Hoppa yfir valmynd

Jarðgangaáætlun Vestfjarða

Málsnúmer 2101046

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

26. janúar 2021 – Bæjarráð

Lagt fram minnisblað til sveitarstjórna á Vestfjörðum um Jarðgangaáætlun Vestfjarða dags. 8. janúar 2021, ásamt drögum að jarðgangaáætlun og kynningu af fundi með bæjarstjórn Vesturbyggðar og sveitarstjórn Tálknafjarðahrepps frá 16. janúar 2021. Óskað er eftir afstöðu Vesturbyggðar til forgangsröðunar jarðgangakosta á Vestfjörðum.

Bæjarráð vísar málinu áfram til bæjarstjórnar til afgreiðslu.
17. febrúar 2021 – Bæjarstjórn

Lagt fram minnisblað til sveitarstjórna á Vestfjörðum um Jarðgangaáætlun Vestfjarða dags. 8. janúar 2021, ásamt drögum að jarðgangaáætlun og kynningu af fundi með bæjarstjórn Vesturbyggðar og sveitarstjórn Tálknafjarðahrepps frá 16. janúar 2021. Óskað er eftir afstöðu Vesturbyggðar til forgangsröðunar jarðgangakosta á Vestfjörðum.

Til máls tók: Forseti

Að mati bæjarstjórnar Vesturbyggðar vantar ítarlegri upplýsingar og gögn í drög að Jarðgangaáætlun Vestfjarða. Í drögin vantar upplýsingar um umferðatölur á einstökum vegköflum, slysatíðni, tjón, fjölda lokunardaga, fjölda snjóflóða og svo framvegis. Þá er að mati bæjarstjórnar mikilvægt að lýst verði nánar í drögunum, þeim aðstæðum sem eru á þeim samgönguleiðum sem eru hvað erfiðastar á Vestfjörðum. Á það m.a. við um kafla skýrslunnar um Mikladal, Hálfdán og Kleifaheiði.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar tekur undir það í minnisblaði Vestfjarðastofu að áhersla verði á heilsárstengingar milli byggðakjarna innan atvinnu- og þjónustusvæða. Bæjarstjórn leggur þó ríka áhersla á að samgöngur innan sveitarfélaga og tenging byggðakjarna verði tryggðar, en sveitarfélagið Vesturbyggð hefur nú starfað síðan 1994 og enn þurfa íbúar sveitarfélagsins að fara um erfiða fjallvegi til að sinna vinnu og sækja þjónustu, allt árið um kring. Það er því krafa bæjarstjórnar að tenging byggðakjarna innan sameinaðra sveitarfélaga verði í forgangi. Þar af leiðandi er mikilvægt að þættir eins og áhrif á búsetu og efnahagslíf verði greindir í skýrslunni.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar tekur undir bókun sveitarstjórnar Reykhólahrepps um að unnin verði greining á áhrifum samgöngubóta á byggðakjarna og atvinnusvæði á öllum Vestfjörðum og leitað verði fjölþættra lausna í samgöngumálum fyrir landshlutann.

Er það von bæjarstjórnar Vesturbyggðar að þegar frekari gögn og rannsóknir liggi fyrir verði fullnægjandi forsendur til staðar til að taka afstöðu til forgangsröðunar jarðgangakosta og samgöngubóta á Vestfjörðum. Ákvörðun um forgangsröðun jarðgangakosta á þessum tímapunkti er að mati bæjarstjórnar ótímabær og verður slík ákvörðun aðeins byggð á tilfinningum og geðþóttamati hvers sveitarfélags fyrir sig. Mun slík ákvörðun aldrei skila þeirri mikilvægu samstöðu sem nauðsynlegt er að ná um þetta mikilvæga málefni fyrir Vestfirði í heild sinni.
16. febrúar 2022 – Bæjarstjórn

Lögð fram Jarðgangaáætlun fyrir Vestfirði og Jarðgöng á Vestfjörðum - samfélagsleg greining. Skýrslurnar voru kynntar á opnum fundi á vegum Vestfjarðastofu 27. janúar 2022 þar sem innviðaráðherra voru afhentar skýrslurnar með formlegum hætti.

Til máls tóku: Forseti, ÁS.

Bæjarstjórn fagnar því að fram sé komin jarðgangaáætlun Vestfjarða og að mikilvæg samstaða hafi náðst um forgangsröðun jarðgangakosta innan Vestfjarða, þar sem göng undir Mikladal og Hálfdán ásamt Súðavíkurgöngum eru í forgangi. Kallað hefur verið eftir samstöðu Vestfirðinga um forgangsröðun jarðgangaverkefna og nú þegar sú samstaða hefur náðst er mikilvægt að þingmenn kjördæmisins styðji við þá samstöðu og aðstoði við að tryggja þessum mikilvægu samgöngubótum á Vestfjörðum framgöngu.