Famhaldsskólanám orðið að veruleika á Patreksfirði.

Undirritun samninga. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir oddviti Tálkafirði, Guðbjörg Aðalbergsdóttir skólameistari FSN, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Ragnar Jörundsson bæjarstjóri Vesturbyggðar.
Undirritun samninga. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir oddviti Tálkafirði, Guðbjörg Aðalbergsdóttir skólameistari FSN, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Ragnar Jörundsson bæjarstjóri Vesturbyggðar.
Miðvikudaginn 8. ágúst sl. var framhaldsskóladeild formlega opnuð á Patreksfirði. Deildin er undir stjórn Fjölbrautarsskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Um tilraunaverkefni er að ræða til fjögurra ára og þá fyrir fyrstu tvö árin í framhaldsskólanámi. Staðsetning skólans verður í húsnæði Grunnskóla Vesturbyggðar á Patreksfirði sem hefur staðið ónotað í tæp tuttugu ár. Búið er að innrétta húsnæðið á glæsilegan og í nútímalegan hátt. Menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom gagngert til að undirrita samninga um rekstur skólans. Auk hennar mættu margir góðir gestir þ.á.m. forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson og fleiri alþingismenn NV-kjördæmis. Einnig mættu starfsmenn úr menntamálaráðuneytinu, kennarar, starfsmenn og að sjálfsögðu skólameistari FSN auk verkefnisstjóa og verkefnisstjórn undirbúnings deildarinnar. Alls mættu um 70 manns við opnunina.
Þetta var gleðilegur dagur og miklvægum áfanga náð.
Íbúar í V-Barðastrandarsýslu! -Til hamingju.

Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum

Mynd frá olíuhreinsistöðinni í Leuna í Þýskalandi sem sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum skoðuðu.
Mynd frá olíuhreinsistöðinni í Leuna í Þýskalandi sem sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum skoðuðu.

Vegna umræðunmnar um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum, fékk ég leyfi forráðamanna Íslensks Hátækniiðnaðar ehf. til að setja eftirfarandi pistil á heimasíðuna. Mér finnst tilefni til að lesendur síðunnar fengju upplýsingar um hvernig málið snýr að þeim. Kv. R.Jör.


Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum
– Pistill
Viðhorf forráðamanna Íslensks hátækniiðnaðar ehf. til umræðunnar að undanförnu um olíuhreinsistöð  á Vestfjörðum og frekari upplýsingar um nokkra lykilþætti málsins:

