Kynning á Skrímslasetrinu á Bíldudal.

Sl. laugardag bauð áhugamannahópur um skrímslin í Arnarfirði, gestum og gangandi upp á kynningu á hugmyndinni "Skrímslasetrið á Bíldudal".

Skrímslahópurinn byrjaði laugardaginn á því að vinna að endurbótum við "Matvælaiðjuna" og fengu til liðs við sig þorpsbúa og aðra velunnara og þegar síðasta hamarhöggið dundi á sunnudaginn höfðu alls 33 skrímslafræðingar hjálpað til við endurbæturnar.

Um miðjan dag á laugardaginn hélt  Bílddælingurinn Valdimar Gunnarsson kynningu á verkefninu fyrir hönd skrímslahópsins  og skýrði fyrir gestum hugmyndir hópsins.  Áætlar skrímslahópurinn að geta ná til sín í kringum 20% af þeim ferðamönnum sem koma á sunnanverða Vestfirði eða um 8 þúsund mann innan fimm ára frá opnun setursins.  Áætlað er að opna í júní á næsta ári ef vel gengur að afla styrkja og íbúar og aðrir fáist til að kaupa hlutafé í "Skrímslasetrinu".  Valdimar kvatti alla viðstadda og alla velunnara Bíldudals til að kaupa hlut í Setrinu þegar það yrði í boði og benti á að margt smátt gerir eitt stórt.  Gestum og gangandi var boðið upp á skrímslavöfflur og kaffi á meðan kynningunni stóð og voru sýndar nokkrar ljósmyndir af Skrímslunum í Arnarfirði.

Áhugamennirnir um Skrímslasetur á Bíldudal eru Arnar Guðmundsson, Kári Schram, Magnús Óskarsson, Elfar Logi Hannesson, Þórarinn Hannesson, Valdimar Gunnarsson og Gísli Ægir Ágústsson og vildu þeir koma þökkum til allra þeirra sem lögðu verkefninu lið um helgina.

Smellið hér til að lesa um Skrímsli í Fífustaðadal

Valgerður BA 45 í heimahöfn

Valgerður BA 45 kemur til heimahafnar
Valgerður BA 45 kemur til heimahafnar
1 af 6

Í kvöld kom Valgerður BA-45  til Patreksfjarðar í fyrsta sinn.

Útgerðarfélagið Skriðnafell ehf er eigandi bátsins sem er 63,7 bt. dragnótarbátur og gerður út frá Patreksfirði. Óskar H. Gíslason, Fanney Sif Gísladóttir, Ásbjörn Óttarsson og Margrét Scheving eru eigendur útgerðarfélagsins. 

Óskar Gíslason er skipstjóri Valgerðar BA-45 og bauð hann gestum og gangandi upp á léttar veitingar í tilefni heimkomunnar. 

Samkvæmt upplýsingum frá Óskari Gíslasyni eiganda og skipstjóra er skipið smíðað hjá Ósey í Hafnarfirði árið 2000.

Helstu upplýsingar um skipið skv. skip.is:
Brúttórúmlestir 60.7
Nettótonn 19.1
Brúttótonn 63.7
Rúmtala 213.0
Mesta lengd 19.38
Skráð lengd 17.81
Breidd 4.99
Dýpt 2.57
Aðalvél Caterpillar
Árgerð 12-1999
Hestöfl 457
Afl í kW 336
Aflvísir 380
Togkraftur 4.8

 

Námskeið á vegum Impru

Nú stendur til að bjóða upp á námskeið á vegum Impru  (Brautargengi)  í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hér á Patreksfirði sem hefst um miðjan september ef næg þátttaka er fyrir hendi.

Námskeiðið er hugsað fyrir konur sem ganga með viðskiptahugmynd og vilja hrinda í framkvæmd, eða til að efla konur sem núþegar eru í atvinnurekstri.


Kennt verður 1x í viku á miðvikudögum í Þróunarsetrinu á Patreksfirði til 12.desember.


Námskeiðið kostar 38.000kr 

Hægt er að sækja um styrk til viðeigandi verkalýðsfélags.


Nánari upplýsingar fást á heimasíðu Impru (www.impra.is) eða Soffíu hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, sími 8972617


Umhverfisverðlaun í Vesturbyggð

Ákveðið hefur verið að efna til umhverfisverðlauna í Vesturbyggð og veita verðlaun í þremur flokkum, snyrtilegastu lóð við íbúðarhús, snyrtilegasta lögbýlið og snyrtilegasta fyrirtækið. 

Íbúum gefst kostur á að tilnefna fallegasta garðinn, snyrtilegasta lögbýlið og snyrtilegasta fyrirtækið á heimasíðu Vesturbyggðar á þar til gerðu netformi.  Eftir að netkosningu lýkur þann 10. september n.k. fer umhverfisnefnd í vettvangskönnun og velur endanlega úr hvað skarar fram úr og gerir tillögu um hverjir hljóta viðurkenningu fyrir snyrtilegt umhverfi í ár.

Þú getur nú lagt þín lóð á vogaskálarnar og sent inn þína tilnefningu með því að smella hér.

Fyrstu nemarnir við FSN á Patreksfirði fá bókastyrk.

Nemendur með deildarstjóra.
Nemendur með deildarstjóra.
Fyrstu nemar framhaldsskóladeildarinnar á Patreksfirði fóru í dag til Grundafjarðar og hefja þar nám sitt í Fjölbrautarskóla Snæfellinga á morgun. Við brottför afhendu Lionsmenn hverjum nemanda í fullu námi 20.000 kr. sem ætlað er til bókakaupa. Lionsklúbburinn  á Patreksfirði hefur sett sér það markmið að styðja sérstaklega við starf framhaldsdeildarinnar og er þessi gjöf til nemenda fyrsti liðurinn í því.
Fréttasafn
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is