Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir næstum 3 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Bláfáninn 2021 í Vest­ur­byggð

Vest­ur­byggð fékk afhentan í gær Bláfánann fyrir smábáta­hafn­irnar á Patreks­firði og í Bíldudal. Bláfáninn er alþjóðleg umhverf­is­vottun í boði fyrir baðstrendur, ferða­þjón­ustu­báta og smábáta­hafnir og þurfa umsækj­endur sem hljóta Bláfánann að hafa staðist strangar kröfur á sviði umhverf­is­mála, öryggis, fræðslu og samfé­lags­legrar ábyrgðar.

 


Skrifað: 20. maí 2021

Fréttir

Niðurstöður úttekta eru staðfestar af innlendri vottunarnefnd skipaðri aðilum sem er sérfræðingar hver á sínu sviði auk alþjóðlegrar vottunarnefndar sem tryggir sambærileg gæði á kröfum og úttektum um allan heim.

Það er til marks um metnað Vesturbyggðar að þetta er áttunda árið í röð sem Patrekshöfn hlýtur þessa vottun og hið sjöunda hjá Bíldudalshöfn. Hafnirnar í Vesturbyggð hafa þá sérstöðu að vera nyrstu Bláfánastaðir heims en fara þarf til Suður Afríku til að finna þær syðstu. Glöggir landsmenn sem ferðast hafa til Kanaríeyja hafa eflaust rekið augun í Bláfánann á þeim tæplega 40 ströndum sem þar eru vottaðar, til viðbótar við smábátahafnir og ferðaþjónustubáta. Líkt og smábátahafnir Patrekshafnar og Bíldudalshafnar eiga þeir staðir sem flagga Bláfánanum það sameiginlegt að leggja mikið af mörkum til umhverfismála og gæta að öryggi notenda og vegfarenda sinna svæða. Það getur því borgað sig að fylgjast með hvar Bláfáninn blaktir við hún þegar velja á afþreyingu eða áningarstað við sjávarsíðuna.

Það var hafnarstjóri Vesturbyggðar, Elfar Steinn Karlsson sem tók við Bláfánunum tveimur úr hendi Ragnars Þórðarsonar frá Vottunarstofunni Túni ehf. sem fer með framkvæmd og eftirlit Bláfánans á Íslandi.