Olíuhreinsistöð útlilokar enga aðra valkosti.
Olíuhreinsistöð í einum dal Vestfjarða mun síður en svo standa í vegi fyrir öðrum góðum hugmyndum um atvinnusköpun vestra. Ferðastarfsemin mun t.d. njóta beins stuðnings af ýmis konar þjónustustarfsemi sem vex upp í tengslum við stöðina. Orkuöryggi á Vestfjörðum mun aukast, dreifikerfið styrkjast og ríkulegri forsendur verða til samgöngubóta. Langflestir gera sér grein fyrir þessu eins og niðurstaða skoðanakönnunar í apríllok sl. sýndi vel. Alls staðar á landinu var öflugur stuðningur við málið – og mestur á Vestfjörðum. Í stað þess að agnúast út í hugmyndina er því nær að allir, sem vilja leggja hönd á plóginn við sköpun nýrra atvinnutækifæra, beini nú kröftum sínum í sömu átt. Fólk vinni af alefli saman að því að hrinda í framkvæmd öllum góðum raunhæfum hugmyndum, sem viðraðar hafa verið, og velji hverri og einni stað þar á Vestfjörðum sem best hentar í hverju tilviki. Þannig verði sem fyrst bundinn endi á það samdráttarskeið sem hefur ríkt of lengi - og í staðinn tryggt að sú fjölbreytta uppbygging sem hugur Vestfirðinga stendur til komist á skrið.
Sjávarlífi stendur ekki hætta af frárennslisvatni – og útblástur takmarkaður.
En hvað um útblástur og mengun frá olíuhreinsistöð? Miklar missagnir hafa verið á kreiki um þessa hlið málsins. Skín þar oft í gegn mikill ókunnugleiki, eins og kannske er við að búast þegar um nýja atvinnugrein í landinu er að ræða. Staðreyndin er sú, að allir sem heimsækja slíkar stöðvar í fyrsta sinn, hafa orð á hve þar sé hreinlegt. Öðruvísi en þeir hafi átt von á. Á öðrum Norðurlöndum eru 10 olíuhreinsistöðvar og um hundrað í Evrópu, margar í nánd við byggð eða akra – sumar hvort tveggja. Margir Íslendingar hafa búið í grennd við slíkar stöðvar en segjast varla hafa vitað af starfseminni og síður en svo hafa af henni óþægindi. Stór fyrirtæki hafa öll áhrif á hvað fyrir augum verður, en þau áhrif eru minni þegar fjöll skýla á alla vegu nema þann sem að sjó snýr. Áhyggjur af vatni sem rennur í sjó frá slíkri stöð eru einnig óþarfar. Þegar vestfirskir sveitarstjórnarmenn heimsóttu stöðina í Leuna í Þýskalandi nýverið, kom t.d. fram að þar sé kælivatn hreinsað með þeim hætti að það sé ómengað og drykkjarhæft á eftir. Sama á við um fleiri stöðvar. Þetta er ekki hægt að segja um frárennsli frá öllum vinnslu- og iðnfyrirtækjum á Íslandi. Í Rotterdam eru margar olíuhreinsistöðvar á hafnarsvæðinu, mun stærri en talað er um hér. Upplýst var að fyrir hendi sé tækni sem geti takmarkað útblástur koltvísýrings ennþá meira en reiknað var með í frumútreikningum vegna stöðvar hér. Halda má útblæstrinum í 50 þús. tonnum fyrir hverja milljón lesta af jarðolíu. Þetta þýðir um 400 þús. tonn frá stöð af þeirri stærð sem stefnt er að hér á landi -- en þar verður vissulega lagt kapp á að halda koltvísýringi niðri. Hægt er að hafa áhrif á magn útblásturs í gegnum þá tækni sem notuð er, gæði jarðolíunnar sem tekin er til vinnslu og það hvaða afurðir eru unnar úr henni. Einnig má nefna, að með því að hreinsa t.d. eldsneyti betur en krafist er skv. Evrópustöðlum, eins og ráðgert er, er unnt að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og mengun.
Vestfirðingar ekki settir hjá við úthlutun losunarheimilda
Í fréttaskrifum hefur verið bent á – og raunar reynt að gera tortryggilegt -- að ekki hafi verið sótt um losunarheimildir fyrir olíuhreinsistöð. Annars staðar er hins vegar tekið fram það sem skýrir málið, að skv. gildandi lögum þurfi einungis starfandi fyrirtæki og þau sem ætla að hefja starfsemi innan 9 mánaða að leggja fram umsóknir. Þörf stöðvarinnar fyrir losunarheimildir kemur vart til sögunnar fyrr en við upphaf nýs Kyoto-tímabils eftir 2012. Ekki er ennþá byrjað að semja milli ríkja um heimildir sem þá munu gilda og samningagerðinni um þær mun ekki ljúka fyrr en 2009. Óhugsandi er, að öllum byggðasjónarmiðum verði ýtt til hliðar og þarfir Vestfjarða sniðgengnar af hlutaðeigandi íslenskum stjórnvöldum í samningagerðinni eða við úthlutun heimilda Íslands -- en aðrir landshlutar, þar sem atvinnuástand er gott, látnir ganga fyrir. Þá má ætla að stjórnvöld hafi ekki í huga að semja með þeim hætti að hamli fólksfjölgun í landinu og eðlilegum vexti atvinnustarfsemi, þ.m.t. ferðaiðnaðar, sem byggir mjög á rekstri flugvéla og bifreiða. Á hinn bóginn má svo síst gleyma stöðugum tækniframförum og hugsanlegum nýjum leiðum til að takmarka útblástur gróðurhúsalofttegunda.
