Sumarlokun leikskóla Vesturbyggð 2007

Grillveisla á Tjarnarbrekku
Grillveisla á Tjarnarbrekku
1 af 10
Nú er skemmtilegu sumarstarfi okkar hér í leikskólum Vesturbyggðar að ljúka og loka leikskólarnir Araklettur og Tjarnabrekka í fimm vikur eða frá 16. Júlí til 19. Ágúst 2007. Við höfum gert okkur margt til dægrastyttingar í þessu frábæra sól og sumarveðri, meðal annars sullað úti, haldið hjóladag, fengið fræðslu frá heilsugæslu Patreksfjarðar og grillað pylsur svo eitthvað sé nefnt. Sérstaklega ber þó að nefna garðana okkar á lóðinni þar sem við höfum verið að rækta kartöflur og grænmeti og viljum við biðja alla bæjabúa stóra og smáa að passa garðinn með okkur þegar þið notið leikskólavöllinn í sumar. Endilega skoðið grænmetið en látið okkur um að taka það upp í ágúst þegar við byrjum starfsemina aftur. Börnin verða mjög þakklát fyrir það. Gleðilegt sumar og sjáumst hress í ágúst!
Starfsfólk Arakletts og Tjarnarbrekku

Tilkynning til deildarstjóra og umsjónarmanna hjá Vesturbyggð

Séð inn Patreksfjörð frá Gjögrum
Séð inn Patreksfjörð frá Gjögrum
Nú ættu allir deildarstjórar og umsjónarmenn hjá Vesturbyggð að vera búnir að fá sendan aðgang að nýjum vef Vesturbyggðar. 

Með þessum aðgangi eigið þið nú auðvelt með að koma fréttum inn á Vesturbyggðarvefinn. Þarna mega koma fréttir um t.d. metdag í aðsókn að íþróttamiðstöðvum, viðburðir hjá vinnuskólum, tilkynningar frá t.d. vatnsveitu um lokun fyrir vatn, frá afhendingu gjafa til stofnanna Vesturbyggðar, frá grillhátíðum í skólum og leikskólum, metdagur í lönduðum afla og í raun megið þið setja inn á vefinn allt sem snertir ykkar deild og ykkur þykir fréttnæmt.  Þeir deildarstjórar og umsjónamenn sem skrifa á vefinn bera að sjálfsögðu ábyrgð á skrifum sínum, þ.e. bera ritstjórnarlega ábyrgð á efninu sem þeir setja inn á vefinn.

Ef einhverjar spurningar vakna eða ykkur vantar hjálp við að koma frétt og/eða myndum á vefinn þá vinsamlega hafið samband við Bríeti í síma 450-2300.

Ný heimasíða Vesturbyggðar.

Frá opnun nýju heimasíðu Vesturbyggðar.  Talið frá vinstri Ragnar Jörundsson, Úlfar B. Thoroddsen, Þuríður G. Ingimundardóttir og Arnheiður Jónsdóttir
Frá opnun nýju heimasíðu Vesturbyggðar. Talið frá vinstri Ragnar Jörundsson, Úlfar B. Thoroddsen, Þuríður G. Ingimundardóttir og Arnheiður Jónsdóttir
Vesturbyggð opnar nýja heimasíðu sína formlega á bæjarráðsfundi í dag þriðjudaginn 10. júlí.  
Heimasíðan hefur verið í smíðum sl. 4. vikur og er notast við Snerpill vefumsjónarkerfi frá Snerpu á Ísafirði.
Snerpill vefumsjónarkerfið er mjög aðgengilegt og voru starfsmenn Vesturbyggðar fljótir að ná tökum á kerfinu. 
Aðalhönnuður síðunnar er Ágúst Atlason, margmiðlunarhönnuður hjá Snerpu. 

Þegar er búið að setja töluvert af efni inn á heimasíðuna og verður unnið að því áfram.  Gagnasafn með fundargerðum mun svo stækka jafnt og þétt á næstu vikum.  Gott myndasafn er þegar komið inn á síðuna og má þar nefna myndir frá Sjómannadeginum, 17. júní og Bíldudals grænum.  Einnig er safn mynda frá Mats á síðunni.

