Hoppa yfir valmynd

Araklettur - skipan starfshóps

Málsnúmer 1903179

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

12. mars 2019 – Bæjarráð

Lögð fram greinargerð starfshóps um leikskólamál á Patreksfirði. Guðrún Eggertsdóttir og Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir komu inn á fundinn og fóru yfir þær tillögur sem starfshópurinn vann.
Bæjarráð þakkar starfshópnum fyrir vandaða greinagerð og mikla vinnu sem lögð var í hana.
Bæjarráð vísar greinagerðinni til Fræðslu- og æskulýðsráðs til umfjöllunar.
19. mars 2019 – Fræðslu og æskulýðsráð

Lögð fyrir skýrsla starfshóps um leikskólamál. Fram fór kynning á skýrslu starfshópsins, en mætt voru til fundarins Elfar Steinn Karlsson og Svanhvít Skjaldardóttir ásamt formanni, og fóru þau yfir efni skýrslunnar og tillögur starfshópsins. Skýrslunni er vísað til kynningar í foreldraráði leikskólans og skólaráði grunnskólans til umfjöllunar og umsagnar. Skólastjórnendur boða til fundar með ráðum hvors skóla. Minnisblað frá foreldraráði leikskóla og skólaráði grunnskóla skal liggja fyrir, fyrir næsta fund nefndarinnar.
20. mars 2019 – Fræðslu og æskulýðsráð

Kjörnir fulltrúar ræddu efni skýrslu starfshóps um leikskólamál. Formanni falið að óska eftir frekari upplýsingum eftir umræður á fundinum.
27. mars 2019 – Bæjarstjórn

Lögð fram greinargerð starfshóps um leikskólamál á Patreksfirði. Guðrún Eggertsdóttir, Elfar Steinn Karlsson og Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir komu inn á fundinn og fóru yfir þær tillögur sem starfshópurinn vann.

Bæjarstjórn þakkar starfshópnum fyrir vandaða greinagerð og þá miklu vinnu sem lögð var í hana.
16. apríl 2019 – Bæjarráð

Lagðar fram fundargerðir skólaráðs Patreksskóla og foreldraráðs Arakletts ásamt bréfi dags. 8. apríl 2019 frá kennurum við Patreksskóla. Áframhaldandi umræður um húsnæðismál leikskólans á Patreksfirði.

Bæjarráð óskar eftir því að starfshópurinn sem vann greinagerðina haldi kynningu fyrir starfsfólk Patreksskóla og Arakletts 23. apríl nk.
16. apríl 2019 – Fræðslu og æskulýðsráð

Bréf frá kennurum í Patreksskóla lagt fram til kynningar.
24. apríl 2019 – Bæjarstjórn

Tekin til umræðu skýrsla starfshóps um leikskólamál á Patreksfirði frá mars 2019. Lagðar voru fram fundargerðir skólaráðs dags. 2. apríl 2019 og foreldraráðs leikskólans Arakletts dags. 4. apríl 2019 ásamt könnun meðal starfsmanna leikskólans Arakletts dags. 2. apríl 2019. Einnig var lagt fram bréf kennara Patreksskóla dags. 8 apríl 2019. Bæjarstjóri fór yfir umræður á fundi 23. apríl sl. með starfsmönnum Arakletts og Patreksskóla þar sem starfshópurinn kynnti skýrsluna.

Bæjarstjórn þakkar skólaráði og foreldraráði fyrir umsagnir sínar og starfsmönnum Arakletts og Patreksskóla fyrir ábendingar og athugasemdir um þær tillögur sem liggja fyrir.

