Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi viðburður endaði fyrir meira en 5 ári síðan.

Tónleikar - Between Mountains

Tónleikar með Between Mountains laugardaginn 25. ágúst.

Húsið opnar klukkan 20:00, tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.

Aðgangseyrir er 2.500 krónur

Vestfirsku stúlkurnar Ásrós Helga Guðmundsdóttir og Katla Vigdís Vernharðsdóttir skipa hljómsveitina Between Mountains. Ásrós er frá Núpi í Dýrafirði og Katla frá Suðureyri. Þær byrjuðu að spila saman snemma árs 2018 og sigruðu Samvest sem er undankeppni Samfés það árið. Í kjölfarið tóku þær þátt í Músiktilraunum og sigruðu þá tónlistarhátíð einnig. Fyrr á þessu ári hlutu þær titilinn „Bjartasta vonin“ á Íslensku tónlistarverðlaununum en afar efnilegir listamenn voru tilnefndir í þeim flokki.

Hljómsveitin kom fram á Icelandic Airwaves á síðasta ári og var fjallað um frammistöðu stúlknanna þar í hinu virta tónlistartímariti Rolling Stones. Í umfjöllun blaðsins var sagt að hljómsveitin hefði verið ein sú áhugaverðasta sem fram kom á hátíðinni það árið. Þær munu einnig koma fram á Icelandic Airwaves næskomandi vetur auk þess sem þær spiluðu á hátíðinni Aldrei fór ég suður á Ísafirði um síðastliðna páska og á tónlistarhátíðinni Secret Solstice sem haldin var í Reykjavík dagana 21.-24. júní síðastliðinn.

Myndband við lag hljómsveitarinnar, “Into the Dark” var frumsýnt í janúar á þessu ári og vakti strax mikla lukku en það er einmitt tekið upp á Vestfjörðum. Þess má geta að Ásrós og Katla stunda báðar nám við Menntaskólann á Ísafirði og Tónlistarskóla Ísafjarðar og gaman verður að fylgjast með þessum efnilegu Vestfirðingum í framtíðinni. Það er því upplagt að sjá þær stöllur hér á sunnanverðum Vestfjörðum þann 25. ágúst næstkomandi í Húsið-Creative Space á Patreksfirði.

Meira á Facebook

Skoða viðburð á Facebook