Hoppa yfir valmynd

Fréttir af fram­kvæmdum

Nýlega var greint frá því að aldrei hafi verið fjár­fest jafn mikið og á árinu 2023. Hér verður tæpt á þeim fram­kvæmdum sem eru í gangi núna og eru á döfinni.


Skrifað: 2. maí 2024

Fréttir

Nýtt húsnæði leik- og grunnskóla á Bíldudal

Hönnun nýs húsnæðis leik- og grunnskóla er lokið. ARKIBYGG og Gingi teiknistofa hafa unnið að hönnuninni í samráði við starfshóp um byggingu nýs húsnæðis fyrir leik- og grunnskóla á Bíldudal, eins var starfsfólki Tjarnabrekku og Bíldudalsskóla gefinn kostur á að gera athugasemdir við teikningarnar og koma með hugmyndir að breytingum. Í starfshópnum eru Jón Árnason, Þórdís Sif Sigurðardóttir, Arnheiður Jónsdóttir, Magnús Árnason og Lilja Rut Rúnarsdóttir.

Útboðsgögn verða tilbúin fyrir lok júní og verður verkið þá boðið út. Áætlað er að framkvæmdir hefjist síðsumars. Í samræmi við tímalínu verkefnisins verður húsnæðið tilbúið til notkunar við upphaf skólaársins 2025-2026.

Drög að samkomulagi við fjármála- og efnahagsráðuneytið vegna Bíldudalsskóla verða tekin fyrir á næst fundi bæjarráðs. Samkomulagið felur í sér að skólastarfsemin fari ekki fram á Dalbraut 2, aðeins verði heimiluð takmörkuð nýting á húsnæðinu og því verði hætt við að gera sérstakan varnargarð til að verja húsið.  Ríkissjóður leggur sveitarfélaginu til tæplega 137 m.kr. vegna flutnings starfseminnar.

Aðalinngangur

Framkvæmdir á skólalóð Patreksskóla

Samið hefur verið við verktaka um stærstan hluta fyrsta áfanga framkvæmda á skólalóð Patreksskóla. Fyrsti áfangi saman stendur af framkvæmdum á afmörkuðu svæði lóðarinnar næst íþróttahúsinu og á svæðinu milli efri og neðri skóla. Hönnunin var unnin af Landmótun út frá hugmyndum nemenda Patreksskóla frá því í vor.

Á neðra svæðinu verða sett upp fimm leiktæki. Snúningsklifurtæki, snúningsróla, lítið trampolín og rörarennibraut. Einnig verður sett upp hreiðurróla sem keypt var með stuðningi Krúttmaganefndarinnar.

Á efra svæðinu verður bætt aðgengi að skólanum með rampi meðfram útvegg sem liggur við sal skólans. Eitt leiktæki verður sett upp á torgið við aðalinngang skólans, girðingar fyrir fótboltavöll, málaðar vallalínur og setpallar settir upp við enda fótboltavallar.

Í allri hönnuninni er unnið að því að bæta lit og fegurð skólalóðarinnar en fyrst og fremst að auka gæði skólalóðarinnar fyrir nemendur.

Neðra svæði

Þjónustumiðstöð á Bíldudal

Nú horfir til þess að þjónustumiðstöðin sem hýsir áhaldahús og slökkvistöð á Bíldudal verði tilbúin. Húsinu er skipt upp í tvö bil sem nýtt eru fyrir sitthvora starfsemina.

Tvær hæðir eru að hluta til í þjónustumiðstöðinni, þar sem efri hæðin er nýtt fyrir aðstöðu til funda og skrifstofu. Allir innanhúss veggir hafa verið reistir og tvöfaldaðir með innbyggðum lögnum. Búið er að vatnsverja gólffleti á jarðhæð og þeim rýmum sem hýsa munu búningaaðstöðu og salerni.  Unnið er að frágangi á efra rými, salernum og búningaðastöðu.

Áhaldahús og slökkvilið flytja inn í húsnæðið á næstu dögum. Myndirnar hér að neðan voru teknar í síðustu viku.

Slökkvistöð

Vogarhús við Bíldudalshöfn

Nýtt vogarhús hefur verið reist við Bíldudalshöfn sem mun hafa góða sýn yfir hafnarsvæðið. Vogarhúsið er reist ofan á eldra þjónustuhús við bryggjuna. Um er að ræða glæsilega byggingu sem var hönnuð af M11 Arkitektum. Frágangur innanhúss er á lokametrunum og mun hafnarvörður flytja í vogarhúsið á næstunni.

Bildudalshofn

Bætt hafnaraðstaða á Patreksfirði

Í vor var sett ný steypt bryggja í stað gömlu trébryggjunnar á Patreksfirði. Á bryggjunni eru m.a. 10 fingurpláss til langtímaleigu. Bryggjan veitir meira öryggi, bætir aðgengi og þjónustu. Bryggjan er að þjóna sínu hlutverki vel núna þegar strandveiðarnar eru að hefjast.