Hoppa yfir valmynd

Arnarlax sýknað af kröfu Vest­ur­byggðar


Skrifað: 9. nóvember 2023

Í dag var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Vestfjarða í máli Vesturbyggðar gegn Arnarlaxi ehf. Arnarlax var sýknað af kröfum Vesturbyggðar og innheimta aflagjalda af eldisfiski talin ólögmæt. Niðurstaða dómsins byggir á því að eldisfiskur teljist ekki sjávarafli og því sé ekki lagastoð fyrir álagningu aflagjalds af fiski sem landað er úr sjókvíaeldi. Ekki er hægt að túlka niðurstöðuna með öðrum hætti en áfellisdóm yfir löggjafanum.

Hafnagjöld, þ.m.t. aflagjöld, eru grunnforsenda fyrir uppbyggingu hafna sem eru hjarta atvinnulífs í sjávarbyggðum. Samkvæmt þeim lagaramma sem höfnum er settur þá er innheimta aflagjalda eina færa leiðin til þess að innheimta gjöld af þeim eldisfiski sem fer um hafnirnar. Sveitarfélög hefðu ekki getað farið í uppbyggingu á hafnarmannvirkjum í kringum sjókvíaeldi ef þau hefðu ekki talið að það væri heimild til að taka þjónustugjöld af eldisfisk vegna afla úr sjókvíum líkt og vegna annars afla.

Dómurinn hefur ekki aðeins áhrif á Vesturbyggð heldur víðtæk áhrif á öll sveitarfélög þar sem fiskeldi er stundað í sjókvíum. Vesturbyggð mun áfrýja dómnum.