Vonskuveður í Vesturbyggð

Þórsgatan í óveðrinu  Mynd Bríet Arnardóttir
Þórsgatan í óveðrinu Mynd Bríet Arnardóttir
1 af 4
Á Patreksfirði er vonsku veður um 25 m/sek og slær upp í 35 m/sek í hviðum og töluvert vatnsveður.  Á Bíldudal er þokkalegt verður eða um 9 m/sek en hefur slegið upp í 30 m/sek í hviðum.  Á Barðaströnd féll skólahald niður en á öðrum stöðum í Vesturbyggð hefur skólahald verið með eðlilegum hætti.  Foreldrar á Patreksfirði eru þó hvattir til að sækja börn sín að skóladegi loknum.

Þegar fréttaritari Vesturbyggðarsíðunnar var á ferð um götur Patreksfjarðar í morgun mátti sjá  ýmislegt lausleg á ferðinni en þó virðist ekki hafa orðið tjón á eignum en fyrirtæki og einstaklingar eru beðnir að huga að lausum munum og að koma þeim í skjól eða fergja.  Björgunarsveitir á svæðinu hafa ekki verið kallaðar út , en eru í viðbragðsstöðu.

Samkvæmt heimasíðu Vegagerðarinnar er óveður á helstu fjallvegum í Vesturbyggð þ.e. á Hálfdán, Mikladal og Kleifaheiði.

Lögleglan á Patreksfirði beinir þeim tilmælum til fólks að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu meðan veðrið gengu yfir.

Leikskólabörn heimsóttu bókasafnið á Patró

Leikskólinn Araklettur kom í heimsókn á Héraðsbókasafnið í vikunni. Mættu þar tuttugu og tvö 4 og 5 ára börn ásamt leikskólakennurum. Þau fengu kynningu á starfsemi bókasafnsins, glugguðu í bækur og fóru svo yfir í félagsmiðstöðina þar sem Gróa bókavörður las fyrir þau sögu. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd skín áhuginn úr hverjum andlitsdrætti. Til stendur að þau komi aftur í heimsókn eftir áramótin og verður þá meira gert fyrir skólahópinn.
Fleiri myndir eru í myndaalbúmi hér á heimasíðunni.

Góðgerðarvika í Vestend

Í síðustu viku stóð yfir svo kölluð Góðgerðarvika í félagsmiðstöðinni Vestend. Hittust unglingarnir eina kvöldstund með ýmiss konar gjafir og pökkuðu þeim inn saman, og komu sumir með fleiri en eina. Eru þetta gjafir sem verða sendar til Mæðrastyrksnefndar sem mun dreifa þeim til þeirra barna sem minna eiga. Það er ljóst að unglingarnir í Vesturbyggð hugsa fallega til þeirra sem eiga um sárt að binda þessi jól því alls bárust 30 gjafir. Pósturinn flytur gjafirnar fólki að kostnaðarlausu og má í þessu samhengi minna á að þeir sem vilja taka þátt í þessu góða starfi geta komið með gjafir á pósthúsið þar sem hægt er að merkja þær og skila inn.

Brautargengi kvenna í Vestur-barðastrandarsýslu.

Brautargengiskonur frá vinstri:  Kolbrún, Herdís, Aðalbjörg, Valgerður, María, Silja, Sonja, Sólveig. Á myndina vantar Guðrúnu Eggertsdóttur
Brautargengiskonur frá vinstri: Kolbrún, Herdís, Aðalbjörg, Valgerður, María, Silja, Sonja, Sólveig. Á myndina vantar Guðrúnu Eggertsdóttur
1 af 3
í gær voru níu konur útskrifaðar  við hátíðlega athöfn af námskeiðinu Brautargengi. 

Námskeiðið hefur verið í gangi í haust og þessar níu konur unnið samviskusamlega að verkefnum sínum.  Sigurður Steingrímsson forstöðumaður Impru og Arnheiður Jóhannsdóttir verkefnisstjóri Impru á Akureyri óskuðu konunum til hamingju með árangurinn og töluðu um hversu mikið konurnar lögðu á sig á námskeiðstímanum og að þær hafi uppskorið eins og til var sáð.  Arna Lára verkefnisstjóri Impru á Ísafirði kynni nýtt starf sitt og hvatti konurnar til að hafa samband við sig til að þróa verkefni sín enn betur.  Soffía Gústafsdóttir, aðalhvatamaður þess að Brautargengisnámskeiðið var haldið nú í haust talaði um hversu verðmætt einkaframtakið væri í samfélaginu okkar og að hún væri sannfærð um að hún ætti eftir að sjá verkefni kvennana vaxa og dafna á næstu árum og nýjar hugmyndir kvikna og verða að veruleika.  Soffía veitti svo Maríu Óskarsdóttur hvatningarverðlaun fyrir sérlega vel unna viðskiptaáætlun.

Þær konur sem útskrifuðust í gær eru:

Aðalbjörg Þorsteinsdóttir
Guðrún Eggertsdóttir
Herdís Agnarsdóttir
Kolbrún Pálsdóttir
María Óskarsdóttir
Silja Björg Jóhanndóttir
Sonja Ísafold Eliason
Sólveig Ásta Jóhannsdóttir
Valgerður Ingvadóttir

Hér er hægt að sjá heimasíðu Brautargengis

Vesturbyggðarvefurinn óskar Brautargengiskonunum til hamingju með árangurinn.

Bókasöfn - heimsókn leikskólabarna og skil á jólasögum

Heimsókn á bókasafnið
Á morgun, þann 11. desember ætla leikskólabörn að heimsækja bókasafnið á Patreksfirði. Er þar á ferðinni skólahópurinn og munu þau fá kynningu á starfi bókasafnsins og fá að glugga í blöð og bækur, lesin verður saga og spilað á gítar og sungið. Er þetta í fyrsta sinn sem þetta hefur verið gert með skipulögðum hætti.

Jólasögusamkeppni bókasafnanna
Alls bárust 22 sögur í jólasögusamkeppnina sem nú var haldin í fyrsta sinn. Eru dómarar að lesa yfir sögurnar og munu velja eina sögu úr hverjum flokki en skipt var í flokka eftir aldri, 1.-4. bekkur, 5.-7. bekkur og 8.-10. bekkur. Verðlaunaafhending verður í næstu viku og mun verða auglýst nánar þegar valið liggur fyrir.
Fréttasafn
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is