Hoppa yfir valmynd

Breiða­fjarð­ar­ferjan Baldur til sýnis

Formleg móttaka ferj­unnar Baldurs verður haldin í Stykk­is­hólmi föstu­daginn 17. nóvember klukkan 15:00 til 17:00. Íbúar norðan megin Breiða­fjarðar fá tæki­færi til að skoða ferjuna í Brjánslæk, sunnu­daginn 19. nóvember milli klukkan 17:00 og 18:00.

Íbúum og öðrum gestum gefst þá tæki­færi til að þiggja kaffi og kökur um borð í skipinu og skoða farþega­rými þess.

 


Skrifað: 14. nóvember 2023

Saga Breiðafjarðarferjunnar Baldurs er löng en skip með þetta nafn hefur nýst til ferjusiglinga í nærri heila öld. Því þótti við hæfi, þegar Vegagerðin keypti ferjuna Röst frá Noregi, að hún fengi einnig nafnið Baldur.

Stærsti kostur nýju ferjunnar er að hún er með tvö aðskilin framdrifskerfi þ.e. hún er útbúin tveimur aðalvélum og tveim skrúfum sem stóreykur öryggi farþega. Einnig er hún með öfluga veltiugga sem gerir siglinguna þægilegri og farþegarými er allt á sama dekki. Þá er hún 12 árum yngri en núverandi ferja og aðstaða fyrir farþega er mun þægilegri.

Nýi Baldur tekur 250 farþega og rúmar fimm stóra flutningabíla.

Til að ferjan gæti þjónað siglingum á Breiðafirði þurfi að ráðast í nokkrar breytingar. Skipið fór í slipp við komuna til landsins hjá Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf. í Hafnarfirði sem átti lægsta boð í breytingarnar. Þær fólu m.a. í sér að koma fyrir nýjum þilfarskrana, landfestuvindum, færa til lyftibjörgunarbáta, útbúa geymslusvæði á þilfari og mála skipið að utan. Einnig þurfti að vinna að almennu viðhaldi véla og búnaðar.

Vegagerðin hefur gert samning við Sæferðir um rekstur Breiðafjarðarferjunnar Baldurs.