Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir meira en 1 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Dagbók bæjar­stjóra 28. sept­ember - 17. október

Síðustu vikur hafa einkennst af fundum, ferða­lögum og ráðstefnum. Í sept­ember og október ár hvert eru bæjar­stjórar og bæjar­stjórn­ar­full­trúar á ýmsum ráðstefnum og fundum með hinu opin­bera og öðrum full­trúum sveit­ar­fé­laga. Þessir fundir gefa manni alltaf ákveðinn innblástur og efla tengsl við fólk sem vinnur að sömu verk­efnum og við hér í Vest­ur­byggð. Ég viður­kenni þó að ég hlakka til þegar ferða­lög­unum fer að fækka aðeins.


Skrifað: 21. október 2022

Dagbók bæjarstjóra

Norðurland

Í lok september var ég á Norðurlandi. Ég ætlaði að skreppa á Austurland og fræðast um það hvernig Austfirðingar hafa skipulagt heimastjórnirnar hjá sér, en vegna óveðurs og slæms ástands á Austurlandi var skipulagi ferðarinnar breytt. Ég vann í fjarvinnu og átti fundi með bæjarstjóra Akureyrarbæjar, Norðurþings og Dalvíkurbyggðar. Átti gott samtal við þær og er viss um að samtöl okkar eiga eftir að verða mun fleiri.

Vetrarfærð

 

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga, með yfirskriftina Grunnur að góðu samfélagi, var síðan haldið á Akureyri 28.-30. september. Anna Vilborg Rúnarsdóttir, Þórkatla Soffía Ólafsdóttir og undirrituð mættum á Landsþingið, þær fyrrnefndu með atkvæðisrétt sem kjörnir fulltrúar. Sveitarfélög tilnefna tiltekinn fjölda fulltrúa, eftir stærð sveitarfélaganna, en þingið er ætlað sveitarstjórnarfulltrúum, sveitarstjórum og fulltrúum landshlutasamtakanna.

Á þinginu er unnið að stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarstjórnarfólk stillir saman strengi sína fyrir næstu fjögur ár. Mikil samstaða var á þinginu og voru fulltrúar sammála um að bæta samtal og samráð sín á milli, skein í gegn vilji fulltrúa til að vinna vel saman og tryggja sameiginlega hagsmuni. Áhersla var lögð á að bæta samstarf ríkis og sveitarfélaga til þess að tryggja að þjónusta við viðkvæmustu hópa þjóðfélagsins sé í samræmi við stefnumörkun ríkisins í þjónustu. Yfirfærslu málaflokka frá ríki til sveitarfélaga hefur ekki fylgt fjármagn til að standa undir þjónustunni sem hefur neikvæð áhrif á fjárhagsstöðu sveitarfélaga sem þarf að leiðrétta. Það var gríðarlega gaman að hitta allt það góða fólk sem tók þátt í ráðstefnunni og kynnast nýju fólki.

Fulltrúar frá Vestfjörðum

 

Heimastjórnir

Á Landsþinginni nýttu fulltrúar Vesturbyggðar tækifærið og settust niður með Birni Ingimarssyni, sveitarstjóra Múlaþings, og fengum hann til að kynna fyrirkomulag heimastjórnanna fyrir okkur. Ég fékk mun betri skilning á því hvernig heimastjórnirnar munu virka og hlakka ég til að innleiða þær í Vesturbyggð. Upphaflega var áætlað að innleiða heimastjórnirnar núna í haust, en á næsta bæjarráðsfundi verður umræða um innleiðingarferlið og tekin ákvörðun um hvernig við vinnum næstu skref.