Áhugavert að starfa í olíuhreinsistöð
Undirbúnings- og byggingartími olíhreinsistöðvar er áætlaður 4 ½ ár frá því að ákvörðun um hana er tekin. Það er rúmur tími fyrir þá Vestfirðinga sem vilja afla sér menntunar og þjálfunar til starfa í stöðinni. Margskonar vinna við undirbúning og byggingu stöðvarinnar mun einnig hefjast fljótlega eftir ákvörðunina. Engin ástæða er til að ætla annað en mörgum Vestfirðingum muni þykja sér henta að starfa í olíuhreinsistöð. Um 500 manns þarf til að reka stöðina, þar af 15-20% háskólamenntað fólk, verkfræðingar, efnafræðingar, tölvusérfræðingar, o.s.frv. Stöðvar á meginlandi Evrópu hafa tekið sig saman um skóla til að mennta og þjálfa fólk á þessu sviði. Einnig má vel hugsa sér að kennsla og þjálfun verði í framtíðinni hér heima. Það er áhugaverð hugmynd að í hópi reyndustu starfsmanna stöðvarinnar hér verði fólk sem orðið geti liðtækt sem kennarar við uppbyggingu háskólakennslu í tæknigreinum á Ísafirði. Olíuhreinsun er hátækniiðnaður sem gengur fyrir sig í lokuðu tölvustýrðu ferli. Stjórnstöð stöðvanna er áþekk því sem Íslendingar þekkja úr orkuverum sínum. Vegna öryggis stöðvanna -- sem alls staðar er í fyrirrúmi -- eru m.a. mjög strangar kröfur gerðar til verktaka. Rekstri öflugra dráttarbáta olíuhreinsistöðvarinnar fylgja mörg störf sem Vestfirðingar kunna nú þegar tökin á. Tilkoma dráttarbátanna mun auka mjög öryggisþætti, sem tengjast vaxandi siglingum stórra gas- og olíuflutningaskipa við Vestfirði, flestra óviðkomandi stöðinni. Einnig er þar á ferðinni sívaxandi fjöldi risafarþegaskipa, sum þeirra með um 3000 manns um borð, áhöfn og farþega. Það er þáttur í eflingu ferðaþjónustunnar að viðkomum farþegaskipa fjölgi. Stöðin mun hafa jákvæð áhrif á atvinnuuppbygginguna um allaVestfirði óháð því hvar hún rís.
Traustir erlendir samstarfsaðilar.
Hugmyndin um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum nú tengist, eins og fram hefur komið, tíðum ferðum stórra olíuflutningaskipa, sem flytja olíu frá norðanverðu Rússlandi á markað í Ameríku. Skv. heimildum Siglingastofnunar fór um 250 olíuskip með jarðolíu framhjá Íslandi á síðasta ári og stefnir í að þau verði tvöfallt fleiri. Hagkvæmt er að hreinsa hluta af vaxandi olíumagni hér, fremur en flytja jarðolíuna til vinnslu á meginlandi V-Evrópu t.d. í Rotterdam sem er úrleiðis. Erlendir samstarfsaðilar “Íslensks hátækniiðnaðar ehf” hafa mikla reynslu og traust sambönd innan alþjóðlega olíuiðnaðarins, bæði í Rússlandi -- þaðan sem tryggja þarf aðföng -- og á Vesturlöndum -- þaðan sem tæknibúnaður stöðvarinnar mun fyrst og fremst koma og þar sem afurðir hennar munu fara á markað. Þessir samstarfsaðilar hafa áður sýnt það, að þeir hafa fulla burði, þegar um er að ræða framkvæmd eins og þessa.M.a. áttu lykilmenn í þeirra hópi ágætt samstarf við iðnaðarráðuneytið og Fjárfestingarstofu fyrir u.þ.b. áratug, þegar uppi voru áform um byggingu olíuhreinsistöðvar einkum á Reyðarfirði. Stöðin hefði risið í það sinn, ef ekki hefði á lokastigi verið ákveðið að láta álver ganga fyrir, einkum vegna þeirrar áherslu sem íslensk stjórnvöld lögðu um þær mundir á að selja sem mesta orku. Erlendu aðilarnir voru þá búnir að leggja í verulega undirbúningskostnað. Að því er Vestfirði snertir er það hins vegar einn af tvímælalausum kostum olíuhreinsistöðvar, að henni nægir mjög lítil utanaðkomandi orka eða um 15MW.
Áhersla lögð á vandaðan undirbúning.
