Áttatíu þúsund krónur til samgönguráðuneytisins

Mynd kjalkinn.is
Mynd kjalkinn.is
Á föstudagskvöld voru haldnir tónleikar á Gauki á Stöng í Reykjavík til styrktar bættum vegasamgöngum á Vestfjörðum og rann ágóðinn, 80 þúsund krónur, til samgönguráðuneytisins. Hafstraumar, félag áhugamanna um bætta lista- og menningarstarfsemi á Vestfjörðum, skipulagði tónleikana og hljómsveitirnar og listamennirnir sem gáfu framlag sitt voru Sign ásamt karlakórnum Fjallabræður, Cliff Clavin, Nilfisk, Hellvar, Coral, Vicky Pollard og Johnny And The Rest.
Að sögn Halldórs Gunnars Pálssonar frá Flateyri tókust tónleikarnir vel. „Það skapaðist góð stemmning á tónleikunum og við fengum fína mætingu, sérstaklega voru margir Vestfirðingar í salnum. Peningurinn var afhentur samgönguráðherra og hann lofaði að sá vegarkafli sem aurinn færi í yrði merktur með skilti sem á stæði: „Í boði Hafstrauma“. Ætli það verði ekki svona 3 sentimetrar.“

Halldór sagðist fastlega búast við að fá það vel útlistað í hvað krónurnar 80 þúsund færu og á von á að sjá margar skýrslur og reikninga á næstunni. „Ef það verða einhver vandræði með að halda kaflanum opnum þá er ég með meirapróf og get skroppið og mokað,“ segir Halldór sem brunaði svo á Patreksfjörð daginn eftir tónleikana til að spila á balli og mætti þar mikilli ánægju heimamanna með framtakið.

Í tilefni tónleikanna samþykktu bæjarráð Bolungarvíkur og bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hver um sig áskorun til stjórnvalda um að tryggja fjármagn þannig að ljúka megi uppbyggingu Vestfjarðavegar 60 sem allra fyrst og eigi síðar en innan 6 ára. Í áskoruninni segir einnig: „Umfangsmiklar samgöngubætur eru að verða að veruleika á Vestfjörðum og eru þær í samræmi við þær áherslur sem sveitarfélög á Vestfjörðum hafa sameinast um á. Samþykkt samgönguáætlun Fjórðungsþings Vestfirðinga lýsir samstöðu vestfirskra sveitarfélaga í vegamálum í fjórðungnum.“

frétt tekin af vef Bæjarins Besta

Engin riða á Barðaströnd

Mynd af fréttavef Bæjarins Besta
Mynd af fréttavef Bæjarins Besta

Halldór Runólfsson yfirdýralæknir hefur staðfest að enginn riða hafi greinst í sauðfé á Barðaströnd eftir rannsóknir á sýnum sem tekin voru í haust. Í sumar bárust Sigurði Sigurðarsyni, dýralækni og helsta sérfræðingi landsins í riðuveiki, ábendingar í símtali frá vegfaranda sem ekki vildi láta nafns síns getið og þóttist hafa séð riðueinkenni á kindum á Barðaströnd. Sigurður fór strax vestur og skoðaði kindur í högum og þótti honum nokkrar stirðar í hreyfingum. Þegar fé var komið í heimahaga í haust fór Sigurður í alls þrjár ferðir vestur til að skoða fé og taka sýni. Einnig reyndi hann að nálgast sýni úr kindum sem komnar voru í sláturhús.

Niðurstöður úr rannsóknum á þessum sýnum leiddu í ljós að engin kind var smituð af riðuveiki og mega það teljast miklar gleðifréttir, því Vestfirðir eru svokallað hreint svæði, hér hefur aldrei fundist riða og garnaveiki hefur ekki fundist hér í meira en 20 ár og er hætt að bólusetja við henni.

Halldór biður bændur um að hika ekki við að láta vita um grunsamlegar kindur, riðusýni eru tekin þeim að kostnaðarlausu og er gott að bændur rifji upp fyrir sér einkennin sem geta verið eftirfarandi: Ótti, öryggisleysi og fælni, kláðatilfinning í húð, kippir og titringur eða stjórnleysi vöðva. Eins breytist oft „málrómur“ kindanna, kvörtunarhljóð heyrist í jarminu.

frétt tekin af bb.is

Vestend félagsmiðstöð

Nú stendur yfir samkeppni um merki eða logo félagsmiðstöðvarinnar Vestend og eru vegleg verðlaun í boði fyrir vinningmerkið sem verður birt hér á heimasíðunni. Nánar um það síðar.
Klúbbastarfið er komið af stað og er þátttaka góð enda hugmyndaríkt fólk á ferð. Á heimasíðu Vestend er hægt að finna frekari upplýsingar um starfið og meira til.

Spurningarkeppni í Birkimelsskóla

Nemendafélag Birkimelsskóla á Barðaströnd stóð fyrir spurningakeppni 20. okt. sl.

Keppt var á milli kirkjusókna í sveitinni en þar eru Brjánslækjarsókn og Hagasókn . Boðið var uppá kaffi og nemendur seldu nammi og gos á staðnum .

Kvöldið var sett upp þannig að fram fóru tvær keppnir, krakkakeppni og fullorðinskeppni.  Í krakkakeppnini vann Brjánslækjarsókn en í fullorðinskeppninni vann Hagasókn .

Nemendur fengu að láni sérhönnuð spurningakeppnisborð frá björgunarsveitinni Blakk á Patreksfirði og vildi nemendurnir koma þakklæti til skila til björgunarsveitainnar. 

Vel var mætt á keppnina og skemmtu gestir sér hið besta .

Ferjan Baldur fer aukaferð sunnudaginn 4. nóv. nk.

Ferjan Baldur á Brjánslæk. Ljósm. Mats
Ferjan Baldur á Brjánslæk. Ljósm. Mats
Að beiðni Vesturbyggðar fer ferjan Baldur aukaferð á sunnudaginn. Er það gert vegna keppnisferðar ungmenna úr grunnskólanum sem verða á körfuboltamóti í Borgarfirði. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sæferðir beita sér fyrir því að liðka til fyrir okkur hér á svæðinu. Við færum þeim okkar bestu þakkir.   Ferðir á sunnudaginn verða því sem hér segir.:
Frá Stykkishólmi
kl.  11:00 og aftur kl. 16:30
Frá Brjánslæk kl. 14:00 og aftur kl. 19:00.
Seinni ferðin er án viðkomu í Flatey.
Fréttasafn
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is