Hoppa yfir valmynd

Samgöngumál á sunnanverðum Vestfjörðum.

Málsnúmer 1604038

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

13. apríl 2016 – Bæjarráð

Vísað er í 1.tölul. 759.fundargerðar bæjarráðs frá 22. mars 2016.
Mættir til viðræðna við bæjarráð fulltrúar Vegagerðarinnar þeir Sigurður Mar Óskarsson, deildarstjóri Ísafirði, Pálmi Þór Sævarsson, deildarstjóri Borgarnesi, Geir Sigurðsson, verkefnastjóri Ísafirði, Eiður B Thoroddsen, fráfarandi rekstrarstjóri Patreksfirði, Bríet Arnardóttir, rekstrarstjóri Patreksfirði og Sæmundur Kristjánsson, yfirverkstjóri Búðardal. Elfar Steinn Karlsson, forstm. tæknideildar Vesturbyggðar sat fundinn.
Rætt var almennt um samgöngumál á sunnanverðum Vestfjörðum, um vetrarþjónustu s.s. snjómokstursreglur, um viðhaldsverkefni á vegum m.a. á Mikladal, Raknadalshlíð, Þorskafirði, Dynjandisheiði, Hálsum, uppsetningu vegriða o.fl., um nýframkvæmdir s.s. Dýrarfjarðargöng, Dynjandisheiði, Örlygshafnarveg, í Gufudalssveit/Teigskóg og endurbætur/nýtt vegstæði á Rauðasand, um ferðir Breiðafjarðarferjunnar Baldurs og möguleika á að fjölga ferðum vegna aukinna flutninga og um flug til Bíldudals og fjölgun ferða.
Bæjarráð þakkar Eiði Thoroddsen, fráfarandi rekstrarstjóra Vegagerðarinnar á Patreksfirði vel unnin störf að samgöngumálum á sunnanverðum Vestfjörðum í meira en fjóra áratugi og gott samstarf við sveitarfélagið.




8. mars 2017 – Bæjarráð

Bæjarráð Vesturbyggðar mótmælir boðuðum niðurskurði samgönguráðherra í vegagerð í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði. Vestfirðingar hafa um áratugaskeið barist fyrir bættum vegsamgöngum um sunnanverða Vestfirði og senda nú ákall til stjórnvalda um að staðið verði við þau fyrirheit sem gefin hafa verið um framkvæmdir í Gufudalssveit. Það er algjört skilyrði að framkvæmdin verði boðin út um leið og framkvæmdaleyfi liggur fyrir.




30. apríl 2018 – Bæjarstjórn

Bæjarstjórn Vesturbyggðar skorar á Alþingi að afgreiða framkvæmdaleyfi á Vestfjarðavegi 60 með því að samþykkja lagafrumvarp sem liggur fyrir Alþingi, þingskjal nr. 667, 461. mál sem er lagt fram undir forystu Haraldar Benediktssonar 1. þingmanns NV kjördæmis.

Eins og staðan er í dag þá mun aldrei nást fullkomin samstaða um legu þjóðvegar við Breiðafjörð og stjórnsýslan mun ekki finna aðra lausn á vegagerð í Gufudalssveit, það er löngu orðið ljóst. Allar aðrar tillögur um vegstæði munu verða kærðar og síðan stöðvaðar af ríkisstofnunum. Reynslan sýnir það. Lagasetning er eina lausnin á þessu ótrúlega máli sem hefur verið á flakki milli stofnana í yfir áratug síðan ákvörðun Jónínu Bjartmarz þáverandi umhverfisráðherra var kærð til héraðsdóms og svo Hæstaréttar þar sem dómur féll gegn samfélaginu á Vestfjörðum.

Vestfirðingar hafa beðið allt of lengi eftir sjálfsögðum vegabótum. Það er sama hvar borið er niður; á sunnanverðum Vestfjörðum, norðanverðum Vestfjörðum og á Ströndum.

En nú er ekki eftir neinu að bíða. Það þarf aðeins að taka ákvörðun um að standa með fólkinu og umhverfinu á Vestfjörðum.