Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir u.þ.b. 3 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Viðbrögð í kjölfar bilunar í ferj­unni Baldri

Síðustu daga hafa farið fram ófá samtöl og fundir um stöðu ferju­sigl­inga um Breiða­fjörð í fram­haldi af þeim alvar­lega atburði sem varð í síðustu viku, þegar ferjan Baldur varð vélvana á Breiða­firði og tók rúman sólar­hring að koma ferj­unni til bryggju í Stykk­is­hólmi. Mikil mildi þykir að ekki fór verr og vindátt og veður hagstæð. Vest­ur­byggð hefur verið í miklu og góðu sambandi við Sæferðir og Vega­gerðina vegna málsins.


Skrifað: 19. mars 2021

Fréttir

Á mánudag var haldinn upplýsingafundur með Vesturbyggð og Tálknafjarðahreppi, þar sem Vegagerðin og Sæferðir fóru yfir hvernig viðgerð á ferjunni miðaði, þær aðgerðir sem Vegagerðin hefði gripið til í kjölfar atviksins, sem var m.a. að tryggja aukna vetrarþjónustu á Klettshálsi til að tryggja greiðar samgöngur til og frá svæðinu. Einnig var farið yfir þá þætti sem eru til skoðunar til skemmri og lengri tíma af hálfu Vegagerðarinnar, er varðar áframhaldandi ferjusiglingar um Breiðafjörð. Þá fjallaði hafna- og atvinnumálaráð Vesturbyggðar um málið á 29. fundi sínum og bókaði m.a. þær kröfur ráðsins að fundin verði hentug ferja sem hægt sé að treysta til flutninga fólks og varnings. Öryggi notenda og afhendingaöryggi á afurðum þurfi að vera tryggt og ljóst er að traust verður ekki unnið nema með öruggri ferju.

Sveitarfélögin Vesturbyggð og Stykkishólmsbær óskuðu eftir því í kjölfar atburðarins, við landshlutasamtök svæðanna, Vestfjarðastofu og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi að samtökin kæmu á fundum með Vegagerðinni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og þingmönnum kjördæmisins til að ræða stöðu ferjunnar. Vel var brugðist við þeim beiðnum og funduðu sveitarfélögin ásamt Reykhólahreppi og landshlutasamtökum svæðanna með samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á þriðjudag. Á fundi með ráðherra var farið yfir stöðu ferjunnar, mikilvægi hennar fyrir samfélögin og atvinnulíf á Vestfjörðum og Vesturlandi. Þá var einnig lögð áhersla á að atvikið í síðustu viku yrði rannsakað af hálfu Rannsóknarnefndar samgönguslysa og var staðfest að svo yrði gert. Þá var einnig upplýst að til skoðunar væri hvort unnt væri að fá aðra ferju til siglinga í stað núverandi ferju og þá staðfesti ráðherra á fundinum að horfið hefur verið frá fyrri áætlunum stjórnvalda um að hætta ferjusiglingum um Breiðafjörð eftir að vegaframkvæmdum á Vestfjarðavegi lýkur og unnið sé nú að mögulegum framtíðarlausnum þegar kemur að ferjusiglingum um Breiðafjörð.

Á miðvikudag fundaði Vesturbyggð ásamt sveitarfélögum og landshlutasamtökum með þingmönnum kjördæmisins þar sem farið var yfir stöðuna. Mikil og góð samstaða var í hópi þingmanna og skilningur á mikilvægu hlutverki ferjunnar. Á þeim fundi var einnig ítrekað mikilvægi þess að til kæmu bráðaaðgerðir til að tryggja öryggi farþega og sú staða sem upp kom í síðustu viku myndi ekki endurtaka sig, enda fáir íbúar sem treysta sér um borð í núverandi ferju.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar ræddi málið á 358. fundi sínum á miðvikudaginn þar sem eftirfarandi var bókað vegna málsins:

“Bæjarstjórn Vesturbyggðar lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu ferjusiglinga um Breiðafjörð í ljósi atburða síðustu viku, þegar ferjan Baldur varð vélvana á Breiðafirði. Sú staðreynd að ferjan Baldur sé aðeins búin einni vél er með öllu óásættanlegt, hvort sem litið er til öryggis farþega ferjunnar eða til þess að ferjan siglir um sker og eyjar í friðuðum Breiðafirðinum. Mikið mildi þykir að vindátt var hagstæð svo ekki hlytist af alvarlegra slys.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar krefst þess að öryggi farþega sem sigla um Breiðafjörð verði tryggt og leggur ríka áherslu á að lokið verði við gerð viðbragðsáætlunar vegna ferjuslysa á Breiðafirði, sem lagt var til árið 2011 að yrði unnin. Óboðlegt er að núverandi ferja með eina vél hefji siglingar á ný að viðgerð lokinni, enda er traust íbúa til núverandi ferju ekkert, eftir ítrekaðar bilanir. Íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum eru langþreyttir á að fá annars flokks ferjur til að þjónusta siglingar um Breiðafjörð. Þá er með öllu óásættanlegt að ekki sé til taks varaskip til siglinga við aðstæður sem þessar, líkt og þekkist annars staðar á landinu. Bæjarstjórn Vesturbyggðar krefst þess að öryggi farþega sem sigla um Breiðafjörð verði tryggt með öllum tilteknum ráðum og til skemmri tíma verði önnur öruggari ferja fengin til siglinga um Breiðafjörð.

Íbúar og atvinnulíf á sunnanverðum Vestfjörðum treysta á öruggar siglingar um Breiðafjörð. Vegaframkvæmdum á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit er enn ekki lokið og þrátt fyrir bættar vegasamgöngur þá valda þungatakmarkanir og lokanir Klettsháls yfir veturinn því, að sunnanverðir Vestfirðir verða ígildi eyju. Við þær aðstæður þurfa íbúar og atvinnulíf að öllu leyti að treysta á öruggar ferjusiglingar um Breiðafjörð. Bæjarstjórn Vesturbyggðar leggur því ríka áherslu á að til framtíðar verði ferjusiglingar um Breiðafjörð tryggðar með ferju sem uppfyllir þarfir og kröfur íbúa og atvinnulífs til framtíðar.”

Bæjarstjóri og forseti bæjarstjórnar áttu svo fund með atvinnuveganefnd Alþingis á fimmtudag ásamt fulltrúum sveitarfélaga, landshlutasamtaka og fulltrúum atvinnulífsins á sunnanverðum Vestfjörðum. Atvinnuveganefnd sendi frá sér ályktun eftir fund nefndarinnar um nauðsyn þess að tryggja öruggar ferjusiglingar yfir Breiðafjörð, þær séu lykillinn að vexti atvinnulífs og flutningi fólks á svæðinu. Þá skoraði atvinnuveganefnd á Vegagerðina að skoða möguleika á að nýta Herjólf þriðja þar til varanleg lausn er fundin með nýrri ferju til framtíðar.

Vesturbyggð vill hér með nota tækifærið og þakka starfsfólki Sæferða, Vegagerðinni og öðrum sem að þessu máli hafa komið síðustu daga, fyrir skjót viðbrögð og samráð. Það er mikilvægt að þetta stóra hagsmunamál fyrir íbúa og fyrirtæki í Vesturbyggð sé tekið alvarlega og málið til skemmri og lengri tíma sé nú tekið föstum tökum.