Skemmtiferðaskip siglir fyrir Patreksfjörð.

1 af 3
Á föstudagsmorgun sigldi þetta tignarlega skemmtiferðaskip fyrir Patreksfjörðinn. 

Við fyrstu sýn virtist sem borgarísjaki væri þar á ferð en þegar betur var að gáð þá var þetta stórt skemmtiferðaskip á leið til Ísafjarðar. 

Erlend ungmenni á vegum Lions í heimsókn

Unglingarnir ásamt Ragnari Jörundssyni bæjarstjóra á pallinum í Kirkjuhvammi.
Unglingarnir ásamt Ragnari Jörundssyni bæjarstjóra á pallinum í Kirkjuhvammi.
14 ungmenni, flest 17 - 22 ára,  frá 11 löndum í Evrópu og 1 frá Ísrael hafa verið í heimsókn hér í Vesturbyggð undanfarna daga. Þau eru hér á vegum Lionshreyfingarinnar  -ungliðadeild- . Þau héldu til í Breiðavík og fóru þaðan um svæðið. Bæjarstjóri hittu þau í Kirkjuhvammi, nýju glæsilegu veitingastofunni við Saurbæ á Rauðasandi. Þau lýstu yfir ánægju sinni með veruna hér enda mjög heppin með veðrið. Rauðisandur sýndi sitt fegursta með Snæfellsjökul í grunninn. Þetta eru verðugir fulltrúar sinna landa sem sögðu frá hverju þeir höfðu vænst við að koma til Íslands og hver raunin var. Mörg vissu þó nokkuð um Ísland en önnur ekki. Öll sammála um að landið væri stórbrotnara og fallegra en þau höfðu búist við. 

Flýtiframkvæmd á Vestfjarðavegi í Barðastrandarsýslu

Ályktun um samgöngumál frá bæjarráði Vesturbyggðar

"Bæjarráð Vesturbyggðar fagnar ákvörðun hæstvirts samgönguráðherra Kristjáns L. Möller að flýta vegagerð á Vestfjarðavegi milli Vatnsfjarðar og Vattarfjarðar og frá Bjarkalundi í Þorskafjörð að þeim stað þar sem þvera á veginn yfir fjörðinn. Bæjarráðið leggur áherslu á það að samgönguráðherrann láti hraða öllum nauðsynlegum undirbúningi að vegagerð við innanverðan Kjálkafjörð frá Þverá um botn fjarðarins að hrauninu innan við Litlanes. Líkur eru á því að meta þurfi umhverfisáhrif vegagerðar á því svæði og  skera þarf úr því sem fyrst. Bæjarráðið vekur athygli á því að ákvörðunin að flýta áðurgreindum framkvæmdum er tekin í tengslum við þriðjungs niðurskurð í þorskaflaheimildum og þess vegna er það mikilvægt að hlutur heimamanna verði sem mestur í framkvæmdunum."

Sumarlokun leikskóla Vesturbyggð 2007

Grillveisla á Tjarnarbrekku
Grillveisla á Tjarnarbrekku
1 af 10
Nú er skemmtilegu sumarstarfi okkar hér í leikskólum Vesturbyggðar að ljúka og loka leikskólarnir Araklettur og Tjarnabrekka í fimm vikur eða frá 16. Júlí til 19. Ágúst 2007. Við höfum gert okkur margt til dægrastyttingar í þessu frábæra sól og sumarveðri, meðal annars sullað úti, haldið hjóladag, fengið fræðslu frá heilsugæslu Patreksfjarðar og grillað pylsur svo eitthvað sé nefnt. Sérstaklega ber þó að nefna garðana okkar á lóðinni þar sem við höfum verið að rækta kartöflur og grænmeti og viljum við biðja alla bæjabúa stóra og smáa að passa garðinn með okkur þegar þið notið leikskólavöllinn í sumar. Endilega skoðið grænmetið en látið okkur um að taka það upp í ágúst þegar við byrjum starfsemina aftur. Börnin verða mjög þakklát fyrir það. Gleðilegt sumar og sjáumst hress í ágúst!
Starfsfólk Arakletts og Tjarnarbrekku

Tilkynning til deildarstjóra og umsjónarmanna hjá Vesturbyggð

Séð inn Patreksfjörð frá Gjögrum
Séð inn Patreksfjörð frá Gjögrum
Nú ættu allir deildarstjórar og umsjónarmenn hjá Vesturbyggð að vera búnir að fá sendan aðgang að nýjum vef Vesturbyggðar. 

Með þessum aðgangi eigið þið nú auðvelt með að koma fréttum inn á Vesturbyggðarvefinn. Þarna mega koma fréttir um t.d. metdag í aðsókn að íþróttamiðstöðvum, viðburðir hjá vinnuskólum, tilkynningar frá t.d. vatnsveitu um lokun fyrir vatn, frá afhendingu gjafa til stofnanna Vesturbyggðar, frá grillhátíðum í skólum og leikskólum, metdagur í lönduðum afla og í raun megið þið setja inn á vefinn allt sem snertir ykkar deild og ykkur þykir fréttnæmt.  Þeir deildarstjórar og umsjónamenn sem skrifa á vefinn bera að sjálfsögðu ábyrgð á skrifum sínum, þ.e. bera ritstjórnarlega ábyrgð á efninu sem þeir setja inn á vefinn.

Ef einhverjar spurningar vakna eða ykkur vantar hjálp við að koma frétt og/eða myndum á vefinn þá vinsamlega hafið samband við Bríeti í síma 450-2300.
Fréttasafn
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is