Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir meira en 2 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Ástand í vatns­málum á Bíldudal

Síðasta helgi var lýsandi fyrir það baga­lega ástand sem uppi er í vatns­málum á Bíldudal um þessar mundir, vatns­laust og aftur vatns­laust. Síðustu ár hefur mikið verið unnið í endur­nýjun innviða sveit­ar­fé­lagsins til að m.a. bregðast við aukinni atvinnu­starf­semi og íbúa­fjölgun. Þótt við séum að vinna okkur niður listann þá er enn margt og mikið óunnið í okkar innviðum, eftir þá áratuga stöðnun sem var í sveit­ar­fé­laginu.


Skrifað: 6. september 2021

Fréttir

Það hefur ekki farið fram hjá íbúum Bíldudals hvað það er sem helst þarf að komast í lag, þannig að afhendingu á vatni verði tryggara. Tengja þarf nýja lögn sem komin er og liggur frá nýju vatnshúsi upp að Járnhól, ofan við Bíldudal.

Sjálfur vatnsskúrinn er kominn og tilbúinn til notkunar. Búið er að steypa undirstöður fyrir lagnir í skúrnum og búið er að setja saman þann búnað sem þar fer inn, eingöngu á eftir að koma þeim búnaði fyrir og tengja lögnina úr dalnum þar inn á.

Það er aftur á móti aðeins flóknara en bara að tengja, það þarf til dæmis að finna lausn á því hvernig farið verður með lögn að landi Litlu Eyri frá vatnshúsi, en ekki er komin endanleg ákvörðun um legu lagnarinnar þar, sem þó þyrfti, þar sem tengingar frá vatnskúr niður í þorpið tekur mið að því hvernig lagnir um land Litlu Eyri er tengt við aðallögn. Það verk þarf að vinnast í sátt við landeigendur og er hluti að þeirri vinnu ásamt hreinsun á Azbest lögnum sem verða aflagðar er nýjar leiðslur verða teknar í notkun.

Í þeim mikla uppgangi sem verið hefur og er í gangi í okkar öfluga samfélagi þá þurfum við starfsmenn Vesturbyggðar að forgangsraða verkefnum og hafa síðustu vikur verkefni er tengjast undirbúningi fyrir malbikunarframkvæmdir sem framundan eru haft algjöran forgang. Var því áhersla lögð á að ljúka við að hringtengja lögn á hafnarsvæðinu á Bíldudal á þessu tímapunkti, fremur en að ljúka vinnu við að tengja vatnsskúr, þannig að ekki þyrfti að rífa nýtt malbik upp til að lagfæra leiðslur.

Það eru öflug fyrirtæki á Bíldudal, bæði er kemur að framleiðslu matvæla og matreiðslu, sem verða að hafa öryggi er kemur að afhendingu á vatni. Vesturbyggð leggur áherslu á að gæta þess að þessi fyrirtæki séu ávallt upplýst um stöðu mála eins vel og þeir sem stýra sveitarfélaginu eru sjálf á hverjum tímapunkti. Leitast er við að ef þarf að loka fyrir vatn þá sé sú vinna unnin í samráði við fyrirtækin á svæðinu. Bilanir í kerfinu okkar gera þó ekki boð á undan sér, en reynt er að upplýsa alla aðila um leið og þá er brugðist strax við.

Framhaldið næstu daga eða vikur verður að tengja nýju lögnina þannig að gamla Azbest lögnin verði aflögð ásamt því að búnaður sem búið er að setja saman og tryggja á jafnþrýsting á afhendingu á vatni verði tengdur við lögnina. Unnið er í því að fá verktaka og eða aðra sem þarf til verksins þannig að hægt verði að byrja á þessu verki á morgun og er horft til þess að hægt verði að tengja í þessari eða næstu viku.

Vesturbyggð harmar það ástand sem hefur skapast í vatnsmálum á Bíldudal og bindur vonir við að með framkvæmdunum fram undan verði staða vatnsmála verulega bætt.

Sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs

Geir Gestsson geir@vesturbyggd.is / 450 2300