Leikskólastjóri á Patreksfirði

Staða leikskólastjóra við leikskólann Araklett á Patreksfirði er laus til umsóknar.

Vesturbyggð auglýsir lausa til umsóknar stöðu leikskólastjóra hjá leikskólanum Arakletti á  Patreksfirði, sem er þriggja deilda leikskóli, fyrir um 50 börn, sjá nánar http://www.araklettur.is

Á verksviði leikskólastjóra eru; stjórn og ábyrgð á daglegri starfsemi, starfsmannahaldi, fjárhagsáætlanagerð og rekstri. Leikskólastjóri ber ábyrgð á faglegri forystu í vinnu með starfsfólki að markmiðum leikskólans. Lögð er áhersla á öflugt og gott samstarf og samráð við foreldrafélag leikskólans og fræðsluráð sveitarfélagsins. Næsti yfirmaður er bæjarstjóri.

Leikskólinn Araklettur starfar samkvæmt gildum Lífsmenntar og lauk þróunarverkefni í Lífsmennt árið 2016. Hann er einnig Sólblómaleikskóli, Heilsueflandi leikskóli og tekur þátt í Vináttuverkefni Barnaheilla, auk þess að vera leikskóli á Grænni grein. Unnið er eftir skólastefnu Vesturbyggðar frá 2014 og Uppbyggingarstefnu sem samræmd er í öllu skólastarfi í Vesturbyggð.

Gert er ráð fyrir að umsækjendur hafi leikskólakennaramenntun og kostur ef viðkomandi hefur framhaldsnám sem nýtist í starfi. Við leitum að einstaklingi með framúrskarandi færni í mannlegum samskiptum og jákvæð lífsviðhorf, auk skipulagshæfni, frumkvæðis, sjálfstæðis og fagmennsku í vinnubrögðum. Stjórnunarreynsla og reynsla af starfsmannahaldi er skilyrði.

Launakjör vegna ofangreinds starfs verða skv. kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélaga.

Umsóknarfrestur er til og með 17. júní.

Nánari upplýsingar veitir Friðbjörg Matthíasdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, baejarstjori@vesturbyggd.is eða í síma 450-2300

Vesturbyggð er tæplega 1100 manna samfélag í mikilli sókn. Þar eru tveir þéttbýliskjarnar, Patreksfjörður er stærstur með 700 íbúa og svo Bíldudalur með 220 íbúa. Í kring er blómlegt dreifbýli með öflugum landbúnaði og ferðaþjónustu.  Um 5 tíma akstur er til Reykjavíkur og þá gengur ferjan Baldur árið um kring milli Stykkishólms og Brjánslækjar. Áætlunarflug er frá Bíldudal.

Öll almenn þjónusta svo sem leik- grunn og tónskóli, heilsugæsla ásamt frábærri aðstöðu til almennrar íþróttaiðkunar er á staðnum.

Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is