Barnamenningarhátíðin Púkinn
Púkinn, barnamenningarhátíð sem haldin er um alla Vestfirði, verður haldinn í þriðja sinn dagana 31. mars til 11. apríl 2025.
Hátíðin var haldin í fyrsta sinn í september 2023 og aftur í smækkaðri mynd vorið 2024. Púkinn er vettvangur fyrir vestfirsk börn að kynnast listum og menningu á fjölbreyttan hátt og einnig er hann kjörinn til allra handa samstarfs innan svæðisins. Púkinn er hugsaður sem vettvangur fyrir menningu með börnum, menningu fyrir börn og menningu sem börn skapa sjálf.
Grunnskólabörn á Vestfjörðum völdu nafnið Púkinn fyrir hátíðina. Er það vel við hæfi því á mörgum stöðum innan fjórðungsins hafa börn gjarnan verið kölluð púkar, þá ekki í neinni niðrandi merkingu heldur einvörðungu sem annað heiti yfir börn.
Vestfjarðastofa sinnir verkefnisstjórn hátíðarinnar en framkvæmdaaðilar viðburða eru menningarstofnanir, skólar og einstaklingar á Vestfjörðum. Hátíðin á í góðu samstarfi við List fyrir alla og er styrkt af Barnamenningarsjóði.
Upplýsingar um viðburði Púkans má finna á heimasíðu Vestfjarðastofu á hlekknum hér fyrir neðan. Viðburðir sem verða í Vesturbyggð eru vinnustofur í söng- og leiklist, valdeflandi leiklistarsmiðja, Sæskrímslabúrið og Tröllin allt í kringum okkur.