Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir u.þ.b. 3 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Heim­sókn vöru­hönn­un­ar­deildar LHÍ í Vest­ur­byggð

Nemendur á fyrsta ári í vöru­hönnun við Lista­há­skóla Íslands voru hér á svæðinu þessa vikuna. Í Vest­ur­byggð unnu nemendur með fundið efni sem fellur til við stað­bundna fram­leiðslu, að mögu­legum úr- eða viðbótum sem eru í takt við kröfur samfé­lagsins á staðnum.


Skrifað: 29. mars 2021

Fréttir

Vöruhönnun við Listaháskólann er kennd á BA stigi og fagstjóri brautarinnar er Rúna Thors.

Viðfangsefni vöruhönnuða eru síbreytileg, í takti við þær áskoranir sem samfélagið stendur frammi fyrir á hverjum tíma. Vöruhönnuðir leita leiða til að fræða, vekja fólk til umhugsunar, tækla vandamál, fegra umhverfið og vinna að bættu samfélagi. Staðbundnar aðstæður eru kannaðar í hnattrænu samhengi og hönnun nýtt sem afl til umbóta.

Í náminu kynnast nemendur fjölbreyttum tækjum og tólum sem þau geta nýtt til að móta og miðla hugmyndum sínum á skapandi hátt. Þau hljóta auk þess þjálfun í að vinna hönnunarverkefni í samstarfi við félög, fyrirtæki og stofnanir í samfélaginu.

Meðal þess sem nemendur á námsbrautinni hafa fengist við á undanförnum árum eru verkefni á sviði matarhönnunar, efnisrannsókna, staðbundinnar framleiðslu og getgátuhönnunar (e.speculative design).

Verkefnið er unnið í samvinnu við Vesturbyggð og fyrirtæki á staðnum.

Nemendur óskuðu eftir að eiga í samtali við íbúa og buðu gesti velkomna á vinnustofu sína sem staðsett var á veitingahúsinu Flak í Verbúðinni á Patreksfirði. Þar fengu þau gesti til sín sem sögðu þeim sögur og fræddu þau um Vesturbyggð, hvernig það er að búa hér, sögu staðarins og hvaða tækifæri leynast hér.

Í vikunni var boðið upp á kynningu á námi í Listkennslu fyrir starfsmenn leik- og grunnskóla í Vesturbyggð og listgreinakennari kom í heimsókn og aðstoðaði við undirbúning árshátíð grunnskólanna.

Því miður setti ný reglugerð heilbrigðisráðherra strik í reikningin en þau þurftu frá að hverfa vegna þeirra. Því féll niður málstofa sem átti að vera á föstudag.

Við hvetjum svo alla til að fylgjast með Vöruhönnun LHÍ á Instagram þar sem m.a. sýnt er frá ævintýrum nemenda vöruhönnunardeildar í Vesturbyggð þessa dagana og áframhaldandi vinnu þeirra með það efni og vitneskju sem þau söfnuðu hér. 

Kveðja frá Listaháskólanum

Okkur, bæði starfsfólk og nemendur, sem nutum þess að fá að sækja ykkur heim, langar að koma á framfæri innilegum þökkum. Við nutum einstakrar velvildar hvar sem fæti var stigið niður og gestrisni. Allt frá einstökum gestgjöfum okkar á veitingahúsinu Flak og starfsfólki Vesturbyggðar til allra þeirra sem gáfu sér tíma til þess að fræða okkur um þessa perlu sem Vesturbyggð er.

Því miður settu hertar sóttvarnarreglur okkur þannig takmarkanir að ekki náðist að klára vikuna og þótti okkur öllum leitt að þurfa að yfirgefa ykkur svo fljótt sem raun bar vitni.

Við þökkum innilega fyrir örlæti fyrirtækjanna á svæðinu sem gáfu nemendum efnivið sem gerir þeim kleift að halda áfram að vinna og við hvetjum ykkur til þess að fylgjast áfram með okkur á samfélagsmiðlum skólans.

Nemendur á 1. ári í vöruhönnun
Ásgerður Heimisdóttir
Gabriella Ósk Egilsdóttir
Guðrún Kolbeinsdóttir
Hlynur Arnarsson
Hrafnhildur Gunnarsdóttir
Kamilla Michelle Rún
Logi Pedro Stefánsson
Svala Grímsdóttir
Valgerður Birna Jónsdóttir 

Rúna Thors fagstjóri námsbrautar í vöruhönnun
Vigdís Másdóttir kynningarstjóri Listaháskólans
Katrín Helena Jónsdóttir verkefnastjóri hönnunardeild