Hoppa yfir valmynd

Skerðing á tekjum Jöfnunarsjóðs 2020 og 2021- bókun og minnisblað

Málsnúmer 1903354

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

27. mars 2019 – Bæjarstjórn

Lagt var fram minnisblað Sambands Íslenskra sveitarfélaga dags. 14. mars 2019 vegna áætlunar um tekjutap vegna áforma um frystingu framlags ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 2020-2021. Einnig var lögð fram tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 20220-2024 frá fjármála- og efnahagsráðherra sem birt var á vef Alþingis 23. mars 2019.

Varaforseti lagði fram tillögu að eftirfarandi bókun:
Sveitarfélagið Vesturbyggð mótmælir harðlega áformum um frystingu framlaga ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem finna má í forsendum fjármálaáætlunar fjármála- og efnahagsráðherra fyrir árin 2020-2024. Áhrif tillögunnar munu koma mest fram á útgjaldajöfnunarframlögum og framlögum sem ætlað er að jafna aðgengi íbúa að lögboðinni þjónustu óháð búsetu. Forsendur fjármálaáætlunar ganga einnig gegn markmið ríkisstjórnarinnar í þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 um jafnan aðgang íbúa að þjónustu. Áhrif tillögunnar munu leggjast mismunandi á einstaka landshluta og einstök sveitarfélög og auka þannig enn frekar á aðstöðumun milli sveitarfélaga í landinu. Sveitarfélög eins og Vesturbyggð sem sinnir dreifbýlu og fámennu svæði og er með marga byggðakjarna verður fyrir miklum neikvæðum áhrifum, nái fjármálaáætlunin fram að ganga, enda reiðir sveitarfélagið sig mjög á framlög Jöfnunarsjóðs til að veita lögbundna þjónustu. Í minnisblaði Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 14. mars 2019 kemur fram að íbúar á Vestfjörðum munu bera hlutfallslega mestu skerðinguna ef tillögur í fjármálaáætlun ná fram að ganga. Fjárframlög Jöfnunarsjóðs til Vestfjarða skerðast þannig hundrað sinnum meira en á höfuðborgarsvæðinu. Þannig verður tekjutap Vesturbyggðar árin 2020 og 2021 samtals 40,9 milljónir króna eða rúmlega 40.000 kr. á hvern íbúa sveitarfélagsins. Tekjutap sveitarfélagsins yrði því verulegt og hefur Vesturbyggð litla möguleika til að mæta þeim tekjusamdrætti nema með skerðingu á þjónustu eða framkvæmdafé. Uppgangur efnahagslífs hefur komið á misjafnan hátt við sveitarfélög samanber skýrslu Byggðastofnunar um Hagvöxt landshluta 2008-2016. Þéttbýlustu sveitarfélögin á þennslusvæðum hafa þá getað nýtt sér hagsveifluna til að efla innviði og þjónustu og þau sveitarfélög ættu því að vera betur í stakk búin en önnur til að mæta samdrætti. Tillaga að frystingu framlaga til Jöfnunarsjóðs mun því auka enn á aðstöðumun fámennra og dreifbýlli sveitarfélaga utan þenslusvæða.

Vesturbyggð skorast ekki undan þeirri ábyrgð sem felst í ábyrgum rekstri sveitarfélaga eða þátttöku í kostnaði við að þjónusta íbúa landsins. En þær forsendur sem liggja að baki fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024 um fyrirhugaða skerðingu er úr takti við sanngjarna úthlutun opinberra fjármuna úr sameiginlegum sjóðum. Það getur varla verið markmið ríkisins að íbúar á Vestfjörðum taki á sig hundrað sinnum meiri skerðingu en aðrir íbúar um leið og sveitarfélög á Vestfjörðum hafa í verulegu mæli ekki notið uppsveiflu hagkerfisins á undanförnum árum.

Sveitarfélagið Vesturbyggð mótmælir því harðlega forsendum fjármálaáætlunar fyrir árin 2020-2024 um skerðingu tekna til Jöfnunarsjóðs og beinir því til fjármála- og efnahagsráðherra að leitað verði annarra og sanngjarnari leiða til að ná jafnvægi í ríkisfjármálum.

Samþykkt samhljóða.




16. apríl 2019 – Bæjarráð

Bókun Sambands íslenskra sveitarfélaga um skerðingu á tekjum Jöfnunarsjóðs 2020 og 2021 lögð fram til kynningar.