Þórdís, Þórkatla, Anna Vilborg og Björn

 

Menntastefna Vestfjarða – þekkingarsamfélagið Vestfirðir

Í byrjun október var haldinn opinn íbúafundur á Patreksfirði, en í sóknaráætlun Vestfjarða er mikil áhersla lögð á hækkun menntunarstigs Vestfjarða og meðal áherslumála er gerð menntastefnu fyrir Vestfirði. Verkefnið er samstarfsverkefni Vestfjarðastofu, Menntaskólans á Ísafirði, Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og Háskólaseturs Vestfjarða. Markmið verkefnisins er að greina stöðu, strauma og stefnur til að móta sameiginlega framtíðarsýn og aðgerðaáætlun um hvernig megi efla skólastarf frá leikskóla til háskóla. Mjög góð mæting var á fundinn, en hann var ætlaður íbúum sunnanverðra Vestfjarða. Það voru virkilega góðar umræður á fundinum en unnið var í hópum um tiltekin áhersluatriði. Ný skólastefna var samþykkt fyrir Vesturbyggð í maí á þessu ári en menntastefnan er á aðeins öðru stigi. Ég kýs að tala um þekkingarsamfélagið Vestfirði, þar sem mér finnst það ná betur utan um það verkefni sem við stöndum frammi fyrir.

Öll þau sem hafa áhuga á menntamálum erum velkomin og hvött til að taka þátt.

Menntastefna Vestfjarða rædd

 

Fjárhagsáætlun

Fjárhagsáætlun er helsta stjórntæki sveitarfélaga til að ná fram markmiðum sínum í rekstri og fjárfestingum. Fjárhagsáætlanir afmarka heimildir sviða og stofnana næsta árs, en ekki er heimilt að bregða út frá þeim nema með gerð viðauka við fjárhagsáætlun. Það er því mikilvægt að vanda vinnuna við gerð fjárhagsáætlunar. Einn þáttur í þeirri vinnu Vesturbyggðar eru vinnufundir bæjarstjórnarfulltrúa, fjármálastjóra og bæjarstjóra með deildarstjórum sveitarfélagsins. Deildarstjórarnir kynna þar sín helstu áhersluatriði og ef það er eitthvað sem þau hafa hug á að breyta í rekstri. Þessir fundir gáfu mér tækifæri til að kynnast rekstri deilda og stofnananna betur sem og stjórnendum þeirra. Við erum heppin með það fólk sem vinnur fyrir sveitarfélagið og eru þau meðvituð um mikilvægi þess að setja fram stefnu í fjármálum og framfylgja henni. Það eru auðvitað fullt af verkefnum sem við myndum vilja ganga í á næsta ári, en við verðum að stilla rammann í samræmi við tekjur sveitarfélagsins og skipuleggja okkur vel.

Bíldudalsskóli

Haldinn var fundur með foreldrum nemenda Bíldudalsskóla og starfsfólki. Á fundinum fór starfsfólk Eflu verkfræðistofu yfir niðurstöður úttektar á ástandi húsnæðis Bíldudalsskóla, Elsa Ísfold skólastjóri fór yfir núverandi skipulag skólans og voru umræður um leiðir í framtíðarskipulagi húsnæðismála skólans. Starfsemi skólans hefur nú verið flutt í Gamla grunnskólann og Skrímslasetrið, en það er hugsuð sem tímabundin lausn. Á fundinum kom fram skýr vilji foreldra og starfsfólks að skoða aðra möguleika en að gera nauðsynlegar endurbætur á húsnæðinu, þ.e. að byggja nýtt skólahúsnæði sem yrði þá jafnframt nýtt fyrir leikskólann Tjarnabrekku. Nú er unnið að því að gera núverandi aðstæður viðunandi fyrir starfsfólk og nemendur og næstu vikur verða skoðaðar framtíðarúrbætur í húsnæðismálum skólastarfs á Bíldudal.

Vel mætt á fund

 

Kjördæmafundur í Bolungarvík

Á hverju ári er ein vika sem er tilgreind sem kjördæmavika á Alþingi. Þá vikuna nýta þingmenn kjördæmisins tímann til þess að kíkja í heimsókn í sitt kjördæmi, hitta sveitarstjórnarfólk, íbúa og fulltrúa atvinnulífs.

Þingmannafundurinn með sveitarstjórnarfólki var að þessu sinni í Bolungarvík og mættum við Þórkatla á fundinn fyrir hönd Vesturbyggðar. Hafði ég framsögu fyrir hönd Veturbyggðar þar sem ég lagði áherslu á tekjuöflun, bættar samgöngur, skort á húsnæði og fjölbreytt atvinnulíf  auk þess að benda á fjölmörg þeirra jákvæðu verkefna sem eru í gangi í sveitarfélaginu okkar.

