirra framar björtustu vonum.. Þrátt fyrir að um 8 vikna átak sé að ræða er markmiðið vitanlega að hvetja til reglulegrar hreyfingar. Um tvenns konar “átak” að ræða; annars vegar besta mætingin og hins vegar mesta þyngdartapið en þátttakendur í því eru bæði vigtaðir og fitumældir. Þátttakendur eru jafnframt hvattir til þess að ráðfæra sig við lækni áður en farið er af stað. Þá er bent á þjónustu einkaþjálfara en nánari upplýsingar fást í Bröttuhlíð.

Lýðheilsustöð www.lydheilsustod.is
Hreyfihringurinn
Næring og holdafar
Þú getur reiknað næringarefnin í matnum sem þú borðar og áætlað orkuþörf þína á matarvefnum http://www.matarvefurinn.is/
Fréttasafn
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is