Hoppa yfir valmynd

Leikskólinn Araklettur - húsnæði

Málsnúmer 2201050

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

8. febrúar 2022 – Bæjarráð

Leikskólastjóri Arakletti og sviðsstjóri fjölskyldusviðs komu inn á fundinn. Rætt var um fjölgun barna á leikskólaaldri á Patreksfirði, biðlista og einnig rýmisþörf vegna starfsemi leikskólans til framtíðar.




14. september 2022 – Fræðslu- og æskulýðsráð

Lögð fyrir fyrirspurn frá Guðrúnu Eggertsdóttur dags. 10. ágúst 2022 þar sem spurt er um framtíðaráform sveitarfélagsins um húsnæðismálum fyrir leikskóla í Vesturbyggð. Jafnframt er spurt um hvort að lóðin við Bala 1 og 2 geti hentað undir leikskóla og hvort að það hafi verið kannað.

Bæjarstjóri fór yfir með ráðinu áform um stækkun á Arakletti sem unnið er að undirbúningi fyrir. Væntingar eru um það að hægt verði að ljúka vinnunni sem allra fyrst.

Ekki liggja fyrir að svo stöddu áform um breytingar á leikskólahúsnæði á Bíldudal en húsnæðið er í slæmu ásigkomulagi og því aðkallandi að fara í þá vinnu.

Ekki hefur verið skoðað hvort að lóðin við Bala 1 og 2 á Patreksfirði henti fyrir leikskóla en lóðin er skipulögð íbúalóð sem búið er að úthluta.




19. september 2022 – Bæjarráð

Í ljósi þess að fyrirséð er að skortur verður á leikskólaplássum á Patreksfirði og er í raun þegar orðin hafa starfsmenn sveitarfélagsins unnið að tillögum að lausnum sem miða að því að fjölga leikskólaplássum á Arakletti. Lagt er til að keyptar verði ævintýraborgir, sem er sérútbúið húsnæði fyrir leikskóla með góðan aðbúnað fyrir börn og starfsfólk. Um er að ræða 144 m2 húsnæði sem yrði staðsett við norðurhlið leikskólalóðar. Áætlað er að húsnæðið verði tilbúið til notkunar í febrúar 2023. Heildarkostnaður, auk húsbúnaðar og viðbótar stöðugilda við leikskólann, er áætlaður um 80 milljónir króna. Byggingin rúmar um 20 börn ætti því að uppfylla þá áætlaða fjölgun leikskólabarna á næstu árum.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja framkomna tillögu með fyrirvara um að viðauki við fjárhagsáætlun 2022 verði jafnframt samþykktur.




21. september 2022 – Bæjarstjórn

Lögð fram bókun af 947. fundi bæjarráðs frá 19. september sl. þar sem lagt er til að bæjarstjórn samþykki framkoman tillögu um að kaupa sérútbúið tilbúið húsnæði, svokallaðar ævintýraborgir, til þess að fjölga leikskólaplássum við Araklett. Húsnæðinu er ætlað að auka aðbúnað fyrir börn og starfsfólk og fjölga leikskólaplássum um 20. Um er að ræða 144 m2 húsnæði sem yrði staðsett við norðurhlið leikskólalóðar. Áætlað er að húsnæðið verði tilbúið til notkunar í febrúar 2023. Heildarkostnaður er áætlaður í kringum 80 milljónir króna, en auk þess þarf að huga að húsbúnaði og viðbótarstöðugildum við leikskólann. Endanleg hönnun húsnæðisins hefur ekki verið kláruð og því er um áætlun að ræða.

Til máls tóku: varaforseti og bæjarstjóri.

Bæjarstjórn samþykkir að húsnæðið sé keypt og jarðvinna á leikskólalóðinni sé unnin ásamt því að viðauki við fjárhagsáætlun 2022 verði samþykktur.




11. október 2022 – Bæjarráð

Rætt um húsnæðismál og viðbyggingu við leikskólann Araklett sem samþykkt var á 374. fundi bæjarráðs að fara í. Við vinnu við undirbúning varð ljóst að betra væri að taka inn stærra húsnæði vegna framtíðar nýtingar húsnæðisins, samþykkt hafði verið að bæta við 144 fm. húsnæði en það mun verða 162 fermetrar. Stækkun húsnæðisins mun ekki hafa áhrif á kostnað á árinu 2022.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna áfram að málinu.




12. desember 2022 – Bæjarráð

Kynntar eru nýjar teikningar að tillögu að viðbyggingu við leikskólann Araklett sem samþykkt var á 374. fundi bæjarstjórnar og tekin aftur fyrir á 949. fundi bæjarráðs, en áður en húsnæðið var pantað þurfti að fara með það í teikningu arkitekts. Verið er að bíða eftir tilboði í bygginguna. Bæjarráð tekur vel í þær breytingar sem gerðar hafa verið, en ekki er um að ræða aukningu á fermetrum sem áður hafa verið ákveðnar.

Bæjaráð felur bæjarstjóra að vinna áfram að málinu, en gert er ráð kostnaði við kaupin á árinu 2022 og í fjárhagsáætlun 2023.




9. janúar 2023 – Fræðslu- og æskulýðsráð

Farið yfir teikningar af viðbyggingu við Araklett á Patreksfirði. Búið er að panta húsið og verið er að vinna að undirbúningi við að taka á móti húsinu.




9. maí 2023 – Bæjarráð

Bæjarstjóri greinir frá upplýsingum um tilboð í Krók, viðbyggingu við Araklett, sem er færanlegt húsnæði frá Terra. Einnig kynnir bæjarstjóri áður framkomna kostnaðaráætlun við bygginguna.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að skrifa undir kaupsamning um húsnæðið.