Hoppa yfir valmynd
Athugið að þessi færsla var skrifuð fyrir meira en 3 ári síðan, og því gæti innihald hennar ekki átt við lengur.

Dagur reyk­skynj­arans

Vest­ur­byggð vill minna alla íbúa á dag reyk­skynj­arans sem er 1. desember. Þess vegna vill Vest­ur­byggð fá aðstoð íbúa við að vera dugleg að hnippa í hvorn annan til þess að fækka þeim frávikum þar sem ekki eru reyk­skynjari á heimili.


Skrifað: 1. desember 2020

Fréttir

Gallup gerði könnunina fyrir Eldvarnabandalagið 30. september til 7. október síðastliðinn. Góðu fréttirnar eru þær að könnunin sýnir, eins og fyrri kannanir, að heimilin auka eldvarnir sínar jafnt og þétt. Æ færri hafa engan eða bara einn reykskynjara en að sama skapi fjölgar þeim sem hafa þrjá eða fleiri. Mun algengara er nú en fyrir tíu árum að slökkvitæki og eldvarnateppi séu á heimilum.

Frávikin frá þessu eru þó óþægilega mikil og mörg. Þannig er fólk á aldrinum 25-34 ára mun ólíklegra en aðrir til að hafa eldvarnateppi og slökkvitæki á heimilinu. Eldvarnateppi eru að meðaltali á 64,3 prósent heimila en aðeins hjá 48 prósent í umræddum aldurshópi.

Könnunin leiðir í ljós að eldvarnir í fjölbýlishúsum eru lakari en almennt gerist og þá sérstaklega í stærri fjölbýlishúsum. Íbúar í leiguhúsnæði eru sem fyrr mun verr búnir undir eldsvoða en aðrir. Könnun Gallup leiðir í ljós að í 45 prósent íbúða í leiguhúsnæði er enginn eða aðeins einn reykskynjari. Sambærilegt hlutfall á landsvísu er 28 prósent.

Þess vegna vill Vesturbyggð fá aðstoð íbúa við að vera dugleg að hnippa í hvorn annan til þess að fækka þeim frávikum þar sem ekki eru reykskynjari á heimili og einnig leggja áherslu á eftirfarandi:

  • Best er að hafa reykskynjara í öllum rýmum
  • Slökkvitæki á að vera við helstu flóttaleið
  • Eldvarnateppi á að vera á sýnilegum stað í eldhúsi
  • Tryggja þarf öllum á heimilinu að minnsta kosti tvær flóttaleiðir
  • Að allir þekki neyðarnúmerið 112, líka börnin

Efling eldvarna er liður í því að auka öryggi jafnt barna sem fullorðinna á heimilinu. Slökkviliðið hefur heimsótt öll skólabörn fyrir jól en í ár verður smávægileg breyting vegna ástandsins og verður börnum boðin í heimsókn til slökkviliðs í vor þegar ástandið verður vonandi bærilegra. Þar fá þau fræðslu um brunavarnir ásamt því að gera eitthvað skemmtilegt með slökkviliðinu.

Um leið og við hvetjum fólk til að hafa nauðsynlegan eldvarnabúnað á heimilinu leggjum við ekki síður áherslu á mikilvægi þess að fara varlega í daglegri umgengni á heimilinu. Á næstu vikum ríður sérstaklega á að fara varlega með opinn eld t.d. kertaljós. Munið að slaka ekki á klónni þótt jólahátíðinni ljúki og nýtt ár gangi í garð því reynslan sýnir að eldsvoðar á heimilum eru ekki síður algengir á fyrstu vikum ársins en á aðventu og um jól.