Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir u.þ.b. 3 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Breytt samstarf Norlandair og Air Iceland Connect

Unnið hefur verið að samþætt­ingu starf­semi Air Iceland Connect og Icelandair í nokkurn tíma. Frá og með þriðju­deg­inum 16. mars næst­kom­andi munu leiða­kerfi Air Iceland Connect og Icelandair verða að einu enn öflugra leiða­kerfi og sölu- og mark­aðs­starf sameinast undir vörumerki Icelandair.


Skrifað: 9. mars 2021

Fréttir

Vörur og þjónusta Icelandair, innanlands sem utan, verða þannig samræmdar og aðgengilegar á einum stað á www.icelandair.is

Áfangastaðir Icelandair í innanlandsflugi verða eftir sem áður Akureyri, Egilsstaðir, Ísafjörður og Vestmannaeyjar. Þá hafa Air Iceland Connect og Norlandair átt í samstarfi um flug til nokkurra áfangastaða á Íslandi til viðbótar, svo sem til Bíldudals og Gjögurs frá Reykjavík, ásamt flugi til Grímseyjar, Vopnafjarðar og Þórshafnar frá Akureyri. Hægt hefur verið að kaupa flugmiða á þessa áfangastaði í einum miða í gegnum bókunarsíðu Air Iceland Connect.

Eftir samþættingu Air Iceland Connect og Icelandair breytist samstarf Norlandair við félagið þannig að flug á áfangastaði Norlandair verða einungis fáanleg á heimasíðu þeirra (https://www.norlandair.is/) en ekki í gegnum bókunarsíðu Icelandair. Félögin munu þó áfram vinna þétt saman og engin breyting verður á þjónustu við farþega frá Akureyrarflugvelli né Reykjavíkurflugvelli. Þá vinna félögin að því í samstarfi við Vegagerðina að tryggja að þessi breyting hafi ekki áhrif á Loftbrúar-réttindi þeirra sem nýta sér þá þjónustu.