Undirbúningur málsins nú hefur verið með ábyrgum og eðlilegum hætti. Fyrst var gengið úr skugga um að áðurnefndir aðilar, sem þannig þekkja til aðstæðna á Íslandi, teldu forsendur til að taka málið upp á ný. Skoðun þeirra var sú, að þróunin á olíumarkaði hefði leitt til betri aðstæðna en áður hvað rekstur varðar. Þeir könnuðu undirtektir fyrirtækja, sem útvegað gætu jarðolíu og tekið þátt í fjármögnun, byggingu og rekstri stöðvar með íslenskum aðilum. Voru viðbrögðin jákvæð, jafnframt því sem ljóst varð að áður en gerðir yrðu bindandi samningar þyrfti afstaðan hér á landi að liggja skýrt fyrir. Fá þyrfti úr því skorið, hvort vilji væri hjá staðaryfirvöldum á heppilegum stað, svo og öðrum hlutaðeigendum, til að stöð yrði reist. Ekki væru forsendur til að leggja aftur í umtalsverðan kostnað við undirbúning, ef óvissa ríkti um möguleika á að ráðast í framkvæmdir. Skoðun nokkurra valkosta sýndi að staðsetning á Vestfjörðum gæti verið heppileg. Málið var því í apríl sl. kynnt fyrir Vestfjarðanefndinni, sem þá sat að störfum. Þvínæst var nánar rætt við Fjórðungssamband Vestfirðinga og sveitarstjórnir, þar sem fram kom traustur áhugi á að kanna málið nánar. Hefur verið unnið að málinu áfram í samstarfi við þessa og fleiri aðila. Tæknivinna og könnun lands og náttúru hefur verið unnin af Tækniþjónustu Vestfjarða, í samvinnu við verkfræðistofuna Línuhönnun, og af Náttúrufræðistofu Vestfjarða. M.a. skýrðist afstaðan til málsins mikið við kynnisferð sveitarstjórnarmannanna o.fl. í olíuhreinsistöðvar í Hollandi og Þýskalandi nýverið, en hún var skipulögð af alþjóðafyrirtækinu Price Waterhouse Cooper á vegum Fjárfestingarstofu og Fjórðungssambands Vestfirðinga. Í ljósi þeirrar margþættu vitneskju sem fékkst í ferðinni hefur stuðningur við að olíuhreinsistöð rísi á Vestfjörðum orðið eindregnari.
Öflugur stuðningur um land allt – mestur á Vestfjörðum.
Öflugur stuðningur við olíuhreinsistöð hérlendis kom fram í skoðanakönnun Capacent Gallup í lok apríl sl. Þar lýstu 73% á landsvísu sig ýmist fylgjandi því að stöð yrði reist eða sögðu sér standa á sama. Í öllum kjördæmum voru yfirgnæfandi fleiri hlynntir málinu en mótfallnir -- og stuðningurinn mestur í Norðurlandskjördæmi vestra. Bæði Ísafjarðarbær og Vesturbyggð hafa frá upphafi sýnt olíuhreinsistöð verulegan áhuga. Bæjarráð Vesturbyggðar samþykkti þannig samhljóða í umboði bæjarstjórnar hinn 10. júlí sl. afdráttarlausa ályktun um að halda áfram samstarfi við Íslenskan hátækniiðnað f.h. samstarfsaðila um “undirbúning að uppbyggingu olíuhreinsistöðvar í Vesturbyggð skv. þeim ábendingum sem liggja fyrir um staðarval.” Náttúrufræðirannsóknum og fornleifakönnun á þeim stöðum sem nú er helst rætt um þ.e. í Arnarfirði og Dýrafirði mun ljúka á næstunni. Hillir þá undir að línur hafi skýrst nægjanlega til þess að halda megi málinu áfram við alþjóðleg olíufélög og fjárfesta, sem eins og fyrr sagði reyndust jákvæð þegar málið var tekið upp við þau. Eins og þeir vita, sem þekkja til í viðskiptalífinu, er gjarna ekki unnt meðan mál eru á undirbúningsstigi að gefa upp heiti fyrirtækja, en hér er eins og áður var sagt um að ræða bæði reynda og trausta aðila. Þá má nefna, svo sem fyrr segir, að tæknibúnaður olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum verður frá V-Evrópu og Bandaríkjunum.
Ábendingar staðkunnugra gagnlegar
Gagnlegt er að staðkunnugir bendi á atriði sem snerta lífríki og samfélag sem varðar geta framkvæmd eins og þessa. Það er í allra þágu. Taka beri tillit til slíkra ábendinga og sjónarmiða, enda er til málsins stofnað í þeim tilgangi að stuðla að og styrkja farsæla þróun. En það er því hvorki réttmætt né sanngjarnt, að öfgafull andstaða -- með rætur í þröngum sérhagsmunum eða tengd afmörkuðum stöðum á Vestfjörðum – taki á sig mynd áróðurs fyrir því, að hvergi megi reisa atvinnufyrirtæki eins og hér um ræðir: Nýja öfluga útflutningsgrein, sem nýtur yfirgnæfandi stuðnings, og getur orðið landsfjórðungnum – og raunar landinu öllu – til margháttaðs gagns. Það er umhugsunarvert, að áberandi í tali gegn olíuhreinsistöð á Vestfjörðum er fólk, sem ekkert á undir atvinnulífi á svæðinu. Í þeim hópi eru brottfluttir Vestfirðingar, eða eiga rætur að rekja þangað. Svo eru þeir sem aldrei hafa búið þar og þeir sem hafa komið sér þar upp sumardvalarstað og vilja kyrrð og ró, í tvo til þrjá mánuði á ári.

