Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi viðburður endaði fyrir meira en 5 ári síðan.

Fjöl­skyldu­helgi í Vatns­firði

Helgina 11.-12. ágúst verður haldin fjölskylduhelgi í friðlandinu Vatnsfirði þar sem boðið verður upp á fjörubingó, fræðslu, náttúruskoðun og fjölskyldugöngur. Allir velkomnir og aðgangur að viðburðum er þátttakendum að kostnaðarlausu.
Dagskráin er eftirfarandi:

LAUGARDAGUR 11. ÁGÚST
Klukkan 11:00-12:30 Fjörubingó með landverði. Fjölskylduganga. Mæting á bílastæðið við Hellulaug. Landvörður segir frá náttúrunni í fjörunni og leiðir göngu inn að botni fjarðarins og til baka. Allir krakkar fá „bingóspjald“ og haka við það sem fyrir augu ber. Þeir sem taka þátt fá viðurkenningarskjal. Það er tilvalið að taka með sér sundföt og skella sér í laugina að lokinni göngu.

Klukkan 13:00-15:00 Ganga í Surtarbrandsgil með landverði. Mæting er á sýningu um Surtarbrandsgil í gamla prestbústaðnum á Brjánslæk. Á sýningunni skoðum við fallega plöntusteingervinga sem fundist hafa í gilinu og að því loknu verður gengið í gilið þar sem við reynum að sjá fyrir okkur hvernig gróðurinn var á Íslandi fyrir 12 milljónum ára.

Klukkan 16:00-17:00 Sögustund við Gíslahelli með landverði. Mæting á bílastæðið í Hörgsnesi. Gísli Súrsson var mikill kappi sem var lengi í útlegð og faldi sig fyrir óvinum sínum m.a. í Vatnsfirði og nágrenni hans. Á Hörgsnesi er hellir sem er nefndur eftir Gísla þar sem talið er að hann hafi falið sig. Við heyrum af ævintýrum Gísla og allir krakkar fá að skríða ofan í Gíslahelli sem er lítil og óvistleg hola en frábær felustaður.

SUNNUDAGUR 12. ÁGÚST
Klukkan 11:00-12:00 Barnastund – horft til fortíðar með Ingu Hlín Valdimarsdóttur safnstjóra á Minjasafninu að Hnjóti. Mæting á bílastæðið við Flókalund. Inga fræðir gesti um leiki barna fyrr á tíðum og sýnir muni úr fórum safnsins sem tengjast þeim. Að lokum verður farið í leiki.

Klukkan 13:00 – 15:00 Ganga í Surtarbrandsgil með landverði. Mæting er á sýningu um Surtarbrandsgil í gamla prestbústaðnum á Brjánslæk. Á sýningunni skoðum við fallega plöntusteingervinga sem fundist hafa í gilinu og að því loknu verður farin ganga í gilið þar sem við reynum að sjá fyrir okkur hvernig gróðurinn var á Íslandi fyrir 12 milljónum ára.

Klukkan 15:00 – 16:30 Gróðurparadísin Vatnsfjörður. Fjölskylduganga með landverði. Mæting á bílastæðið við Flókalund þar sem sameinast verður í bíla. Genginn verður auðveldur hringur við rætur Þingmannaheiðar þar sem landvörður fræðir gesti um tré, runna og aðrar plöntur sem finna má í friðlandinu en það er rómað fyrir gróðursæld sína. Landvörður verður með lúpur meðferðis fyrir þá sem vilja skoða gróðurinn í stækkaðri mynd.

Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og vera í góðum skóm. Landverðir verða með handbækur, kíki og lúpur meðferðis.

Nánari upplýsingar hjá landvörðum í símum 8224080, 8224081 eða 8377011, og einnig á Facebook

Skoða viðburð á Facebook