Stefnan er að heimasíða Vesturbyggðar verði lifandi og upplýsingar um það sem er að gerast í sveitarfélaginu verði aðgengilegar.  Meðal þess sem er nýtt á þessari heimasíðu er t.d. gott atburðadagatal þar sem félagsamtök geta komið inn upplýsingum um atburði með góðum fyrirvara til ritstjóra, vefdagbækur þar sem bæjarstjóri og bæjarfulltrúar geta skrifa um það sem þeim liggur á hjarta hverju sinni

Fyrirtæki og ferðaþjónustuaðilar eiga líka sinn sess á heimasíðunni og hvetjum við þessa aðila til að senda upplýsingar um fyrirtæki sín til ritstjóra

Það er von starfsfólks bæjarskrifstofu að þessi nýja heimasíða gagnist íbúum Vesturbyggðar og öðrum sem hana skoða.

Heilt húsbílaþorp á flakki

1 af 2

Það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá neinum að á Patreksfjörð hefur streymt fjöldi húsbíla frá því á sunnudag, en þeir hafa slegið skjaldborg um Félagsheimili Patreksfjarðar, þar sem íbúar þessa óvenjulega þorps hafa aðstöðu. Félagsskapurinn kallast Flakkararnir og er áhugahópur húsbílaeigenda. Þorvaldur Traustason, sem fer fyrir ferðanefndinni, segir nú vera 64 bíla á staðnum og enn bætist við. "Þátttakan er langt fram úr björtustu vonum" segir hann og segir félagsskapinn hafa stækkað jafnt og þétt síðustu ár. "Félagið var stofnað 1987 á Akureyri og fagnaði 20 ára afmæli í janúar í Árgarði, Skagafirði, síðastliðinn janúar en þá mættu þangað 90 bílar." Hann segir fólk koma alls staðar að af landinu en langstærsti hópurinn sé þó frá Norðurlandi. "Við hófum ferðina frá Borðeyri s.l. föstudag, gistum á laugardag  í Bjarkarlundi og lögðum svo af stað hingað á sunnudag." Hann segir hópinn fara héðan á morgun þriðjudag að Dynjanda en líklega verði hluti hópsins á Þingeyri þar sem tjaldstæðið rúmi varla svo marga bíla. Þaðan verður haldið til Súðavíkur þar sem verður gist í tvær nætur og verður þar sameiginleg máltíð. Félagsskapurinn lýkur svo formlegu flakki sínu um Vestfirði á Reykjarnesi n.k. laugardag.

"Við fórum í rútuferð út i Selárdal í dag, um fimmtíu manns, og veðrið var alveg æðislegt. Í kvöld verðum við með bingó og hattaball því alltaf er gaman að gera sér eitthvað til skemmtunar" segir Þorvaldur og býður fréttaritara í þeim töluðu orðum í  heimsókn til Flakkaranna.

Kirkjuganga frá Láganúpi að Breiðavík

Séð yfir Kollsvíkina
Séð yfir Kollsvíkina
1 af 3

Sunnudaginn 1.júlí lögðu 29 manns og 3 hundar upp í kirkjugöngu sem farin var frá  Láganúpi að Breiðavík.
 
Gengin var gömul leið Kollsvíkinga milli Kollsvíkur og Breiðavíkur og lék veðrið við göngumenn. Göngumenn voru á öllum aldri, frá 6 ára til 76 ára og allt þar á milli og skiluðu allir sér á áfangastað heilir á húfi, enda með prestinn og meðhjálparann með í göngunni. Á leiðinni var áð nokkrum sinnum og í síðasta áfangastað fyrir ofan Flosagil sagði Lilja Jónsdóttir göngufólki frá kirkjuferð sem hún fór í meðan hún bjó í Kollsvík og gekk þessa sömu leið til messu og var góður rómur gerður að frásögn hennar.

Gangan hófst kl. 12 á hádegi og lauk með messu í Breiðavíkurkirkju kl. 16 þar sem fleiri kirkjugestir bættust í hópinn. Að lokinn messu var boðið uppá kirkjukaffi í Breiðavík og nutu menn þess í góða veðrinu að sitja í rólegheitum úti á palli með kaffibollann og meðlætið. Það var samróma álit göngumanna að þetta hefði verið ferð sem yrði ljúf í minningunni og voru sammála um að svona göngu þyrfti að endurtaka á hverju ári.

Fréttasafn
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is