Heilt húsbílaþorp á flakki

1 af 2

Það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá neinum að á Patreksfjörð hefur streymt fjöldi húsbíla frá því á sunnudag, en þeir hafa slegið skjaldborg um Félagsheimili Patreksfjarðar, þar sem íbúar þessa óvenjulega þorps hafa aðstöðu. Félagsskapurinn kallast Flakkararnir og er áhugahópur húsbílaeigenda. Þorvaldur Traustason, sem fer fyrir ferðanefndinni, segir nú vera 64 bíla á staðnum og enn bætist við. "Þátttakan er langt fram úr björtustu vonum" segir hann og segir félagsskapinn hafa stækkað jafnt og þétt síðustu ár. "Félagið var stofnað 1987 á Akureyri og fagnaði 20 ára afmæli í janúar í Árgarði, Skagafirði, síðastliðinn janúar en þá mættu þangað 90 bílar." Hann segir fólk koma alls staðar að af landinu en langstærsti hópurinn sé þó frá Norðurlandi. "Við hófum ferðina frá Borðeyri s.l. föstudag, gistum á laugardag  í Bjarkarlundi og lögðum svo af stað hingað á sunnudag." Hann segir hópinn fara héðan á morgun þriðjudag að Dynjanda en líklega verði hluti hópsins á Þingeyri þar sem tjaldstæðið rúmi varla svo marga bíla. Þaðan verður haldið til Súðavíkur þar sem verður gist í tvær nætur og verður þar sameiginleg máltíð. Félagsskapurinn lýkur svo formlegu flakki sínu um Vestfirði á Reykjarnesi n.k. laugardag.

"Við fórum í rútuferð út i Selárdal í dag, um fimmtíu manns, og veðrið var alveg æðislegt. Í kvöld verðum við með bingó og hattaball því alltaf er gaman að gera sér eitthvað til skemmtunar" segir Þorvaldur og býður fréttaritara í þeim töluðu orðum í  heimsókn til Flakkaranna.

Kirkjuganga frá Láganúpi að Breiðavík

Séð yfir Kollsvíkina
Séð yfir Kollsvíkina
1 af 3

Sunnudaginn 1.júlí lögðu 29 manns og 3 hundar upp í kirkjugöngu sem farin var frá  Láganúpi að Breiðavík.
 
Gengin var gömul leið Kollsvíkinga milli Kollsvíkur og Breiðavíkur og lék veðrið við göngumenn. Göngumenn voru á öllum aldri, frá 6 ára til 76 ára og allt þar á milli og skiluðu allir sér á áfangastað heilir á húfi, enda með prestinn og meðhjálparann með í göngunni. Á leiðinni var áð nokkrum sinnum og í síðasta áfangastað fyrir ofan Flosagil sagði Lilja Jónsdóttir göngufólki frá kirkjuferð sem hún fór í meðan hún bjó í Kollsvík og gekk þessa sömu leið til messu og var góður rómur gerður að frásögn hennar.

Gangan hófst kl. 12 á hádegi og lauk með messu í Breiðavíkurkirkju kl. 16 þar sem fleiri kirkjugestir bættust í hópinn. Að lokinn messu var boðið uppá kirkjukaffi í Breiðavík og nutu menn þess í góða veðrinu að sitja í rólegheitum úti á palli með kaffibollann og meðlætið. Það var samróma álit göngumanna að þetta hefði verið ferð sem yrði ljúf í minningunni og voru sammála um að svona göngu þyrfti að endurtaka á hverju ári.

Framkvæmdir hafnar við sparkvöll á Bíldudal.

Framkvæmdir við sparkvöll við Bíldudalsskóla
Framkvæmdir við sparkvöll við Bíldudalsskóla
Sl. föstudag hófust framkvæmdir við sparkvöll við Bíldudalsskóla, áætlað er að verkinu ljúki um mánaðarmótin júlí/ágúst.
Völlurinn er hluti af sparkvallaátaki KSÍ og er unnin í samvinnu milli Vesturbyggðar og KSÍ.

Uppýsingar um sparkvelli

Ungmenni til Bogense í Danmörku.

Danski fáninn
Danski fáninn
Vesturbyggð auglýsir eftir tveimur ungmennum 17-18 ára sem eru fúsir til að vera fulltrúar sveitarfélagsins í heimsókn til Nordfyns Kommune, sem er vinabær Vesturbyggðar á Fjóni í Danmörku dagana 14. – 16. september nk.
Meira

17. júní haldinn hátíðlegur í Vesturbyggð

Una Áslaug Sverrisdóttir
Una Áslaug Sverrisdóttir
1 af 3

Hátíðarhöld voru á Bíldudal og Barðaströnd í blíðskapar veðri.

Á Bíldudal sá kvenfélagið um hátíðarhöldin eins og mörg undanfarin ár. Hefðbundin dagskrá var þar sem byrjað á skrúðgöngu og tók svo dagskrá við utandyra við Baldurshaga. Sr. Sveinn Valgeirsson flutti hugvekju, fjallkonan, Una Áslaug Sverrisdóttir, flutti ættjarðarljóð, Arnheiður Jónsdóttir formaður bæjarráðs flutti hátíðarræðu dagsins og eftir það var söngur í hávegum hafður þar sem börnin sungu nokkur lög og Sr. Sveinn spilaði undir og svo tóku þeir bræður Friðbjörn Steinar og Fannar nokkur lög.

Kvenfélagið á Bíldudal færði Sóknarnefnd Bíldudalskirkju peningagjöf sem ætluð er til kaupa á utanhússmálningu fyrir Bíldudalskirkju. Hannes Friðriksson nýkjörinn formaður Sóknarnefndar tók við gjöfinni og þakkaði hlýhug þeira kvenfélagskvenna til kirkjunnar.

Á Barðaströnd sá kvenfélagið Neisti um hátíðarhöldin. Hátíðarhöldin byrjuðu á söng þar sem Öxar við ána ómaði, fjallkonana, Guðrún Friðjónsdóttir, flutti ættjarðarljóð, síðan var farið í hátíðarkaffi og boðið upp á leiki fyrir yngri kynslóðina.

Fréttasafn
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is