Formleg opnun framhaldsdeildar FSN á Patreksfirði

Framhaldsdeild Fjölbrautaskóla Snæfellsness verður formlega opnuð á Patreksfirði þann 8. ágúst, í nýinnréttaðri álmu í Patreksskóla.

Formleg dagskrá opnunarinnar mun hefjast kl. 13.30. Fer þá fram undirritun samninga auk þess sem á dagskránni er að finna ávörp menntamálaráðherra og skólameistara FSN, ávörp heimamanna og annarra gesta. Flutt verða tónlistaratriði. Að dagskrá lokinni verður öllum boðið upp á léttar veitingar.

Í október 2006 var samþykkt tillaga menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, um að gera tilraun til reksturs deildar á Patreksfirði fyrir nemendur á fyrsta og öðru ári í framhaldsskóla. Deildina á að reka í nánu samstarfi eða undir stjórn Fjölbrautaskóla Snæfellinga og styðjast á við þá reynslu sem þar hefur fengist með því að blanda saman staðbundnu námi og dreifnámi. Tilraunin hefst í haust og mun standa í fjögur ár. Allir eru hvattir til að koma og taka þátt í þessum merku tímamótum.

Skemmtiferðaskip siglir fyrir Patreksfjörð.

1 af 3
Á föstudagsmorgun sigldi þetta tignarlega skemmtiferðaskip fyrir Patreksfjörðinn. 

Við fyrstu sýn virtist sem borgarísjaki væri þar á ferð en þegar betur var að gáð þá var þetta stórt skemmtiferðaskip á leið til Ísafjarðar. 

Erlend ungmenni á vegum Lions í heimsókn

Unglingarnir ásamt Ragnari Jörundssyni bæjarstjóra á pallinum í Kirkjuhvammi.
Unglingarnir ásamt Ragnari Jörundssyni bæjarstjóra á pallinum í Kirkjuhvammi.
14 ungmenni, flest 17 - 22 ára,  frá 11 löndum í Evrópu og 1 frá Ísrael hafa verið í heimsókn hér í Vesturbyggð undanfarna daga. Þau eru hér á vegum Lionshreyfingarinnar  -ungliðadeild- . Þau héldu til í Breiðavík og fóru þaðan um svæðið. Bæjarstjóri hittu þau í Kirkjuhvammi, nýju glæsilegu veitingastofunni við Saurbæ á Rauðasandi. Þau lýstu yfir ánægju sinni með veruna hér enda mjög heppin með veðrið. Rauðisandur sýndi sitt fegursta með Snæfellsjökul í grunninn. Þetta eru verðugir fulltrúar sinna landa sem sögðu frá hverju þeir höfðu vænst við að koma til Íslands og hver raunin var. Mörg vissu þó nokkuð um Ísland en önnur ekki. Öll sammála um að landið væri stórbrotnara og fallegra en þau höfðu búist við. 
Fréttasafn
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is