Hoppa yfir valmynd

Hagvon umsókn um byggingar- og athafnalóð við Eyragötu

Málsnúmer 1606007

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

25. júlí 2016 – Skipulags og umhverfisráð

Erindi frá Árna G. Bárðarssyni f.h. Hagvonar ehf. Í erindinu er óskað eftir breytingu á byggingarreit sem og stækkun á lóð sem skipulags- og umhverfisráð samþykkti að leigja út til félagsins á fundi ráðsins þann 13.júní s.l. Óskað er eftir 1,5m stækkun á lóð til SA, samtals um 90m2. Einnig er þess óskað að byggingarreitur verði færður til SV svo athafnarými umvherfis húsið nýtist betur.

Skipulags- og umhverfisráð samþykkir færslu á byggingarreit með fyrirvara um grenndarkynningu, skipulags- og umhverfisráð bendir á að gætt verði brunavarnarákvæða sökum nálægðar við lóðarmörk. Ráðið getur ekki fallist á stækkun lóðar til SA.




13. júní 2016 – Skipulags og umhverfisráð

Erindi frá Árna G. Bárðarssyni f.h. Hagvonar ehf. í erindinu er sótt um byggingar- og athafnalóð við Eyrargötu á Patreksfirði, milli gamla Pakkhússins og veitingastaðarins Heimsenda. Tilgangurinn er að láta hanna og teikna u.þ.b. 200m2 stálgrindarhús.

Skipulags- og umhverfisráð beinir því til Bæjarstjórnar Vesturbyggðar að samþykkja útleigu lóðarinnar til Hagvonar ehf. Skipulags- og umhverfisráð vill þó benda á að umrædd lóð er 630m2 að stærð og hámarksstærð húss er 315m2 á lóðinni.




13. febrúar 2017 – Skipulags og umhverfisráð

Tekið fyrir aftur erindi Árna G. Bárðarssonar um umsókn um byggingarlóð við Eyrargötu. Lóðin stendur á hafnarsvæði skv. hafnarreglugerð Vesturbyggðar nr. 989/2005.

Skipulags- og umhverfisráð vísar erindinu áfram til hafnarstjórnar Vesturbyggðar sem fjalla þarf um málið.




2. mars 2017 – Hafnarstjórn

Hafnarstjórn frestar erindinu og óskar eftir frekari upplýsingum frá skipulagsfulltrúa.




14. mars 2017 – Hafnarstjórn

Umsókn frá Hagvon ehf. um byggingar- og athafnalóð við Eyrargötu, erindi vísað frá skipulags- og umhverfisráði. Hafnarstjórn tekur undir með skipulags- og umhverfisráði að forstöðumanni tæknideildar verði falið að láta fara fram grenndarkynningu vegna færslu á byggingarreit innan lóðarinnar.




18. apríl 2017 – Atvinnu og menningarráð

Tekin var fyrir breyting á deiliskipulagi innan iðnaðarlóðar við Eyrargötu milli Heimsenda og Pakkhúss. Greidd voru atkvæði um færslu hússins innan lóðar og gerðu Ólafur H. Haraldsson og Hjörtur Sigurðsson ekki athugasemd við færslu hússins. Kristín Pálsdóttir og María Ragnarsdóttir sátu hjá.

María Ragnarsdóttir lagði fram bókun á fundinum.
"Ég lýsi furðu minni á því að búið sé að samþykkja byggingu iðnaðarhúsnæðis á svæði sem að mínu mati er vænlegast á Patreksfirði sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Ég tel að með því sé búið að eyðileggja heildarmynd sem í framtíðinni gæti orðið mikil prýði á bænum.
Bílaverkstæðið Smur og dekk mun flytja starfsemi sína af svæðinu, Vatneyrarbúðin verður vonandi tekin í notkun fyrr en seinna, allskonar hugmyndir sem lúta að menningarstarfsemi hafa verið viðraðar varðandi Pakkhúsið, Gamla smiðjan verður vonandi lagfærð og með einhverja menningar og/eða ferðamannastarfsemi og síðan eru þessi gömlu fallegu hús neðst á Aðalstrætinu. Nú er svo komið að ferðamenn koma í auknum mæli hingað. Ættum við ekki að huga að því að byggja upp heildarmynd?"




25. apríl 2017 – Hafnarstjórn

Hafnarstjórn fagnar framkominni hugmynd um byggingu iðnaðarhúsnæðis á hafnarsvæðinu og samþykkir úthlutun lóðar fyrir sitt leyti og færslu hússins innan lóðar. Taki bæjarstjórn Vesturbyggðar hins vegar ákvörðun um að endurskilgreina notkun á svæðinu vegna vinnu við nýtt aðalskipulag, niðurrifs Straumness og í ljósi niðurstöðu grenndarkynningar, þá mun hafnarstjórn ekki leggjast gegn því.




15. maí 2017 – Skipulags og umhverfisráð

Breyting á deiliskipulagi var grenndarkynnt með athugasemdarfresti til 12. maí 2017. Tvær athugasemdir bárust í einum tölvupósti dagsett 12. maí 2017 þar sem gerðar eru athugasemdir við breytinguna í nokkrum liðum.
Á grundvelli afgerandi athugasemda sem borist hafa við auglýsta grenndarkynningu þá getur skipulags- og umhverfisráð ekki heimilað færslu á byggingareit eins og óskað var eftir. Ennfremur í ljósi athugasemda sem bárust við grenndarkynninguna og að formleg úthlutun lóðar hafi ekki enn farið fram leggur skipulags- og umhverfisráð til við hafnarstjórn að úthlutun lóðar verði breytt og að eingöngu verði úthlutuð lóð undir iðnaðarhúsið sjálft, ekki athafnalóð umhverfis húsið.




16. maí 2017 – Hafnarstjórn

Tekið fyrir að nýju umsókn Hagvonar um byggingar- og athafnalóð við Eyrargötu. Breyting á byggingarreit innan lóðar var grenndarkynnt með athugasemdarfresti til 12. maí 2017. Tvær athugasemdir bárust í einum tölvupósti dagsett 12. maí 2017 þar sem gerðar eru athugasemdir við breytinguna í nokkrum liðum.

Vegna athugasemda sem borist hafa við auglýsta grenndarkynningu, þá hafnar hafnarstjórn færslu hússins innan lóðar og úthlutar lóðinni án athafnalóðar, með vísan í afgreiðslu skipulags- og umhverfisráðs frá 34. fundi, 15. maí:

"Á grundvelli afgerandi athugasemda sem borist hafa við auglýsta grenndarkynningu þá getur skipulags- og umhverfisráð ekki heimilað færslu á byggingareit eins og óskað var eftir. Ennfremur í ljósi athugasemda sem bárust við grenndarkynninguna og að formleg úthlutun lóðar hafi ekki enn farið fram leggur skipulags- og umhverfisráð til við hafnarstjórn að úthlutun lóðar verði breytt og að eingöngu verði úthlutuð lóð undir iðnaðarhúsið sjálft, ekki athafnalóð umhverfis húsið."