Hoppa yfir valmynd

Ástand vega í Vesturbyggð

Málsnúmer 2002094

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

11. febrúar 2020 – Bæjarráð

Bæjarráð Vesturbyggðar lýsir yfir miklum áhyggjum af ástandi vega í Vesturbyggð og krefst þess að Vegagerðin grípi til tafarlausra aðgerða til að tryggja öryggi vegfarenda í sveitarfélaginu. Bæjarráð ítrekar að nauðsynlegt sé að bregðast við úttekt Vegagerðarinnar frá 2019 þar sem Bíldudalsvegur sem liggur frá Patreksfirði til Bíldudals er metinn ónýtur með öllu. Mikil umferð er um vegina og fara þungaflutningar vaxandi.




21. apríl 2020 – Bæjarráð

Bæjarráð vekur athygli á úttekt Vegagerðarinnar á klæðningum á Vestfjörðum sem gefin var út í júlí 2019. Þar kemur fram að Bíldudalsvegur er 100% ónýtur vegur. Vegurinn kemur óvenju illa undan vetri og er gríðarleg slysahætta á mörgum stöðum vegarins. Bæjarráð ítrekar mikilvægi þess að flýta vegaframkvæmdum á þessari leið, en hluti er þegar á samgönguáætlun. Ef fram fer sem horfir má búast við auknu álagi á veginn með tilliti til stóraukinna þungaflutninga bæði innan svæðis sem og til og frá svæðinu. Hafa ber í huga að tvö framleiðslufyrirtæki í Vesturbyggð eru skilgreind sem kerfislega og efnahagslega mikilvægar einingar, Arnarlax ehf. og Oddi ehf. Fjöldi starfsfólks þarf að komast til og frá vinnu og því þurfa samgöngur milli þéttbýlisstaða að vera greiðar, þar sem búseta starfsfólks er dreifð yfir sunnanverða Vestfirði. Ein af forsendum þess að atvinnurekstur af þessum toga geti þrifist og að svæðið skuli skilgreint sem eitt atvinnusvæði eru góðar og greiðfærar samgönguleiðir.

Bæjarráð Vesturbyggðar skorar á stjórnvöld að taka þessu máli alvarlega og að ástandi vega í Vesturbyggð og á sunnanverðum Vestfjörðum verði veitt aukin athygli og brugðist verði við ástandi veganna af miklum krafti. Í Vesturbyggð þarf að huga að jarðgangnaframkvæmdum svo tengja megi þéttbýliskjarna sunnanverða Vestfjarða saman með viðunandi hætti með jarðgöngum um Hálfdán (500 m.yfir sjávarmáli) og Mikladal (369 m. yfir sjávarmáli). Þá þurfa vegir til og frá sunnanverðum Vestfjörðum að vera greiðfærir til þess að íbúar geti sótt nauðsynlega þjónustu og hægt sé að koma vörum til og frá svæðinu. Í því samhengi er viðeigandi að ítreka mikilvægi þess að áform um veglagningu um Gufudalssveit, upp úr Arnarfirði og Dynjandisheiði verði flýtt.




29. apríl 2020 – Bæjarstjórn

Lögð fram bókun bæjarráðs frá 894. fundi ráðsins 21. apríl 2020 um alvarlegt ástand vega í Vesturbyggð og á sunnanverðum Vestfjörðum.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar tekur undir bókun bæjarráðs og ítrekar mikilvægi þess að brugðist verði við þessu ástandi veganna af miklum krafti.




17. desember 2020 – Bæjarráð

Bæjarráð Vesturbyggðar lýsir yfir miklum áhyggjum af alvarlegu ástandi vegkafla sem liggja um Mikladal og Tálknafjörð (63) sem og um Barðaströnd (62). Vegkaflarnir eru illa farnir og slitlag á stórum köflum er horfið, þrátt fyrir tilraunir Vegagerðarinnar til lagfæringa í sumar. Enda eru margir vegkaflar innan Vesturbyggðar 100% ónýtir vegir skv. úttekt Vegagerðarinnar frá júlí 2019. Að mati bæjarráðs er aðeins tímaspursmál hvenær alvarlegt slys verður á þessum vegköflum og ítrekar mikilvægi þess að á meðan ekki er unnt að bregðast við ástandinu með viðunandi lagfæringum, að Vegagerðinni verði tryggð framlög til að gera nauðsynlegar lagfæringar og stórauka merkingar og upplýsingagjöf um alvarlegt ástand vegkaflanna, til að draga úr hættu á að alvarlegt slys verði.

Bæjarráð ítrekar bókun sína frá 21. apríl 2020 og hvetur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að taka á þessu máli og ástandi vega á sunnanverðum Vestfjörðum af fullri alvöru og tryggja að brugðist verði við þessu alvarlega ástandi sem allra fyrst. Ljóst er miðað við ástand vega og stóraukna umferð á sunnanverðum Vestfjörðum, er nauðsynlegt að hefja sem allra fyrst undirbúning jarðgangagerðar á sunnanverðum Vestfjörðum, m.a. til að tryggja
öruggari samgöngur með jarðgöngum um Hálfdán (500 m.yfir sjávarmáli) og Mikladal (369 m. yfir sjávarmáli).

Jafnframt lýsir bæjarráð Vesturbyggðar miklum áhyggjum yfir ástandi Bíldudalsvegar í Arnarfirði sem er að hluta til horfinn. Í ljósi alls væri eðlilegt að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum á því svæði svo hægt sé að koma í veg fyrir endurtekið tjón á veginum. Sú framkvæmd myndi létta á þungaflutningum sem fer um aðra vegi í sveitarfélaginu.