Þingmennirnir Stefán Vagn Stefánsson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Bergþór Ólason mættu auk þingmannsins og utanríkisráðherrans Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur og þakka ég þeim hér með kærlega fyrir samtalið.

Kjördæmafundur í Bolungarvík

 

Fjármálaráðstefnan

Fjármálaráðstefna sveitarfélaganna var haldin á Hilton Hóteli í síðustu viku. Fulltrúar Vesturbyggðar voru að þessu sinni Jón Árnason, Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir, Gerður Björk Sveinsdóttir auk undirritaðrar. Fjármálaráðstefnan er ætluð stjórnendum og sveitar­stjórnarfulltrúum sveitarfélaganna og var að venju mjög fjölmenn. Á fjármálaráðstefnunni eru ýmis fræðsluerindi sem eru með ólíkum hætti milli ára, allt eftir því hvað er hæst á baugi hverju sinni. Að þessu sinni var mikið rætt um skort á fjármögnun þjónustu við fatlað fólk, fjárhagsáætlanagerð á árinu 2022 og nauðsynlega uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

Í kringum fjármálaráðstefnu hverju sinni eru haldnir ýmsir fundir í hagsmunasamtökum sveitarfélaganna. Ég mætti t.d. á aðalfund Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, þar sem ég tók jafnframt sæti í stjórn, fund vegna Brákar hses. og ársfund Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Gerður var fulltrúi okkar á ársfundi Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum.

Gerður, Svanhvít, Jón og Þórdís

 

Fundur með innviðaráðherra

Við óskuðum eftir fundi með Sigurði Inga innviðaráðherra í samráði við Tálknafjarðarhrepp til að ræða nokkur áhersluatriði sveitarfélaganna. Auk mín voru Þórkatla Soffía Ólafsdóttir, Lilja Magnúsdóttir og Guðlaugur Jónsson mætt til fundarins, en fjöldi embættismanna voru jafnframt viðstödd á vegum ráðherra og því góð aðkoma þeirra sem vinna að málunum á fundinum. Fundurinn var aðeins 30 mínútur og því nauðsynlegt að nýta tímann aðeins í það allra nauðsynlegasta að þessu sinni. Við spurðum m.a. um framvindu og útboð í tengslum við veglagningu Vestfjarðarvegar 60 um Gufudalssveit þar sem við vorum upplýst um að allt væri á ætlun, einnig lýstum við yfir nauðsyn þess að tryggja samgöngur með ferju yfir Breiðarfjörð, en breytingar þar á eru áætlaðar á fjárlögum ársins, einnig lögðum við áherslu á vetrarþjónustu, göng undir Mikladal og Hálfdán og breytingu á hafnarlögunum. Um ágætis fund var að ræða sem við munum fylgja eftir með erindum til ráðuneytisins og áframhaldandi samræðna og samráðs.

Innviðaráðherra

 

Húsbyggingar

Það er mjög ánægjulegt að sjá byggingar á íbúðarhúsnæði bæði á Bíldudal og Patreksfirði. Parhús á Bölum á Patreksfirði er risið og bygging á öðru parhúsi þegar hafin.

Botnplata 10 íbúða húss að Hafnarbraut 9 á Bíldudal hefur verið steypt, en áætlað er að húsnæðið verði risið fyrir lok nóvember 2022. Afhending íbúða er á vormánuðum.

Framkvæmdir á Bíldudal

 

Sorpmál

Fulltrúar Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhepps áttu verkfund með Kubb vegna sorpflokkunar og endurvinnslu í sveitarfélögunum. Farið var yfir ákvæði samnings og skyldur Kubbs gagnvart honum. Mikið var rætt um flokkun, en Kubbur mun skipuleggja fund með íbúum sveitarfélaganna þar sem við fáum kynningu á því hvernig sorpflokkun á að fara fram. Eitt af því sem var rætt var að við þurfum að passa okkur að setja ekki plast með lífræna sorpinu, en í vikunni var grænum pokum dreift til íbúa sem ætlaðir eru fyrir lífræna sorpið. Ýmsir aðrir pokar, eins og maís pokar sem keyptir eru sem einnota innkaupapokar brotna ekki nógu hratt niður fyrir moltunarferlið. Því hvet ég ykkur til að nota grænu pokana sem við vorum að fá og halda áfram að vera dugleg að flokka.

