Hoppa yfir valmynd

Borgað þegar hent er í byrjun árs 2023

Málsnúmer 2301004

Skráðu netfangið þitt og við sendum tilkynningu ef það er skráð fundargerð með þessu málsnúmeri.

17. janúar 2023 – Bæjarráð

Lagður er fram til kynningar tölvupóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 29. desember 2022 þar sem sveitarfélögum er boðin þátttaka í innleiðingu álagingarkerfis vegna meðhöndlun úrgangs út frá borgað þegar hent er kerfinu. Kerfið er í samræmi við lög sem tóku gildi um áramót og mun álagning verða eftir hinu nýja kerfi. Jafnframt er lagður fram til kynningar tölvupóstur bæjarstjóra, dags. 4. janúar sl., þar sem hún staðfestir þátttöku Vesturbyggðar í verkefninu.
25. janúar 2023 – Bæjarstjórn

Lögð er fram til samþykktar ný gjaldskrá fyrir árið 2023 um meðhöndlun úrgangs auk nýrra samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Vesturbyggð.

Gjaldskráin um meðferð úrgangs kæmi stað gjaldskrár sem samþykkt var á 377. fundi bæjarstjórnar sem haldinn var 14. desember sl. Nýja gjaldskráin er í samræmi við breytingar á lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs sem tóku gildi 1. janúar 2023.

Samþykktir Vesturbyggðar um meðhöndlun úrgangs kæmi í stað fyrri samþykkta, en er þeim breytt í samræmi við breytingar á lögunum um meðhöndlun úrgangs.

Til máls tók: Forseti, Bæjarstjóri, ÁS.

Forseti bar staðfestingu gjaldskrárinnar upp til atkvæðagreiðslu.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar staðfestir samhljóða nýja gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs fyrir árið 2023.

Forseti lagði til að nýjum samþykktum Vesturbyggðar um meðhöndlun úrgangs yrði vísað til annarrar umræðu í bæjarstjórn.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkir samhljóða að vísa nýjum samþykktum Vesturbyggðar um meðhöndlun úrgangs til annarrar umræðu í bæjarstjórn.
2. febrúar 2023 – Bæjarráð

Nú um áramótin tóku gildi ný laga­ákvæði í lögum um meðhöndlun úrgangs sem nefnd eru í daglegu tali hringrás­ar­hag­kerfi og ber sveit­ar­fé­lögum á Íslandi að innleiða það hvert fyrir sig.? Undir­bún­ingur hefur verið í gangi undan­farin ár og heldur verk­efnið áfram að þróast á árinu 2023. Það sem hefur hvað mest áhrif á íbúa er þátt­taka íbúa í kostnaði, skylda heimila til flokk­unar úrgangs og innheimta gjalda af heim­ilum fyrir meðhöndlun úrgangs. 

Áætlaður heildarkostnaður sveitarfélagsins við meðhöndlun úrgangs á árinu er 79 milljónir króna.?Samkvæmt hinum nýju lögum ber Vesturbyggð að innheimta gjald af fasteignum sem er næst raunkostnaði viðkomandi þjónustu og taka upp kerfið Borgað þegar hent er. Af þeim sökum hækkar álagning sveitarfélagsins á íbúa um u.þ.b. 50% milli áranna 2022 og 2023. 

Á næstu vikum mun Vesturbyggð, í samstarfi við Kubb, standa fyrir fundum þar sem farið verður yfir það hvernig við eigum að bera okkur að við flokkun úrgangs, hvað verður um úrganginn og gerð verður grein fyrir þeim breytingum sem hafa tekið gildi. Með fundunum viljum við jafnframt ná fram samtali og samráði við íbúa um meðferð úrgangs í sveitarfélaginu, um hvernig við getum staðið saman að því að minnka úrgang frá svæðinu, auka endurvinnslu og endurnýtingu og lækka kostnað svo dæmi séu tekin.?? 

Við hvetjum íbúa til að kynna sér ítarlega hvernig beri að flokka og mæta á íbúafundi þar sem m.a. verður frætt um hvernig skuli flokka úrgang. Með betri flokkun munum við skila jörðinni okkar betur til afkomenda okkar. 

Bæjarráð felur bæjartjóra aðgera tillögu um breytingu á samþykkt um meðhöndlun úrgangs í samræmi við umræður á fundinum og leggja fyrir á næsta fundi bæjarráðs.
7. febrúar 2023 – Bæjarráð

Lagðar verða fram tillögur að breytingum á samþykktum um meðhöndlun úrgangs á milli umræðna í bæjarstjórn.

Bæjarráð leggur til að gerðar verði breytingar á samþykktum Vesturbyggðar um meðhöndlun úrgangs milli umræðna í bæjarstjórn. Bæjarráð felur bæjarstjóra að leggja fyrir tillögur fyrir bæjarstjórn að breytingum á samþykktunum, til að auka möguleika íbúa til að lækka hjá sér kostnað vegna úrgangsmála. Breytingarnar fela í sér sérreglur fyrir fjölbýlishús þ.e íbúðarhúsnæði með tveimur íbúðum eða fleiri, um samnýtingu sorpíláta, breytingu á fjölda og stærð sorpíláta, sem og heimild til undanþágu á sorpíláti fyrir lífúrgang ef íbúi stundar sannanlega heimajarðgerð.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að undirbúa íbúafundi til að fara yfir úrgangsflokkun og kynna þær breytingar sem hafa tekið gildi á árinu 2023.
15. febrúar 2023 – Bæjarstjórn

Lögð fyrir til annarar umræðu samþykkt Vesturbyggðar um meðhöndlun úrgangs.

Bæjarráð tók samþykktirnar fyrir á 956. fundi sínum þar sem lagt var til að gerðar verði breytingar á samþykktum Vesturbyggðar um meðhöndlun úrgangs milli umræðna í bæjarstjórn. Bæjarráð fól bæjarstjóra að leggja fyrir tillögur fyrir bæjarstjórn að breytingum á samþykktunum, til að auka möguleika íbúa til að lækka hjá sér kostnað vegna úrgangsmála. Breytingarnar fela í sér sérreglur fyrir fjölbýlishús þ.e íbúðarhúsnæði með tveimur íbúðum eða fleiri, um samnýtingu sorpíláta, breytingu á fjölda og stærð sorpíláta, sem og heimild til undanþágu á sorpíláti fyrir lífúrgang ef íbúi stundar sannanlega heimajarðgerð.

Til máls tóku: Forseti og bæjarstjóri.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Vesturbyggð samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 og 59. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 sbr. 1. tl. 1. mgr. 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Bæjarstjóra falið að undirrita samþykktina og ganga frá birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt samhljóða.