Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir næstum 6 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Aðgerðir gegn ágengum plöntum í bæjar­landinu

Í byrjun júlí vakti Narfi Hjart­arson athygli bæjarbúa á vanda­máli sem gæti stig­magnast á næstu árum og ef ekkert er gert í málinu, gæti það orðið óvið­ráð­an­legt. Þar er hann að tala um plöntur af sveip­jurtaætt sem eru aðgangs­harðar og erfiðar viður­eignar ef þær fá að leika lausum hala. Narfi hvatti bæjar­stjórn Vest­ur­byggðar að kynna sér leiðir til að halda þessum plöntum í skefjum og í kjöl­farið var Narfi kall­aður á fund bæjar­ráðs þar sem rætt var um mögu­legar aðgerðir gegn þessum vanda.

 


Skrifað: 18. júlí 2018

Fréttir

Íbúar Vesturbyggðar ættu að kynna sér réttar aðferðir við eyðingu á ágengum plöntum og förgun á plöntuleifum, en í sumum sveitum er það skylda hvers og eins að sjá um eyðingu þeirra á sínum blettum og er því lagt til að sem flestir nái sér í söx og taki blómsveipa plantnanna af áður en þær sleppa fræjum sínum. Það er einföld leið til að hemja útbreiðslu þeirra og skapa á sama tíma umhugsunarfrest fyrir raunverulegar aðgerðir. Fræ og rætur skal brenna. Ef leifum er hent á moldarhaug eða í lífræna gáma þá er verið að skapa meira vandamál.

Hér að neðan eru frekari upplýsingar frá Narfa um óæskilegar plöntutegundir í Vesturbyggð og leiðbeiningar um hvernig má koma í veg fyrir útbreiðslu þeirra.

Óæskilegar plöntutegundir í Vesturbyggð

Svo að kalla megi eitthvað óæskilegt þá þarf það ýmist að særa blygðunarkennd fólks eða að vera til trafala að einhverju viti, hér munu vera taldar upp nokkrar tegundir plantna sem eru nú þegar eða munu að öllum líkindum geta orðið til einhvers trafala hér í Vesturbyggð. Allar þessar plöntur voru upphaflega ræktaðar til skrauts/nytja og geta enn verið til mikillar prýði sé rétt farið að við ræktun þeirra, en í mörgum sveitum og bæjarfélögum hafa þær dreift sér og verið erfiðar viðureignar í ræktarlöndum vegna vaxtarþrótts og dreifingargetu. Þessar tegundir eru geitakál, skógarkerfill, spánarkerfill og tröllahvannir (bjarnarkló og tröllahvönn).

Hvers vegna eru þær til trafala?  Tegundirnar þrjár fyrrnefndu eru aðgangsfrekar og geta spillt gleði garðyrkju- og útivistarfólks við iðju sína, þær mynda allar þéttar breiður fái þær frið til þess og geta leitt til fábreytni í tegundafjölda svæða þar sem hér á landi eru enn sem komið er fáir sem engir afræningjar til staðar sem gætu þá hoggið skarð í skildi þeirra og hleypt öðrum tegundum að. Risahvannirnar búa yfir varnarefnum í safa sínum, fái einstaklingur safann á húðina verður hún ljósnæm og brennur. Því er um heilsufarsáhættu að ræða fyrir íbúa sem þekkja risahvannirnar ekki, einnig geta þær orðið ágengar og hafa sumar þjóðir lagt mikla fjármuni í eyðingu þeirra.

Geitakál

Geitakál líkist í fljótu bragði hvönn eða kerfli en er auðþekkt á þrískiptum blöðunum, jurtin fjölgar sér helst með skriðulum rótarrenglum en einnig með fræjum. Hún blómgast upp úr miðju sumri og eru blómin hvít á 30-50 cm háum stöngli.

