Hoppa yfir valmynd

Umsögn um drög að frumvarpi vegna nýtingar eldissvæða í sjó.

Málsnúmer 1901017

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

9. janúar 2019 – Bæjarráð

Iða Marsibil Jónsdóttir vék af fundi á meðan dagskrárliðurinn var tekinn fyrir.
Bæjarráð Vesturbyggðar gerir athugasemdir við drög frumvarpa til laga um gjald vegna nýtingar eldissvæða og drög að frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lagaáækvæðum sem tengjast fiskeldi sem nú eru til umsagnar.

Vesturbyggð leggur áherslu á að vel séu ígrundaðar hverjar þær breytingar sem gerðar eru á rekstrarumhverfi þeirra fyrirtækja sem eru í fiskeldi og hófs sé gætt í þeim skilyrðum og gjaldtöku sem lagðar eru á þau fyrirtæki sem eru í auðlindanýtingu. Atvinnustarfsemi innan Vesturbyggðar er að mestu auðlindanýting sem tryggir vissulega samkeppnisforskot en getur einnig skapað einsleitni í atvinnulífi og geta því litlar breytingar haft veruleg neikvæð áhrif á þá miklu og góðu uppbyggingu sem þegar hefur orðið í sveitarfélaginu. Bæjarráð leggur því ríka áherslu á það að þær kröfur og gjaldtaka á þá rekstraraðila sem stunda lax- og regnbogasilungseldi verði ekki það íþyngjandi að það muni hafa neikvæð áhrif á rekstrargrundvöll fyrirtækjanna og dragi þannig úr samkeppnisstöðu þeirra.

Bæjarráð Vesturbyggðar leggur einnig áherslu á að í samræmi við álit nefndar um stefnu í auðlindamálum frá 12. september 2012 sem og tillögum í skýrslu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi frá 21. ágúst 2017, að stærstum hluta gjaldsins verði ráðstafað til þeirra landsvæða sem hafa aðkomu að fiskeldi í sjókvíum, eða 85% af innheimtu gjaldi. Tekjustofnar sveitarfélaga eru takmarkaðir og því mikilvægt að gjöld sem þessi renni til sveitarfélaganna þar sem nýting auðlindarinnar og starfsemi rekstraraðila fer fram og þörfin til uppbyggingar samfélagslegar þjónustu er einna mest.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að skila athugasemdum um frumvörpin tvö til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.