Hoppa yfir valmynd

Upplýs­ingar varð­andi varn­ar­garða og snjósöfnun

Vest­ur­byggð vill koma eftir­far­andi upplýs­ingum á fram­færi við íbúa í ljósi þeirrar ofan­flóða­hættu vegna snjósöfn­unar sem verið hefur síðustu daga á sunn­an­verðum Vest­fjörðum.


Skrifað: 15. febrúar 2022

Fréttir

Búið er að klára nýjan varnargarð ofan við Aðalstræti og Urðargötu að því leyti að hæð veggjarins er komin í þá hæð sem verður, þannig að öryggi vegna hugsanlegrar ofanflóðahættu úr fjallinu, er mun meira nú í dag en verið hefur alla tíð fyrir tíma garðanna. Enn er eftir ýmis frágangur við umhverfi varnargarða ofan Aðalstrætis og Urðargötu sem klárast mun á árinu 2022 og að einhverju leyti á árinu 2023.

Varnargarður ofan við Hóla og Mýrar er komin af stað og búið er að móta hvernig garður munu liggja í landinu. Í umræðunni síðustu daga, eftir að flóð kom úr fjallinu ofan við þann garð í síðasta óveðri, hefur verið rætt um hvort sú framkvæmd sé þannig að framkvæmdasvæðið sé að valda meiri ógn en sem nemur örygginu sem hlýst af framkvæmdinni.

Verkið er unnið á ábyrgð Vesturbyggðar sem er framkvæmdaraðili. Í svo viðamiklu verki eru til aðstoðar allir þeir sérfræðingar sem hægt er að hafa aðgang að, þar má nefna sérfræðinga á sviðum hönnunar, veðurstofu, verkfræðistofa, ofanflóðavarna ásamt þeim sérfræðingum sem sinna eftirlitshlutverki fyrir sveitarfélagið og fylgjast reglulega með framvindu verkstöðu á staðnum.

Það að vera í miðju verki að byggja varnargarða sem verja mun byggð fyrir áföllum og fá svo flóð á þau mannvirki sem verið er að reisa er krefjandi og setur alla sem koma að svo stóru verki í þá stöðu að fara í ítarlega skoðun á öllum þáttum verksins og þannig var brugðist við í síðustu viku.

Við upplifðum það að snjóflóð féll á framkvæmdasvæði okkar í fjallinu og ógnaði jafnframt byggð þannig að rýma þurfti íbúðarhúsnæði. Í þessari framkvæmd við varnargarðana höfum við verið með einn af öflugustu verktökum á landinu, sem hefur unnið hörðum höndum að uppsetningu varnarvirkja og að mati flestra staðið sig með prýði í þeirri vinnu og þannig að eftir hefur verið tekið.

Í ljósi þeirra atburða sem orðið hafa og eftir að búið er að mestu að skoða hvernig og hvar flóð féll, vill sveitarfélagið sýna útreikninga á hvernig sá veggur sem kominn er, þó hann sé ekki kominn í fulla hæð hefur virkað sem vörn fyrir íbúa.

Mynd 1 sýnir útlínur á flóði sem lenti á garðinum þar sem hvíta línan er afmörkun á því svæði sem flóðið þakti en talið er að þykkt snjóa á upptakasvæði hafi verið um 0,5 metrar. Snjóþykkt við varnarvegg er þó meiri þar sem snjór náði að fara yfir vegg að hluta.

Snjóflóðið eins og það rann meðfram ókláruðum varnargarðinum skv. GPS-mælingu snjóathugunarmanns Veðurstofunnar á Patreksfirði
Mynd 1
Snjóflóðið eins og það rann meðfram ókláruðum varnargarðinum skv. GPS-mælingu snjóathugunarmanns Veðurstofunnar á Patreksfirði

Á mynd 2 eru sýndar niðurstöður líkanreikninga á því hvernig flóðið hefði líklega fallið ef ókláraður varnargarðurinn hefði ekki verið til staðar. Jafnframt sést á þeirri mynd yfirlit yfir þekkt snjóflóð sem fallið hafa úr fjallinu á þessum stað.

Líkankeyrsla sem sýnir mestu flóðdýpt í farvegi snjóflóðs. Um 0,5 m af snjó voru settir af stað úr sama upptakasvæði og flóð féll úr 7. febrúar 2022. Líkanreikningar eru til marks um áhrif vísis að varnarfleyg og efnishauga á snjóflóð af svipaðri stærð.
Mynd 2
Líkankeyrsla sem sýnir mestu flóðdýpt í farvegi snjóflóðs. Um 0,5 m af snjó voru settir af stað úr sama upptakasvæði og flóð féll úr 7. febrúar 2022. Líkanreikningar eru til marks um áhrif vísis að varnarfleyg og efnishauga á snjóflóð af svipaðri stærð.

Má ætla að unnt hefði verið að fara í frekari rýmingar á Patreksfirði ef ekki væru komnar þær varnir sem nú eru til staðar. Mjög blint var vegna töluverðrar úrkomu, ásamt því að vindur var öflugur í þeim veðurskilyrðum sem til staðar voru og því einsýnt að við þannig aðstæður er rýming sú leið sem farin er til að tryggja öryggi íbúa.

Sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs

Geir Gestsson geir@vesturbyggd.is / 450 2300