Geitakáli er ekki eytt með slætti eða reytingu, eitur virkar illa en lílegast til lukku er að breiða yfir svæði sem það vex á með dúki eða þétt lögðum pappa með grasi eða kurli ofan á. Þetta skal gert áður en kálið byrjar að vaxa og að verki loknu skal fylgst með svæðinu vel, ef geitakálið sprettur aftur er þetta endurtekið eftir þörfum. Með þessari kæfingaraðferð fær plantan ekki sólarljós og klárar þá orkubirgðir í rótum sínum. Geitakál er næringarríkt, það var notað við þvagsýrugigt áður fyrr og er kjöt af búpeningi sem nær í geitakál sagt vera mjúkt og gott, því er tilvalið að nýta hana sem beitarjurt á þeim svæðum sem ekki verður við hana ráðið.

Athugið! Ef unnið er með mold sem smituð gæti verið af rótaröngum geitakálsins þá skal maður ekki flytja hana á milli staða, annars er hætt við aukinni dreifingu á plöntunni, ekki þarf nema smá brot af rót hennar og þá kemur upp nýr einstaklingur.

Geitakál
Geitakál

Skógarkerfill

Skógarkerfill er stórvaxin planta (0,3-1,5m) sem myndar langa stólparót ofan í jörðina, hann getur verið fjölær en er oftast ein- eða tvíær, fjölgun hans fer fram með fræjum eða  rótarskotum. Fræin þroskast frá enda júní og allan júlí og lifa oftast ekki nema einn vetur og myndast því ekki mikill fræforði í jarðveginum. Skógarkerfill sækist í að mynda samfelldar breiður og vegna stærðar sinnar getur hann kæft allan gróður sem er lægri en hann og stuðlað því að aukinni útskolun jarðvegs og áðurnefndri tegundafækkun. Skógarkerfilsbreiður skal slá þrisvar að sumri ef ætlunin er að losna við hann, uppræting virkar líka á minni svæðum, samhliða upprætingu má úða með náttúrvæna garðahreinsinum Undra. Undri fæst í flestum garða- og byggingarvöruverslunum á landinu. Allar leifar róta eða fræja skal þurrka og/eða brenna eða sjóða í potti, sé það ekki gert og leifunum hent í næstu órækt þá geta fleiri plöntur komið upp af þeim, þessi regla á við um allar plöntutegundirnar sem hér eru taldar upp.

 

Skógarkerfill
Skógarkerfill

Spánarkerfill

Spánarkerfill er líkur skógarkerfli en verður allt að tveggja metra hár, er ljósari að lit og hærður á laufum og stilkum, sé maður í vafa er best að  þekkja hann á sterkri aníslyktinni sem kemur af laufum hans og stilkum. Spánarkerfillinn fer hægar um en skógarkerfillinn en er aftur á móti fjölær og með hraustlegri rætur og því er erfiðara að eyða honum, en þó gildir sami verkháttur um eyðingu á honum og á skógarkerflinum. Áhugasamir um nýtingu villtra jurta skulu kynna sér spánarkerfilinn þar sem að hann hefur lengi verið nýttur af mönnum til matar, t.d. má búa til anís-vodka úr honum.

Spánarkerfill

Risahvannir

Bjarnarkló og tröllakló líkjast ofvöxnum hvönnum með stóra blómsveipi. Ekki verður farið í hvernig skal greina þessar tvær tegundir frá hvorri annarri en stærð þeirra fer ekki framhjá neinum, þær ná 3 m hæð (allt að 5 m í útlöndum) og eru með stór dökk blöð og hvíta blómsveipi. Myndin sýnir tröllakló. Uppræting er áhrifaríkust en búa þarf sig vel fyrir átökin og klæðast hlífðarfötum svo að safinn fari ekki á húð manns, sletti maður honum á sig og leyfir sólinni að sleikja húðina er verulega hætt við bruna/blöðrumyndun með tilheyrandi sársauka. Þessar tegundir eru mjög frjósamar og því mikilvægt að leyfa þeim ekki að fella fræ.

Risahvannir
Sár eftir risahvannir

Fyrir frekari spurningar eða ábendingar er hægt að hafa samband við skrifstofu Vesturbyggðar í síma 450-2300 eða á netfang vesturbyggd@vesturbyggd.is