Hoppa yfir valmynd

Styrkir Menningar-og ferðamálaráðs

Málsnúmer 1910002

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

8. október 2019 – Menningar- og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð leggur til að auglýst verði eftir umsóknum um styrk til ráðsins. Tilgangur styrkjanna er að efla menningar- og ferðamál innan Vesturbyggðar. Þar er gert ráð fyrir að hægt verði að sækja um fjórum sinnum á ári og stefnt að því að auglýst verði eftir umsóknum í upphafi næsta árs.

Menningar- og ferðamálaráð samþykkir drög af úthlutunarreglum og vísar þeim áfram til bæjarráðs.




22. október 2019 – Bæjarráð

Lögð fram tillaga menningar- og ferðamálaráðs frá 8. fundi ráðsins 6. október 2019 þar sem lagt er til að auglýst verði eftir umsóknum um styrki til ráðsins. Tilgangur styrkjanna er að efla menningar- og ferðamál innan Vesturbyggðar. Þar er gert ráð fyrir að hægt verði að sækja um fjórum sinnum á ári og stefnt að því að auglýst verði eftir umsóknum í upphafi næsta árs. Lögð fram drög að úthlutnarreglum vegna styrkjanna.

Bæjarráð samþykkir tillögu menningar- og ferðamálaráðs og vísar málinu til fjárhagsáætlunargerðar 2020 og felur bæjarstjóra að auglýsa úthlutnarreglurnar á heimasíðu Vesturbyggðar.




11. maí 2021 – Menningar- og ferðamálaráð

Páll Hauksson sækir um styrk vegna Tónlistarhátíðarinnar Blús milli fjalls og fjöru. Sótt er um styrk sem samsvarar leigugjaldi félagsheimilisins á Patreksfirði yfir þá helgi sem hátíðin stendur yfir.

Ráðið samþykkir að veita styrk sem samsvarar leigugjaldi félagsheimilisins

Ríkisútvarpið sækir um styrk vegna Tónlistarhátíðarinnar Tónaflóð um landið. Sótt er um styrk sem samsvarar leigugjaldi félagsheimilisins á Bíldudal.

Ráðið samþykkir að veita styrk sem samsvarar leigugjaldi félagsheimilisins




14. september 2021 – Menningar- og ferðamálaráð

Ráðið fór yfir breytingar á úthlutunarreglum styrkja menningar- og ferðamálaráðs. Þær breytingar sem samþykktar voru eru:

- Í 4. grein er bætt við "Í umsókn skal þess getið um hvaða styrki aðra hefur sótt vegna verkefnis, eða ráðgert er að sækja um, á þeim tímapunkti sem umsóknin er gerð. Úthlutunarnefndin lítur það jákvæðum augum að verkefni hljóti einnig styrkveitingu annarstaðar frá."

- Grein 8 var bætt við en hún er svohljóðandi:
Styrkhæfur kostnaður: Styrkir Menningar- og ferðamálaráðs Vesturbyggðar taka til fjármögnunar styrkhæfs kostnaðar í verkefninu. Eftirfarandi atriði eru til leiðbeiningar um hvað telst til styrkhæfs kostnaðar:
a. Laun: Launakostnaður miðist við útborguð laun að viðbættum launatengdum gjöldum. Ekki er heimilt að nota útseldan taxta til útreiknings launa, nema í aðkeyptri þjónustu sjá e. lið.
b. Vinnuframlag styrkþega og samstarfsaðila: Þrátt fyrir lið a) skal reikna launaða eða ólaunaða vinnu að hámarki á 4.000 kr./klst.
c. Ferðakostnaður: Leitast skal við að velja hagkvæmasta ferðamáta hverju sinni.
d. Aðföng: Gera skal grein fyrir þeim aðföngum sem þarf til verkefnisins, s.s. efni, áhöld og tæki. Heimilt er að kaupa sérhæfð tæki sem nauðsynleg eru fyrir framgang verkefnisins. Reikna má allt að 25% af kaupverði þeirra í kostnaðaráætlun í umsókn.
e. Aðkeypt þjónusta: Gera þarf grein fyrir aðkeyptri þjónustu í umsókn.

- Grein 9 var bætt við en hún er svohljóðandi:
Sá kostnaður sem fallið hefur til nú þegar, vegna þess verkefnis sem sótt er um, er ekki styrkhæfur.

- Grein 8 verður að grein 10 en við hana er einnig bætt að umsækjendur skuli gera grein fyrir hvernig styrkurinn var nýttur ef umsækjandi hefur áður fengið úthlutaðan styrk til sama verkefnis

- Grein 11 er bætt við en hún er svohljóðandi:
Styrkþegi skal geta þess í kynningu sinni á verkefninu, þar með töldum í fréttatilkynningu, í viðtölum, á prentefni og á samfélagsmiðlum eins og mögulegt er, að verkefnið sé styrkt af sjóðnum, auk þess að hafa kennimerki Vesturbyggðar sýnilegt þar sem það á við




21. september 2021 – Bæjarráð

Lagðar fram breytingar á úthlutunarreglum á styrkjum menninga- og ferðamálaráðs.

Bæjarráð samþykkir breyttar reglur og vísar þeim áfram til staðfestingar bæjarstjórnar.




20. október 2021 – Bæjarstjórn

Lagðar fyrir uppfærðar úthlutunarreglur styrkja menningar- og ferðamálaráðs. Ráðið tók breytingarnar fyrir á 17. fundi ráðsins 14. september sl. þar sem breytingar voru gerðar á 4., 8., 9. og 11. gr. reglnanna. Bæjarráð samþykkti breyttar úthlutnarreglur á 928. fundi ráðsins 21. september 2021.

Til máls tók: Forseti.

Bæjarstjórn staðfestir uppfærðar úthlutunarreglur Menningar- og ferðamálaráðs.