Hoppa yfir valmynd

Samstarf sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Málsnúmer 1910027

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

16. október 2019 – Bæjarstjórn

Yfirlýsing um samstarf sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar fagnar því frumkvæði sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið með stofnun samráðsvettvangs, sem ætlaður er sveitarfélögum landsins til samstarfs og samráðs um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Bæjarstjórn telur brýnt að ríki og sveitarfélög grípi nú þegar til markvissra og samstilltra aðgerða til að mæta áskorunum samtímans á sviði loftslagsmála og aðlaga íslenskt samfélag að þeim breytingum sem þegar hafa átt sér stað og fyrirséðar eru vegna loftslagsbreytinga. Einn mikilvægasti liðurinn í því aðkallandi starfi er að íslenskt samfélag verði lagað að kröfum sjálfbærrar þróunar. Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt gagnlegan grunn að slíku starfi með heimsmarkmiðum um sjálfbæra þróun.

Bæjarstjórn lýsir sig tilbúna til þátttöku í samráðsvettvanginum með þátttöku í fundum og viðburðum um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Á sínum vettvangi mun bæjarstjórn beita sér fyrir markvissum aðgerðum og stefnumótun í átt til aukinnar sjálfbærni og kolefnishlutleysis. Fulltrúar Vesturbyggðar munu einnig, eftir því sem tilefni er til og aðstæður leyfa, taka þátt í miðlun þekkingar, þróun mælinga á árangri og öðru samstarfi sem tengist samráðsvettvanginum.

Samþykkt samhljóða