Hoppa yfir valmynd

Rekstur og fjárhagsstaða 2020

Málsnúmer 2005090

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

2. júní 2020 – Bæjarráð

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs fór yfir stöðu rekstrar fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins. Rekstrarniðurstaða miðað við tímabilið er jákvæð uppá 16 milljónir sem er heldur lakari niðurstaða en fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir og munar þar mest um samdrátt í tekjum. Bæjarráð bendir á mikilvægi framlaga jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga og mikilvægi þess að þau verði ekki skert. Sveitarfélagið reiðir sig á framlögin til að geta staðið undir lögbundnum verkefnum.




7. september 2020 – Bæjarráð

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs fór yfir stöðu rekstrar fyrir tímabilið janúar til júlí. Verulegur samdráttur er í tekjum og eru þær um 79 milljónir undir áætlun fyrir tímabilið. Mestu munar þar um samdrátt í tekjum Jöfnunarsjóðs sem eru 27 milljónum undir áætlun og útsvars sem er 24 milljónum undir áætlun. Jafnframt er nokkur lækkkun á þjónustutekjum.

Bæjarráð ítrekar bókun sína frá 896. fundi sínum þar sem bent er á mikilvægi framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga og mikilvægi þess að þau séu ekki skert. Sveitarfélagið reiðir sig á framlög Jöfnunarsjóðs til að geta staðið undir lögbundnum verkefnum.




12. október 2020 – Bæjarráð

Sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs fór yfir stöðu útsvars fyrstu níu mánuði ársins. Eftirálagða útsvarið sem skilaði sér í september var hærra en áætlun gerði ráð fyrir og hefur því þróun útsvarstekna færst í átt að upprunalegri áætlun. Miðað við stöðuna í lok september eru útsvarstekjur 2 milljónum króna undir áætlun 2020. Hag- og upplýsingasvið Sambands Íslenskra sveitarfélaga hefur gefið út staðgreiðsluáætlun fyrir árið 2020 og gerir hún ráð fyrir að útsvar ársins 2020 verði 4,5 milljónum króna undir áætlun.

Gert er ráð fyrir að staðgreiðslutekjur hækki um 3,2% á árinu 2021.

Áætlun jöfnunarsjóðs fyrir framlög 2020 sem birt var 1. október 2020 gerir ráð fyrir enn meiri lækkun framlaga til Vesturbyggðar en gert var ráð fyrir í júní. Samkvæmt áætluninni er gert er ráð fyrir 22% lækkun útgjaldajöfnunarframlags eða um 38,1 milljóna króna skerðingu, 15% lækkun á grunnskólaframlagi eða 17,7 milljóna króna skerðingu og 17% lækkun á fasteignaframlagi eða 14 milljóna króna skerðingu. Gerir það samtals lækkun uppá 70 milljónir króna af framlagi jöfnunarsjóðs á árinu 2020 frá upprunalegum áætlunum.

Bæjarráð ítrekar aftur bókun sína frá 896. og 903. fundi sínum þar sem bent er á mikilvægi framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga og mikilvægi þess að þau séu ekki skert. Sveitarfélagið reiðir sig á framlög Jöfnunarsjóðs til að geta staðið undir lögbundnum verkefnum.