Hoppa yfir valmynd

Bann við hrognkelsaveiðum árið 2020

Málsnúmer 2005028

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

12. maí 2020 – Bæjarráð

Bæjarráð Vesturbyggðar mótmælir harðlega ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að stöðva fyrirvaralaust veiðar á grásleppu frá 3. maí 2020. Ákvörðun ráðherra um að stöðva nær fyrirvaralaust veiði á grásleppu hefur alvarleg áhrif á útgerðaraðila í Vesturbyggð. Margir útgerðaraðilar hafi ekki enn hafið veiði, þar sem aðstæður í sjó og vernd lífríkis ræður því hvenær unnt er að hefja veiðarnar. Í innanverðum Breiðafirði er t.d. ekki heimilt að hefja veiðar fyrr en 20. maí ár hvert. Útgerðaraðilar í Vesturbyggð voru því margir hverjir ekki byrjaðir en þeir hafa lagt út í kostnað vegna undirbúnings fyrir vertíðina og er fjárhagstjón þeirra aðila því töluvert. Þeir 15 dagar sem mælt er fyrir um í 2. gr. reglugerðar um bann við hrognkelsaveiðum bæta ekki upp þá 44 daga sem útgerðaraðilar við Breiðafjörð gerðu ráð fyrir í upphafi vertíðarinnar. Þá er óljóst af orðalagi reglugerðarinnar hvort þeim sem stunda veiðarnar verði heimilt að veiða alla þá 15 daga eða lokað verði á frekari veiði þegar ákveðnu magni afla er náð. Það er óboðlegt að útgerðaraðilar við Breiðafjörð sem fara síðastir af stað til veiða, lendi í því að bíða í von og óvon eftir því hvernig veiði gangi á öðrum svæðum.

Bæjarráð Vesturbyggðar skorar á Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að endurskoða heimild til grásleppuveiða í Breiðafirði og fjölga veiðidögum þar til samræmis við áður gildandi reglugerð. Bæjarráð skorar einnig á Alþingi að núverandi fyrirkomulag á grásleppuveiðum verði endurskoðað svo tryggt verði að þessi staða sem nú er upp geti ekki komið upp aftur.