Vesturbyggð stendur frammi fyrir þeirri jákvæðu áskorun að börnum er að fjölga mikið í sveitarfélaginu sem kallar á aukna þjónustu. Ljóst er að það verkefni sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir haustið 2019 er nauðsynlegt að leysa bæði vel og fljótt, í sátt og samvinnu við foreldra, skólastjórnendur og starfsmenn bæði leik- og grunnskóla með þarfir leik- og grunnskólabarna að leiðarljósi. Lagt er til að hrint verði í framkvæmd tillögu 5 samkvæmt skýrslu starfshópsins, sem gerir ráð fyrir að elstu leikskólabörnum sem fædd eru 2014 verði kennt í Patreksskóla haustið 2019. Ákvörðun bæjarstjórnar byggir m.a. á því að mörg sambærileg fordæmi er að finna í öðrum nágranna sveitarfélögum, s.s. hjá Grundarfjarðarbæ og Ísafjarðarbæ og hefur slíkt fyrirkomulag gefist vel.

Bæjarstjórn leggur áherslu á að framkvæmdir hefjist sem fyrst þannig að tryggt verði að breytingin hafi sem minnst áhrif á starfsemi leik- og grunnskóla haustið 2019. Bæjarstjórn leggur áherslu á að framkvæmdir við nauðsynlegar breytingar á Arakletti fari fram á meðan lokun leikskólans stendur frá 15. júní - 15. júlí 2019. Þá skuli framkvæmdum við breytingar á húsnæði og lóð Patreksskóla vera lokið áður en skólastarf hefst í haust. Bæjarstjórn leggur áherslu á það að við framkvæmdir við húsnæði Patreksskóla verði litið til þess að yngsta stig Patreksskóla 0. - 4. bekkur verði í sömu byggingu til að tryggja það góða og faglega starf sem fram fer á yngsta stigi grunnskólans.

Til máls tóku: Forseti, bæjarstjóri,ÞSÓ og FM.

Bæjarstjórn vísar málinu til bæjarráðs og felur því að skipa framkvæmdahóp sem heldur utan um innleiðingu og framkvæmd breytinganna í samráði við skólastjórnendur. Þá er bæjarráði falið að leggja mat á kostnað við breytingarnar og taka afstöðu til þess hvort frekari fjárveitingar þurfi að koma til vegna framkvæmdarinnar en nú þegar er mælt fyrir um í fjárhagsáætlun 2019.
7. maí 2019 – Bæjarráð

Tekin fyrir bókun bæjarstjórnar frá 334. fundi 24. apríl 2019 þar sem bæjarráði var falið að skipa framkvæmdahóp sem heldur utan um innleiðingu og framkvæmd breyingu á Patreksskóla fyrir haustið 2019.

Bæjarráð samþykkir samhljóða að í hópnum skuli sitja, Gústaf Gústafsson skólastjóri Patreksskóla, Geir Gestsson sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs og Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri.

Bæjarráð felur framkvæmdahópnum að skila yfirliti yfir nauðsynlegar framkvæmdir og kostnaðaráætlun fyrir næsta fund bæjarráðs.
12. júní 2019 – Fræðslu og æskulýðsráð

Geir Gestsson sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs ásamt Gústaf Gústafssyni skólastjóra Patreksskóla fóru yfir stöðu mála, varðandi flutning elstu barna Arakletts yfir í Patreksskóla í haust, með nefndinni. Málið er í fullri vinnslu og unnið er að verk- og kostnaðaráætlun. Skipulag innra starfs er komið vel á veg. Búið er að ræða við iðnaðarmenn varðandi framkvæmdir.
13. júní 2019 – Bæjarráð

Farið var yfir kostnaðaráætlanir vegna tilfærslu 5 ára barna í leikskóladeild í Patreksskóla. Gústaf Gústafsson skólastjóri og Geir Gestsson sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs komu inn á fundinn og fóru ásamt bæjarstjóra yfir fyrirhugaðar framkvæmdir, en áhersla verður lögð á aðstöðu leikskóladeildar í neðri byggingu Patreksskóla og framkvæmdir við lóð skólans. Unnið er að endurskipulagningu innra starfs skólans með tilliti til komu elstu deildar leikskólans.
Skipulag verkefnisins miðar vel áfram og verður lagður fyrir á næsta fundi bæjarráðs viðauki við fjárhagsáætlun svo hægt verði að hefja framkvæmdir.
27. júní 2019 – Bæjarráð

