Hoppa yfir valmynd

Drög að endur­skoð­uðum samþykktum um stjórn Vest­ur­byggðar

Á 369. fundi bæjar­stjórnar Vest­ur­byggðar voru rædd fyrri umræðu drög að endur­skoð­uðum samþykktum um stjórn Vest­ur­byggðar.


Skrifað: 25. mars 2022

Fréttir

Í drögum að samþykkt um stjórn Vesturbyggðar eru lagðar til breytingar sem snúa að nefndarskipan sveitarfélagsins. Í samræmi við 38. gr. sveitarstjórnarlaga er gert ráð fyrir að kosið verði í þrjár heimastjórnir sem fara með afmörkuð málefni og málaflokka innan tiltekinna svæða innan Vesturbyggðar. Heimastjórnirnar taka m.a. við málefnum hafna- og atvinnumálaráðs og menningar- og ferðamálaráðs og að hluta þeim málefnum sem skipulags- og umhverfisráð ber skv. núgildandi samþykktum að fjalla um. Þá er mælt fyrir um breytingar á hlutverki skipulags- og umhverfisráðs sem verður umhverfis- og framkvæmdaráð og mun það m.a. gegna hlutverki hafnarstjórnar skv. hafnalögum.

Gert er ráð fyrir að í hverri heimastjórn verði kosnir tveir aðalfulltrúar og tveir til vara en formaður verði skipaður af bæjarstjórn og skal hann vera aðalmaður í bæjarstjórn. Við vinnslu draganna var m.a. litið til samþykkta um stjórn Múlaþings, þar sem heimastjórnir hafa verið starfandi í nokkur ár.

Samkvæmt drögunum yrðu heimastjórnirnar eftirfarandi:

  • Heimastjórn Patreksfirði
  • Heimastjórn Arnarfirði
  • Heimastjórn Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps

Valdmörk heimastjórna eru miðuð við sveitarfélagsmörk Patrekshrepps, Bíldudalshrepps, Barðastrandahrepps og Rauðasandshrepps 10. júní 1994.

Þá hafa drögin verið uppfærð í samræmi við auglýsingu um fyrirmynd að samþykkt um stjórn sveitarfélaga nr. 1180/2021 og leiðbeiningum innviðaráðuneytisins um ritun fundargerða og þátttöku nefndarmanna á fundum með rafrænum hætti.

Með þessari breytingu á nefndarskipan og að setja á heimastjórnir í Vesturbyggð er það von bæjarstjórnar að aukin skilvirkni og betri tenging fáist milli svæða innan sveitarfélagsins og íbúar fái þannig aukið hlutverk til að fjalla um þau málefni er snúa að sínu nærumhverfi.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hvetur alla til að kynna sér drögin vel og skila ábendingum og athugasemdum um drögin. Frestur til að skila umsögn um drögin er til og með 25. mars 2022 og óskast athugasemdir og ábendingar sendar á netfangið vesturbyggd@vesturbyggd.is