Hoppa yfir valmynd

Samgöngumál

Málsnúmer 1803009

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

6. mars 2018 – Bæjarráð

Rætt um vegaframkvæmdir á Vestfjörðum í kjölfarið á ástandi vega í Gufudalssveit sl. vikna.
Bæjarráð Vesturbyggðar mótmælir harðlega seinagangi á framkvæmdum við vegagerð á Vestfjörðum sl. áratugi. Staðan á vegagerð í Gufudalssveit er með öllu fordæmalaus. Saga vegalagningar á þessu svæði er löng. Árið 2006 hafnaði Skipulagsstofnun með úrskurði að vegur yrði lagður um Teigsskóg. Sá úrskurður var kærður til umhverfisráðherra sem sneri við úrskurðinum með vísan í aukið umferðaröryggi. Úrskurður ráðherra var kærður til dómstóla. Héraðsdómur ógilti úrskurðinn, og í október 2009 ógilti Hæstiréttur úrskurð ráðherra á þeim forsendum (alls ólíkum forsendum Héraðsdóms) að ekki mætti taka tillit til umferðaröryggis við mat á umhverfisáhrifum. Síðastliðin 12 ár hafa því verið ein samfelld sorgarsaga í vegagerð í Gufudalssveit og stjórnvöld sýnt fullkomið úrræða- og bjargaleysi í þessum málum.
Og nú eru líkur á að vegagerð um Dynjandisheiði verði sama sorgarsagan. Engin fjármögnun liggur fyrir á vegagerðinni og stefnir í að vegurinn um Dýrafjarðargöng verði dýrasti botnlangi sögunnar.

Það er ljóst að Vestfirðingar hafa verið sviknir um vegagerð ítrekað. Einstakir sumarbústaðaeigendur hafa því miður stýrt för og hafa árstíðabundnir hagsmunir þeirra verið látnir ganga framar hagsmunum fólks sem býr á svæðinu.

Bæjarráð Vesturbyggðar hvetur Alþingismenn til dáða og sýna vilja í verki með aðgerðum og lúkningu vegagerðar á Vestfjörðum.
4. desember 2018 – Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps

Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps sendir frá sér eftirfarandi bókun.

Fulltrúar Samráðsnefndar Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps eru sammála um nauðsyn þess að flýta endurnýjun vegarins um Mikladal milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar sem kostur er. Brýn þörf er orðin á endurnýjun vegarins vegna aldurs hans og ástands sem samræmist ekki þeim kröfum sem gerðar eru til vega í dag. Miklidalur er fjölfarnasti fjallvegur Vestfjarða og nauðsynlegt að tryggja öruggar samgöngur á þessari leið sem kostur er vegna mikilvægis hennar sem tenging milli þéttbýlisstaða á sunnanverðum Vestfjörðum.

Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps leggur mikla áherslu á mikilvægi þess að bæta vegasamgöngur við sunnanverða Vestfirði sem allra fyrst. Sú staða sem komin er upp vegna þess að Reykhólahreppur hefur dregið að taka ákvörðun um veglínu nýlagningar á Vestfjarðavegi 60 setur allar áætlanir um uppbyggingu vegarins og fjármögnun þessara framkvæmda í uppnám. Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps harmar það rof á áratuga samstöðu þessara þriggja sveitarfélaga um vegabætur á Vestfjarðavegi 60, sem virðist vera orðið með drætti á ákvörðun Reykhólahrepps og hvetur sveitarstjórn Reykhólahrepps til þess að standa við fyrri ákvörðun sveitarstjórnar þannig að framkvæmdir geti hafist sem allra fyrst. Samgöngur við sunnanverða Vestfirði samkvæmt Þ-H leiðinni, eru gríðarlega mikilvægar og brýnt að þar takist vel til með veghönnun og lagningu með framtíðarnotkun vegarins í huga, öllum íbúum sunnanverðra Vestfjarða til hagsbóta.

Samþykkt samhljóða
9. janúar 2019 – Bæjarráð

Ályktun Bæjarráðs Vesturbyggðar er varðar veglagningu um Gufudalssveit.
Bæjarráð Vesturbyggðar ítrekar enn og aftur nauðsyn þess að sveitarstjórn Reykhólahrepps taki ákvörðun um vegstæði Vestfjarðavegar 60 strax. Bæjarráðið minnir aftur á þá miklu samstöðu sem verið hefur um allan fjórðunginn um að velja Þ-H leið og er því viðsnúningur sveitarstjórnar Reykhólahrepps mikið reiðarslag. Leiðarvalið skiptir íbúa og fyrirtæki miklu máli í ljósi þess að mjög óljós tímarammi myndist verði leið R fyrir valinu og mun það hafa áframhaldandi áhrif á samkeppnisstöðu svæðisins. Íbúar hafa bundið vonir við að framkvæmdir við Þ-H leið hæfust á árinu 2019 en ljóst er að mikil óvissa ríkir um það.

Hafa ber í huga að sveitarfélagið unir ekki óbreyttu ástandi vega og mun beita sér af öllum mætti fyrir vegabótum á núverandi vegi um Ódrjúgs- og Hjallaháls verði R- leiðin fyrir valinu. Bæjarráð vekur athygli á að eðlilegt er að sá kostnaður sem uppbygging á núverandi vegstæði um hálsana hefur í för með sér sé reiknaður með í kostnaðarmati fyrir R-leiðina.