Tekið fyrir minnisblað bæjarstjóra vegna framkvæmda við Patreksskóla sumarið 2019, dags. 24. júní 2019, ásamt minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðis dags. 7. júní 2019 og kostnaðaráætlun fyrir einstaka þætti verkefnisins. Fundinn sátu sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs ásamt skólastjóra Patreksskóla og fóru þeir yfir undirbúning vegna framkvæmda á húsnæði Patreksskóla og á lóð skólans, sem og undirbúning innra starfs Patreksskóla haustið 2019. Heildarkostnaður við framkvæmdirnar nema tæplega 17 milljónum, þegar er gert ráð fyrir 5 milljónum í fjárhagsáætlun 2019 og eru 12 milljónir fjármagnaðar með gerð viðauka við fjárhagsáætlun. Sjá lið 2 á dagskrá, málsnr. 1903392.
14. ágúst 2019 – Fræðslu og æskulýðsráð

Sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdarsviðs fór yfir stöðu framkvæmda í skólahúsnæði Vesturbyggðar.

Fræðslu- og æskulýðsráð leggur til að viðmið um leikrými per barn verði 3.5 fm í leikskólum Vesturbyggðar. Viðmið fari aldrei niður fyrir 3,2 fm per barn. Viðmið geti því verið breytileg á bilinu 3,2-3.5 fm.
Fræðslu- og æskulýðsráð leggur til að frá og með haustinu 2020 verði stefnt að taka inn börn frá 12 mánaða aldri. Reglum um leikskóla Vesturbyggðar verði breytt og 1. gr tilgreini að lækka viðmiðuraldur úr 14 mánuðum í 12 mánuði frá og með hausti 2020. Inntaka barna frá 12 mánaða aldri er háð því að lágmarksleikrými sé á bilinu 3,2 -3.5 fm per barn og inntaka eins og áður aðeins ef húsrúm leyfir. Það verði haft til grundvallar við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2020.Jafnframt skuli við gerð fjárhagsáætlunar leitað leiða til að að bæta enn frekar starfsmannaaðstöðu og undirbúningsrými og þannig reynt að minnka álag á starfsfólk og bæta starfsumhverfi þeirra sem vinna með börnum. Samþykkt samhljóða.
Vísað til bæjarráðs við gerð fjárhagsáætlunar.
20. ágúst 2019 – Bæjarráð

Tekin fyrir tillaga fræðslu- og æskulýðsráðs þar sem lagt er til að viðmið um leikrými per barn verði 3,5m2 í leikskólum í Vesturbyggð. Viðmið fari aldrei niður fyrir 3,2m2 per barn. Viðmið geti því verið breytileg á bilinu 3,2-3,5 m2. Fræðslu- og æskulýðsráð leggur einnig til að frá og með haustinu 2020 verði stefnt að taka inn börn frá 12 mánaða aldri. Reglum um leikskóla Vesturbyggðar verði breytt og 1. gr tilgreini að lækka viðmiðuraldur úr 14 mánuðum í 12 mánuði. Inntaka barna frá 12 mánaða aldri yrði háð því að lágmarksleikrými sé á bilinu 3,2 -3,5m2 per barn og aðeins ef húsrúm leyfir. Fræðslu- og æskulýðsráð leggur til að breyting þessi verði höfð til grundvallar við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2020. Jafnframt skuli við gerð fjárhagsáætlunar leitað leiða til að að bæta enn frekar starfsmannaaðstöðu og undirbúningsrými og þannig reynt að minnka álag á starfsfólk og bæta starfsumhverfi þeirra sem vinna með börnum.

Bæjarráð frestar afgreiðslu máls.