Hoppa yfir valmynd

Breiðafjarðarferjan Baldur

Málsnúmer 2103034

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

15. mars 2021 – Hafna- og atvinnumálaráð

Samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum hafa verið slæmar svo áratugum skiptir.
Í fyrsta lagi hefur vegagerð og nýframkvæmdir við þjóðvegi gengið mjög hægt. Á síðustu árum hafa þó orðið miklar umbætur á löngum köflum en skildir eftir lykilkaflar sem enn eru í óboðlegu ástandi.

Í öðru lagi hefur þjónustustigið við vegina verið mjög lélegt og má fólk búa við það að eina leiðin til og frá svæðinu sé með ferjunni Baldri einu sinni á dag alla daga vikunnar nema laugardaga.

Af þessu leiðir að einu "traustu" samgöngurnar til og frá svæðinu hafa hingað til verið með Baldri. Skipið sem við setjum allt okkar traust á, hvað varðar tengingu við meginlandið, hefur hinsvegar alls ekki verið traustsins vert. Það hentar ekki vel til siglinga milli fjölmargra skerja Breiðafjarðar. Ef vindátt hefði verið inn fjörð en ekki út fjörð þann 11. mars þegar Baldur varð vélarvana, hefði fréttaflutningur af atburðinum verið á annan veg en þann að bryti skipsins væri að steikja lambalæri ofan í mannskapinn.

Baldur er og mun verða um langt skeið lykilþáttur í öllum flutningum til og frá sunnanverðum Vestfjörðum. Fyrirtæki á svæðinu flytja út mikið magn af ferskum afurðum og þau þurfa að geta reitt sig á að þær komist hratt og örugglega á markað.
Ófærð á á vegum vegna snjóa eða þungatakmarkana vegna aurbleytu gera Baldur algerlega ómissandi. Það er því krafa okkar að það komi úrbætur strax sem hægt er að treysta.

Hafna- og atvinnumálaráð gerir þá kröfu að fundin verði hentug ferja sem hægt er að treysta til flutninga fólks og varnings. Öryggi notenda og afhendingaröryggi á afurðum þarf að vera tryggt og ljóst er að það traust verður ekki unnið nema með öruggri ferju.
18. apríl 2023 – Hafna- og atvinnumálaráð

Lagður fram til kynningar Tölvupóstur bæjarstjóra til Vegagerðarinnar dags. 4.4.2023. Í tölvupóstinum eru settar fram spurningar í 6. liðum varðandi Breiðafjarðarferjuna Baldur.

Þá er einnig lagður fram til kynningar svarpóstur frá Vegagerðinni dags. 13.04.2023.

Hafna- og atvinnumálaráð harmar áhugaleysi Vegagerðarinnar á málinu, af svörum Vegagerðarinnar að dæma er lítið gert úr áhyggjum sveitarfélagsins og svörin snubbótt. Ljóst er að ef Röst kemur til með að leysa Baldur af við siglingar yfir Breiðafjörð mun það vissulega auka öryggi notenda en stórminnka flutningsgetu. Samgöngur af svæðinu eru erfiðar, hvort sem er vegna snjóa eða drullu. Reynsla fyrirtækja á svæðinu er að oft sé flutningabílum vísað frá vegna plássleysis.