Sorphirða og flokkun

 

Ofanflóðavarnir

Verkfundir hafa verið reglulega vegna vinnunnar sem er í gangi vegna ofanflóðavarna. Enn fremur funduðum við með fulltrúum Ofanflóðasjóðs nýlega vegna frekari ofanflóðavarna bæði á Bíldudal og Patreksfirði. Ekki liggur fyrir hvenær farið verður í næstu varnir, en við þurfum að halda því gagnvart ríkinu að standa við fyrirætlanir sínar um að klára ofanflóðavarnir fyrir 2030. Ofanflóðasjóður mun halda fund með íbúum um hættumatslínuna, stöðu framkvæmda og þýðingu ofanflóðavarna fyrir svæðið.

Ofanflóðavarnir á Patreksfirði

 

Hitt og þetta og allskonar skemmtilegt

Valdimar Gunnarsson, Arnar Guðmundsson og Jens Hróðmar Valdimarsson hittu bæjarfulltrú a og embættismenn á Skrímslasetrinu og kynntu okkur áform sín um uppbyggingu gamalla húsa við höfnina á Bíldudal. Um er að ræða hús sem stóðu á Bíldudal og voru mikið bæjarprýði, hugmyndin er að byggja þau upp að nýju sem hótel.

Uppbygging á Bíldudal

Kári Schram og Arnaldur Schram kynntu svo fyrir mér verkefni sem verið er að vinna að í Selárdal af þeim sem hafa séð um rekstur Listasafn Samúels Jónssonar um árabil. Um að ræða spennandi verkefni, með áherslu á menningartengda ferðaþjónustu.

Runólfur Ágústsson og Valdimar Ármann kynntu fyrir okkur áform um stofnun nýs Fjárfestingasjóðs sem sérhæfir sig í fjárfestingum á Vestfjörðum. Nú er verið að leita til fjárfesta á Vestfjörðum til þátttöku á móti öðrum fagfjárfestum. Ef þið hafið áhuga, endilega látið heyra í ykkur.

Ég fundaði með Jóni Kr. Ólafssyni, söngvara, á Bíldudal og áttum við ágætis spjall um fortíð og nútíð og var ég leist út með bókinni hans Melódíur minninganna sem var árituð af Jóni með skilaboðunum „Lífið er vinátta gættu hennar vel“ sem ég held að séu ágætis skilaboð til okkar í svona rétt í lok þessa pistils.

Síðan ég flutti hef ég töluvert notað flugvöllinn á Bíldudal og notið þjónustu Norlandair. Ég verð að benda á mikilvægi þessara samgangna, hversu gott það er að geta sinnt erindum milli fluga þá daga sem það eru tvö flug á viku og hvað loftbrúin skiptir miklu máli fyrir íbúa svæðisins. Ég vil þakka Isavia og Norlandair fyrir góða þjónustu – en síðast þegar ég var á flugvellinum var öllum boðið í köku í tilefni afmælisdags flugvallarstjórans Patreks Súna Reehaug.

Afmælisgleði á Bíldudalsflugvelli

 

Smá þakkir í lokin

Takk Lions og Krúttmaganefnd fyrir að halda Kúttmagann og Krúttmagann og stuðla þannig að enn skemmtilegra og betra samfélagi. Takk Eyrún og Inga fyrir að halda úti æfingum fyrir alla í íþróttahúsinu 2svar í viku. Takk þau sem eru svo ótrúlega öflug að fara í sjóinn og leyfa mér að fljóta með öðru hvoru.

Fleiri myndir hér fyrir neðan, hægt að fletta með því að velja örina fyrir miðri mynd

Þrjár kynslóðir Bæjarstjóra hjá Vesturbyggð